24.03.1988
Sameinað þing: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6091 í B-deild Alþingistíðinda. (4162)

378. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans sem svöruðu spurningunni alveg beint en greindu hins vegar ekki frá skoðun ráðherra á þessari framkvæmd. Ég vil láta í ljós þá skoðun að ég tel að þetta ákvæði eigi við þegar konan verður að leggja niður vinnu af heilsufars- og öryggisástæðum vegna þess að hún er barnshafandi, þó svo að orsökin sé önnur en sú sem greinir í þessum 13 liðum sem nú er farið eftir, því að hvað er það annað en veikindi sem tengjast meðgöngunni, t.d. ef einhver krónískur sjúkdómur hefur búið með konunni en hún er alveg vinnufær alla jafnan, en þegar langt er liðið á meðgöngu getur hún ekki, vegna þess að þessi sjúkdómur býr með henni, haldið áfram vinnu. Ég tel það alveg einsýnt að þetta ákvæði eigi að ná yfir slíkt tilfelli. Og einmitt þess vegna er ljóst að orðalag það sem er í reglunni er svona til þess að það geti náð m.a. yfir slík tilvik.

Um hitt atriðið sem hæstv. ráðherra nefndi og greiðsluna eftir á, þá er það enn þá alvarlegra nú, eftir að til sögunnar komu reglur um staðgreiðslu skatta, heldur en áður var því að ég hef orðið þess áskynja að þegar Tryggingastofnuninni þykir það vera hagkvæmara eða þægilegra í framkvæmd að inna greiðslurnar af hendi allar í einu í staðinn fyrir mánaðarlega, þá er tekin staðgreiðsla af því, 1/3 er tekinn af því og færður til ríkisins, en ef greitt hefði verið mánaðarlega hefðu greiðslurnar lent innan skattleysismarka. Þetta er náttúrlega mikið óréttlæti og ég efast um að þetta sé heimilt eftir lögum. Og þetta kemur hvergi fram í upplýsingabæklingi Tryggingastofnunar sem liggur frammi á þeim stöðum þar sem mæðraskoðun fer fram og annars staðar þar sem upplýsingar eru látnar í té barnshafandi konum.

Ég tel þetta vera mjög brýnt mál sem krefjist úrbóta því að konur ganga í grandaleysi út frá því að þær fái þessar greiðslur óskertar, en af einhverjum framkvæmdaatriðum hjá Tryggingastofnuninni er þessu breytt og tekin af sú greiðsla sem þær eiga ekki að inna af hendi lögum samkvæmt og þeim sagt að þær geti fengið þetta endurgreitt einhvern tíma á næsta ári, en ég tel það ekki hlutverk fæðandi kvenna að lána ríkinu 1/3 af fæðingarorlofi í eitt ár.