23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6076 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

359. mál, fjáröflun til Skáksambands Íslands

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 691 um sérstaka fjáröflun til Skáksambands Íslands. Flm. að þessu frv. ásamt mér eru hv. þm. Albert Guðmundsson og Steingrímur J. Sigfússon.

Frv. þetta kveður á um að greiðslukortafyrirtæki skuli greiða sérstakt gjald og gjaldinu skuli verja óskiptu til Skáksambands Íslands. Hér er um að ræða 20 kr. af hverju greiðslukorti sem korthafi skal inna af hendi og skal skila gjaldinu mánaðarlega til ríkisféhirðis sem síðan skilar því mánaðarlega til Skáksambands Íslands.

Undanþegnir þessu gjaldi eru þeir sem ekki hafa greitt útskriftargjald, en það eru þeir sem nota greiðslukort sitt lítið eða ekki og eru með upphæð á útskrift hverju sinni undir ákveðinni tölu, að ég hygg um 1500 kr.

Gert er ráð fyrir að þetta gjald eða þessar tvær 10 kr. fylgi framfærsluvísitölu og á gjaldinu verði breyting einu sinni á ári í janúar ár hvert og þá í fyrsta skipti árið 1989.

Svo sem menn geta leitt getum að er þetta frv. flutt til að afla fjár og hlúa að skáklífi í landinu, en það hefur verið mikil gróska að undanförnu í skáklífi Íslendinga. Skáksamband Íslands er hins vegar mjög vanbúið fjárhagslega til að rækta þann gróður sem er í landinu. Verkefni eru mörg fram undan hjá skákhreyfingunni, en fé afar lítið.

Menn kunna að velta því fyrir sér: hvers vegna skák? Hvers vegna velja menn þessa leið til að afla fjár til skákhreyfingarinnar? Og í framhaldi af því hafa margir spurt: Hvernig stendur á því að fullorðnir menn hafa varið allri ævi sinni til að færa trémenn af hvítum reitum á svarta? Hvaða munur er í rauninni á lúdó og skák? Er hann þá nokkur? Hvaða undraafl er það sem skáklistinni fylgir og seiðir menn yfir höf og lönd til að þreyta keppni við aðra? Sannleikurinn er sá að lærðir menn hafa ritað langar ritgerðir um hvort telja skuli skákina list, íþrótt eða vísindi. Skákin er samsett af ótrúlegum andstæðum og miklum fjölbreytileika. Sem dæmi um það má nefna að skákin er svo gömul að uppruna hennar þekkir í raun enginn eða veit. Eigi að síður nær enginn langt í skák án þess að fylgjast stöðugt með nýjungum og þeir sem langt vilja ná þurfa að búa yfir eða hafa í fórum sínum bókasafn yfir skák sem tekur fram fræðiritum að magni til í flestum háskólagreinum. Þó skáklistin sé í sjálfu sér takmörkuð við 64 reiti á einu borði er hún algerlega takmarkalaus í flækjum sínum. Þó skáklistin sé bundin af ströngum reglum sem engin leið er að breyta út frá eru máttarviðir þeirra listaverka sem orðið hafa til við skákborðið fyrst og fremst hugarflug og ímyndun. Skáklistin hefur skapað meistara sem munu lifa í verkum sínum meðan heimur byggist, vil ég segja, meistara ekki síður en bókmenntir, málaralist, höggmyndalist og aðrar listgreinar. Og það undarlega við skákgáfuna er það að hún getur komið fram þar sem stundum eru aðrir litlir hæfileikar, sbr. ýmsar frægar sögur. Hún getur jafnvel skinið í andlegri eyðimörk eins og gullæð í gráu bergi.

Margbreytileikinn við skákborðið hefur best verið skýrður með hinni gömlu sögu um uppruna skáklistarinnar, sem flestir þekkja, þegar vitringurinn Sishabel Dahire gekk fyrir konung Indlands, Sirham, og færði honum skáklistina að gjöf. Konungur varð mjög glaður við og bað spekinginn að kjósa sér laun. Eins og flestir vita kaus hann sér eitt hveitikorn fyrir fyrsta reitinn, tvö fyrir þann næsta, fjögur fyrir hinn þriðja, síðan átta, síðan sextán o.s.frv. Sagan segir að konungi hafi hlegið hjarta í brjósti við að hljóta slíka gjöf við svo vægu gjaldi. Og hann lét senda verkamenn sína eftir hveitipokum en fljótlega varð ljóst þegar talið var að ekki var nægt hveiti í öllu landinu til þess að uppfylla gjöf spekingsins. Síðar skeði það, og sýnir best dæmi um fjölbreytileika skáklistarinnar, að prófessor George Gamow lét reikna það út og í bók sinni, One, two, three, Infinity, birti hann niðurstöðurnar um hve mikið hveiti væri hér um að ræða. Niðurstaðan varð sú að miðað við hveitiframleiðslu jarðarinnar 1965 hefði þurft alla hveitiframleiðslu jarðarinnar í 2000 ár til að uppfylla þessa ósk spekingsins. Þetta dæmi sýnir okkur fjölbreytileika skáklistarinnar og hversu mjög hún sker sig frá flestum íþróttum eða leikjum sem menn þreyta.

