24.03.1988
Sameinað þing: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6089 í B-deild Alþingistíðinda. (4160)

378. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbrrh. á þskj. 717: „Hvernig er háttað framkvæmd þeirra ákvæða í lögum um almannatryggingar sem fjalla um rétt barnshafandi konu til fæðingarorlofs, allt að 60 dögum til viðbótar hinu lögbundna fjögurra mánaða orlofi, þegar hún þarf að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma af heilsufarseða öryggisástæðum, sbr. 7. mgr. 16. gr. og k-lið 26. gr. almannatryggingalaga?"

Þessi fsp. er borin fram vegna þess að mér virðist vera nokkuð óljóst hver túlkun hefur verið í framkvæmd þessa ákvæðis, þ.e. þegar svo stendur á að ekki er um tiltekna sjúkdóma að ræða sem samkvæmt verklagsreglum Tryggingastofnunar hafa verið taldir meðgöngusjúkdómar sérstaklega eða sjúkdómar sem tengjast meðgöngu, þá er eiginlega spurningin sú: Hvernig er litið á það ástand þegar sjúkdómur eða tilhneiging til sjúkdóms býr með konunni og það ástand versnar vegna meðgöngunnar?

Ég tel óþarft að hafa frekari greinargerð fyrir þessari fsp. Hún er í raun og veru sáraeinföld. Ég tel að það sé nauðsynlegt að skilningur hæstv. ráðherra liggi fyrir á þessu ákvæði þannig að konum sé ljóst hvers réttar þær njóta, en sá réttur hefur eins og kunnugt er verið verulega aukinn frá því sem áður var með lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi og komu til framkvæmda nú um áramótin.

Ég hafði vænst þess að á dagskrá þessa fundar gæti orðið önnur fsp. um framkvæmd fæðingarorlofs, en ég skil það að vegna þeirrar venju sem ríkir hér í þingi um þann tíma sem líða þarf áður en fsp. er svarað frá því að hún var lögð fram, þá gat það ekki orðið og verður það þá væntanlega fljótt eftir páska. Sú fsp. varðaði aftur á móti reglur um töku skatts af greiðslum í fæðingarorlofi. En það bíður betri tíma.

Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hann gefur sér tíma til að svara þessari fsp.