24.03.1988
Sameinað þing: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6090 í B-deild Alþingistíðinda. (4161)

378. mál, fæðingarorlof

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er hvernig sé háttað framkvæmd þeirra ákvæða í lögum um almannatryggingar sem fjalla um rétt barnshafandi konu til fæðingarorlofs allt að 60 dögum til viðbótar hinu lögbundna fjögurra mánaða orlofi, er hún þarf að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma af heilsufars- eða öryggisástæðum.

Skv. 7. mgr. 16. gr. og k-lið 26. gr. almannatryggingalaga á barnshafandi kona, sem þarf af heilsufars- eða öryggisástæðum að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma barns, rétt á fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum þann tíma, þó aldrei lengur en í 60 daga. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort þörf er fyrir hendi samkvæmt ákvæði þessu.

Ákvæði þessa efnis kom fyrst inn í almannatryggingalög árið 1980 og hefur verið efnislega óbreytt í öllum meginatriðum síðan að öðru leyti en því að breytingar þær sem gerðar voru á reglum um fæðingarorlof með lögum nr. 59/1987 lengdu þann tíma sem kona gat notið fæðingarorlofs af þessum ástæðum úr 30 dögum í 60 daga.

Í grg. með frv. þeim um almannatryggingar þar sem fyrrgreindar breytingar voru lagðar til er ekki að finna neinar haldbærar skýringar á túlkun ákvæðanna. Athugun á framkvæmd þessa ákvæðis er tvíþætt. Annars vegar: Hvernig hefur verið staðið að því læknisfræðilega mati sem ákvæðið gerir ráð fyrir að sé í höndum tryggingayfirlæknis? Hins vegar: Hvernig er staðið að útborgun þessara viðbótarmánaða?

Ef fyrst er litið á læknisfræðilegt mat tryggingayfirlæknisins, þá kemur í ljós að viðmiðunarreglur hans eru tvenns konar., að staðreynt sé af lækni að um sjúkdóm sé að ræða sem valdi óvinnufærni í meira en mánuð fyrir fæðingu barns og að viðkomandi sjúkdómur sé einkennandi fyrir meðgöngu eða tengist meðgöngu á annan hátt. Tryggingayfirlæknir hefur tekið saman verklagsreglur þar sem taldar eru upp 13 sjúkdómsgreiningar sem hann telur falla undir ákvæðið. Tryggingayfirlæknir hefur í mati sínu bundið heimild til lengingar því að sjúkdómur sá sem veldur óvinnufærni sé tengdur eða orsakaður af þunguninni. Óvinnufærni í lok meðgöngu af öðrum ástæðum telur tryggingayfirlæknir að eigi að bæta með tímabundinni örorku eða sjúkradagpeningum. Viðmiðunarreglur þessar leiða til þess að kona, sem verður óvinnufær í lok meðgöngutímans af heilsufarsástæðum, sem ekki tengjast meðgöngunni, t.d. vegna sjúkdóms sem hún hafði fyrir meðgöngu eða vegna slyss, á ekki rétt á lengingu fæðingarorlofs samkvæmt þessu ákvæði. Hún gæti hins vegar átt rétt á tímabundinni örorku eða sjúkradagpeningum.

Það hefur hins vegar risið upp ágreiningur um þessa túlkun tryggingayfirlæknis á ákvæðinu og telja ýmsir hana of þrönga auk þess sem hún styðjist ekki við lög því í ákvæðinu sé ekki að finna neina takmörkun á því hvers konar óvinnufærni af heilsufarsástæðum lengingin eigi að ná til. Þennan ágreining þarf að jafna og ég veit að tryggingaráð er með málið til athugunar. Mun heilbrrn. að sjálfsögðu fylgjast náið með framvindu málsins og ég mun beita mér fyrir því að um þetta fáist niðurstaða hið allra fyrsta.

Þá er að líta á framkvæmd lengingar fæðingarorlofs vegna óvinnufærni af heilsufars- eða öryggisástæðum. Nýverið hefur komið í ljós að kona, sem fær læknisvottorð um óvinnufærni af heilsufars- eða öryggisástæðum meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag og er talin uppfylla skilyrði ákvæðisins, eins og tryggingayfirlæknir túlkar þau að öðru leyti, fær ekki þennan viðbótarmánuð og nú raunar tvo fyrr en eftir að barnið hefur fæðst. Konan, sem þannig háttar um, hefur hingað til fengið fæðingarorlof í 4 mánuði eftir fæðinguna og eftir 1. jan. 1988 í 5 mánuði. Þessi framkvæmd byggist á því að tryggingayfirlæknir hefur talið að ekki sé unnt að leggja endanlegt mat á óvinnufærnina fyrr en barnið er fætt. Voru fyrirmæli þess efnis gefin út til sjúkrasamlaga 28. sept. 1982 og hefur þeim ekki verið breytt síðan.

Það var nú nýverið sem athygli heilbrrn. var vakin á þessari framkvæmd útborgunar og hefur málið því verið í athugun í ráðuneytinu. Ég tel þessa framkvæmd óeðlilega. Ef tryggingayfirlæknir metur að ástæður óvinnufærni heyri undir lengingarákvæði það sem hér er til umræðu, þá tel ég að konan eigi að fá fæðingarorlofið greitt frá þeim tíma, þ.e. að þessi viðbótarmánuður eigi að koma fyrir fæðingu barnsins en ekki eftir á. Öll önnur framkvæmd leiði til þess að tilgangur lagaákvæðisins, sem hlýtur að vera sá að bæta konunni tekjumissi, nær ekki fram. Ég hef óskað eftir því við formann tryggingaráðs að framkvæmd þessa ákvæðis verði endurskoðuð.

Herra forseti. Aðeins að lokum út af lokaorðum hv. fyrirspyrjanda um aðra fsp. um fæðingarorlof, þá var það svo að ég spurði eftir því hér á skrifstofu þingsins í gær hvort þær væru ekki báðar hér til afgreiðslu en var sagt að þær væru ekki á dagskrá svo að ég hafði ekki frekari áhyggjur af málinu, en var að öðru leyti tilbúinn til að svara þeirri fsp. líka.