Ísland á sér orðið merkilega sögu þegar rætt er um skák. Það má segja að alveg aftur úr forneskju þá slái glampa frá afrekum Íslendinga á sögu skáklistarinnar í þessu landi. Um aldamótin er rituð hér bók, Chess in Iceland, prentuð í Flórens og gefin út, um sögu skáklistarinnar aftur í tímann. Um aldamótin er gefið hér út á Íslandi tímarit um skák, Í uppnámi, sem líka er prentað í Flórens og þykir að gæðum til eitthvert merkilegasta skáktímarit sem út hefur verið gefið líklega í heiminum á þeim tíma.

Íslendingar eru kunnir um allan heim vil ég segja af afrekum sínum við skákborðið. Íslenskir skákmeistarar standa skákmeisturum flestra annarra þjóða, ef ekki allra, á sporði. Skákhreyfingin á Íslandi er mjög öflug. Íslendingar eru kunnir af skákmótum sínum sem þeir hafa haldið hér, alþjóðlegum, og Íslendingar hafa m.a.s. átt forseta alþjóðaskákhreyfingar. Fræðikenningar eru m.a.s. uppi um það að aðalsöguhetjan í Manntafli, smásögu Stefans Zweigs, sé Íslendingur, að aðalsöguhetjan í þessari mestu perlu smásagnagerðar veraldarinnar sé Íslendingur.

Blaðaútgáfa hefur verið víðtæk og öflug um skák á Íslandi og bækur gefnar út ótrúlega margar á íslenskri tungu miðað við fámenna þjóð og tiltölulega lítinn markað. Árangurinn er sá af þessu að styrkur Íslendinga í skák er ótrúlega mikill. Íslendingar eiga sex stórmeistara í dag. Ef mesta skákþjóð veraldarinnar ætti að tiltölu við höfðafjölda að eiga svipað marga stórmeistara í skák þyrftu Sovétríkin að eiga rúmlega 6000 stórmeistara.

Í dag er staðan sú að Íslendingar eiga Norðurlandameistara í skák, þeir eiga heimsmeistara unglinga innan 16 ára og heimsmeistara innan 12 ára. Þeir eiga heimsmeistarana í yngri flokkunum. Íslendingar eiga Evrópumeistara í skák innan 16 ára. Íslendingar hlutu 5. sæti á Ólympíumótinu í skák, hinu síðasta sem haldið var af liðlega hundrað þjóðum. Íslenskir framhaldsskólanemendur hafa hvað eftir annað sigrað á mótum framhaldsskóla á Norðurlöndunum og vakið mikla athygli. Nú nýlega hafa Íslendingar fylgst með því að þrír af kunnustu skákmönnum Sovétríkjanna hafa teflt hér í tveimur skákmótum og í hvorugu þeirra tekist að sigra. Íslendingar hafa unnið bæði mótin.

Ekki þarf að minnast sérstaklega á árangur Íslendinga núna í heimsmeistarakeppninni sem fer fram, sigur Jóhanns Hjartarsonar yfir hinum sovéska skákmeistara Viktor Kortsnoj. Lengra aftur í tímann lýsir af afrekum Friðriks Ólafssonar sem um tíma var einn af allra sterkustu skákmeisturum veraldarinnar. Þannig mætti lengi telja. Grunnurinn fyrir skákhreyfinguna er því orðinn sterkur.

Til þess að mikið og öflugt tré vaxi upp þarf réttur jarðvegur að vera til staðar. Jarðvegurinn til þess að hér verði enn þá öflugra skáklíf, að þeir ungu menn sem nú eru að vinna heimsmeistaratitil í sínum aldursflokkum haldi áfram að standa í fremstu röð. Þessi jarðvegur er til staðar. En verkefnin eru mörg fram undan. Hér er í rauninni ævintýri að gerast á sviði skáklistarinnar. Og til þess að okkur verði eitthvað úr því ævintýri þarf Alþingi Íslendinga að koma til.

Aðstaða Skáksambands Íslands gagnvart þeim miklu verkefnum sem þarf að ráðast í er veik. Fjölmargir einstaklingar vinna gífurlega mikið sjálfboðaliðsstarf og fjármagn til þess að senda þessa efnilegu ungu skákmenn og okkar fremstu meistara utan til keppni og halda uppi því starfi sem þarf að halda uppi er ekki til staðar. Skáksamband Íslands hefur til umráða rúma 1 millj. kr. sem er einfaldlega allt of lítið til þess að það geti staðið undir því verkefni sem við hljótum öll að ætlast til að það annist.

