24.03.1988
Sameinað þing: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6088 í B-deild Alþingistíðinda. (4159)

310. mál, skortur á hjúkrunarfræðingum

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svör hans og efast reyndar ekkert um vilja hans til góðra verka. En það er eins og Ragnar Óskarsson getur um í grg. sinni verulegt vandamál hjá sveitarfélögunum að fá til starfa menntað hjúkrunarfólk og það eru lág laun innan heilbrigðisstéttarinnar, sem að stærstum hluta valda þessu ástandi. Sveitarfélögin hafa tekið á þessu með því að bjóða launauppbætur í ýmsu formi, en nú undanfarið hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar valdið því að fjárhagur sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, sem var bágborinn fyrir, hefur enn versnað. Þau munu því ekki hafa bolmagn til þess að mæta slíkum kostnaði. Ríkisstjórnin verður því að taka á þessu og bæta úr ástandinu, m.a. með því að fara að borga starfsfólki sínu innan heilbrigðisstéttarinnar mannsæmandi laun.