23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6083 í B-deild Alþingistíðinda. (4144)

293. mál, áfengislög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Hlutverk heilbrigðisyfirvalda er að halda uppi öflugu fræðslu- og forvarnastarfi um hvers konar heilsusamlegt líferni sem dregið getur úr sjúkdómum og slysum. Það eiga yfirvöld m.a. að gera með því að efla ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu með markvissu upplýsinga- og fræðslustarfi. Ég tel markvisst forvarnastarf ekki felast í því að banna einstakar neysluvörur sem þó kunna að vera minna skaðlegar en aðrar sem neysla er leyfð á. Í slíkri afstöðu finnst mér felast tvískinnungur. Ég mun leggja þunga áherslu á aukið fræðslu- og upplýsingastarf um hættuleg og skaðleg áhrif áfengis og tóbaks á heilsufar fólks og styðjast í því sambandi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og íslenskrar heilbrigðisáætlunar. Ég tel frv. það sem hér er til meðferðar ekki brjóta í bága við þá stefnu og segi því já.