Þess vegna hafa flm. þessa frv. valið þá leið að leggja hér fram sérstaklega tillögu um fjáröflun til Skáksambands Íslands. Hér er um að ræða fjáröflun sem snertir tæpast nokkurn mann, tveir 10 kr. peningar á mánuði eru lítil fjárhæð. Það er tæplega að menn, beygi sig orðið niður til að taka upp 10 kr. pening þó þeir gangi fram hjá honum á götunni. Fyrir þá sem greiða þurfa vegur þetta ekki neitt. Þá munar ekki um þessa upphæð. En fyrir skákhreyfinguna á Íslandi mun þetta valda algerum þáttaskilum og gera kleift að reisa af þeim grunni sem er í landinu mikil og máttug tré.

Þessi fjáröflun varð fyrir valinu, 20 kr. á hvert greiðslukort, vegna þess að hún er afar einföld. Innheimtukerfið er til staðar og þar er mánaðarlega greitt. Það þarf enga sérstaka innheimtu. Innheimtan kostar heldur ekki neitt. Korthafana munar ekkert um það sem hér er um að ræða. Einnig eru undanskildir þeir sem ekki eru með viðskipti á sínu korti eða eru með lítil viðskipti.

Það kann að vera og ég hef heyrt þær raddir að sumir segja: Hvers vegna að gera greiðslukort að féþúfu í þessu sambandi? Fyrir suma hefur þetta jafnvel verið allt að því hellagt mál. Hví skyldum við leggja skatt á greiðslukortin, neyða menn til að borga af þeim? Því er til að svara að auðvitað eru menn í þessu landi og allir einstaklingar neyddir til að greiða skatta. Skattar eru mjög mismunandi og koma mjög mismunandi niður. Vilji menn afla fjár þá verða menn að velja gjaldstofn. Hér er ekki sérstaklega verið að mismuna notendum greiðslukorta umfram aðra neytendur í þessu landi. Ef litið er á óbeina skattheimtu hér er hún mjög mismunandi eftir því hvað það er sem menn kaupa og hvað menn nota. Það eru t.a.m. mismunandi tollar og aðflutningsgjöld á mismunandi vörum, mismunandi vörugjald á mismunandi vörum eftir því hvað það er sem menn nota eða neyta. Mismunurinn er því til staðar hvort eð er. Það er skattur og tollur á hljómplötum o.s.frv., mismunandi skattur eftir því hvað menn kaupa, hvort menn kaupa sjónvarpstæki eða matvöru eða hvað um er að ræða.

Ég segi þess vegna: Ég blæs á þá menn og röksemdir þeirra manna sem telja að ekki megi leggja skatt á greiðslukort í þeim mæli sem hér er um að ræða. Ég hygg að það séu fáir stjórnmálamenn sem ekki hafa orðið og hlotið að standa að ýmiss konar skattheimtu, leggja skatta á einstæðar mæður, jafnvel að leggja skatta á öryrkja, jafnvel að leggja skatta upp í 25% söluskatt á matvörur, nauðsynjavörur. Ég tek þá ekki alvarlega sem telja að hér sé komið að heilögu máli og ekki megi leggja lítið eitt gjald á greiðslukort.

Stjórnmál eru þannig að þau eru ævinlega val. Ef menn ekki ætla að koðna niður í vöflum verða þeir að velja sér leið. Í þessu tilfelli er leiðin einföld. Aðrar leiðir kynnu að hafa komið til greina. Þessi liggur vel við. Hún mun ekki koma þungt niður eða illa við neinn.

Það kann vel að vera að frjáls framlög til Skáksambandsins geti hjálpað. Á þeim er hins vegar ekki mikið að byggja og allra síst til langframa. Fjárveitingar eða styrkur frá fjvn. eru með þeim hætti að á því er ekki að byggja. Þar er litlu fé deilt í allt of marga staði og úr því verður ekkert. Það þekki ég vel af starfi mínu í ýmsum hreyfingum, ekki síst í skákhreyfingunni, að þar er ekkert sem um munar.

Ég segi þess vegna: Þetta gjald á greiðslukortin ætti að vera þeim kærkomið sem greiðslukort hafa. Þá munar ekkert um þessa fjárhæð, en hún er öflugur stuðningur við skákhreyfinguna og skiptir sköpum. Ég segi einnig: Þetta gjald á greiðslukort er ekki mismunun miðað við aðra skattheimtu í landinu nema síður sé. Ég blæs á þau rök sem fram koma varðandi það.

Ég segi einnig: Þetta er ekki fordæmi. Íþróttahreyfingin og Ungmennafélag Íslands hafa sérstakar tekjur af lottói. Þar er um viðkvæmt mál að ræða. E.t.v. hefði skákhreyfingin átt að vera með þar í upphafi. Ég hygg að það sé ekki ráðlegt að hreyfa við þeirri tekjuöflun og reyna að þrýsta þar fleirum inn. Skákin er nátengd menningu Íslands. Skákin á sér langa hefð hér. Í skákinni er sérstök gróska í dag. Það væri mikil blinda að reyna ekki fyrir Íslendinga að gera þjóðinni eins mikið úr því ævintýri og unnt er. Þess vegna treysti ég því að Alþingi Íslendinga muni taka þessu frv. vel og okkur takist að gera það að lögum fyrir þinglok.