24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6093 í B-deild Alþingistíðinda. (4165)

330. mál, rannsóknarnefnd til að kanna hvort starfsmenn lögreglunnar virði friðhelgi einkalífsins

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og Níelsi Árna Lund að bera fram till. til þál. um að skipuð verði rannsóknarnefnd til að kanna hvort hugsanlegt sé að starfsmenn lögreglunnar virði ekki 66. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins og hljóðar tillagan svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa sjö manna nefnd til að rannsaka hvort ásakanir um að lögreglan í Reykjavík hafi brotið gegn 66. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi einkalífsins, eigi við rök að styðjast. Í nefndinni skulu eiga sæti einn þm. frá hverjum þeirra stjórnmálaflokka er fulltrúa eiga á Alþingi en dómsmrh. skal skipa sjöunda manninn og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Nefndin skal kanna hvort þess séu dæmi að persónunjósnir séu stundaðar, sími hleraður, póstur rannsakaður eða á annan hátt sé gengið á rétt einstaklinga til persónulegrar friðhelgi án þess að dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild liggi fyrir. Nefndinni er heimilt að kalla fyrir embættismenn og aðra þá er hún telur geta varpað ljósi á málið.

Nefndin skal skila Alþingi skýrslu um niðurstöður sínar fyrir lok septembermánaðar 1988. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Tilefni þessa tillöguflutnings var það að tímaritið Þjóðlíf, 2. tbl. 4. árgangs, birti nýlega viðtal við mann sem heldur því fram að hann hafi orðið fyrir persónunjósnum lögreglu, sími sinn hafi verið hleraður og póstur skoðaður án þess að dómsúrskurður lægi fyrir eða nokkur lögleg ástæða lægi til grundvallar þessara aðgerða. Í ritinu eru svo viðtöl við lögreglustjórann í Reykjavík og þrjá samstarfsmenn hans sem ekki ber saman um hvort fullyrðingar mannsins eigi við rök að styðjast. Lögreglustjórinn játar því hvorki né neitar að fylgst hafi verið með þessum umrædda einstaklingi vegna skoðana hans á umdeildu pólitísku máli, þ.e. hvalveiðum Íslendinga, en starfsmenn hans þykjast ekkert um það vita.

Nú hefur það mál skýrst að nokkru. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur ritað mér bréf sem ég tel skyldu mína að lesa hér svo að enginn vafi leiki á hver staða þessa máls er. Bréfið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Háttvirtu flutningsmenn. Alvarlegur misskilningur kemur fram í grg. fyrir þáltill. Sþ. nr. 657, þar sem minnst er á svör mín við þeirri spurningu í tímaritinu Þjóðlíf, 2. tbl. 4. árgangs, hvort fylgst hafi verið með ferðum ákveðinna borgara í janúar sl. Viðtalið er unnið beint úr samtali Hrafns Jökulssonar blaðamanns við mig eins og textinn ber greinilega með sér, en inngangur er alfarið blaðamanns, þar með talin notkun orðsins „njósnir“. Hvergi í samtali okkar er minnst á símahlerun eða skoðun pósts, heldur er spurt hvort fylgst hafi verið með ferðum ákveðinna einstaklinga. Vil ég leyfa mér að endurtaka spurningar og svör úr viðtalinu er að þessu lúta.

Spyrjandi: Kannast þú við að það hafi verið fylgst með ferðum ákveðinna borgara fyrir og í kringum þessa ráðstefnu?

Svar: Ég vil nú ekki fara út í slík atriði. Eigum við ekki að segja að ég væri þá farinn að skýra of mikið frá því öryggi sem á að vera í kringum erlenda gesti og svona ráðstefnur.

Spyrjandi: Þú vilt sem sé ekki vísa því á bug að það hafi verið gert af þessu tilefni?

Svar: Ég vil hvorki játa því né neita. Og enn síðar í viðtalinu:

Spyrjandi: Þú vilt ekki neita því að lögreglan hafi fylgst með ferðum hans.

Svar: Ég vil hvorki játa því né neita.

Það er því ofsagt í grg. með þáltill. þar sem segir að „enn alvarlegra verður að teljast að lögreglustjórinn í Reykjavík vill aðspurður „hvorki játa því né neita“ að verið geti að þessar ásakanir eigi við rök að styðjast“, þ.e. að tiltekinn einstaklingur hafi, eins og segir í grg., orðið fyrir persónunjósnum lögreglu, sími hans hafi verið hleraður og póstur skoðaður án þess að dómsúrskurður hafi verið felldur eða heimild veitt.

Ég hef rætt þennan skilning minn á viðtalinu við Hrafn Jökulsson blaðamann og er hann mér sammála. Viðtalið við tímaritið Þjóðlíf var fyrsta viðtal fjölmiðils við mig um þetta tiltekna mál. Þegar þetta sama viðtal kom síðan til umfjöllunar hjá fjölmiðlum, þá svaraði ég því játandi að fylgst hefði verið með tilteknum einstaklingi, en neitaði því að sími hans hefði verið hleraður af lögreglu eða póstur hans opnaður. Síðast kom þetta fram bæði í yfirlýsingu dags. 9. mars sem ég sendi öllum dagblöðum höfuðborgarinnar og í viðtali við mig í Ríkisútvarpinu á Rás 2 þann 10. mars sl.

Þar sem ég veit af kynnum mínum af ykkur flm., að þið viljið hafa það sem sannara reynist, þá sendi ég ykkur þetta tilskrif.“

Með þessu bréfi fylgir síðan yfirlýsing frá lögreglustjóranum og ég ætla ekki að taka tíma í að lesa hana alla, en hann segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Lögreglunni í Reykjavík var falið að gæta öryggis ráðstefnunnar og gesta“, þ.e. ráðstefnunnar um nýtingu sjávarspendýra.

Síðan segir síðar í þessari yfirlýsingu: „Landsmönnum eru kunn Sea Shepherd samtökin svo mjög sem þau hafa komið við sögu hér á landi. Af fyrri reynslu og vegna frétta þess efnis að samtökin hygðust láta sig varða áðurnefnt fundahald, þá ákvað ég að láta fylgjast með einum kunnasta samstarfsaðila þessara samtaka hér á landi, Magnúsi Skarphéðinssyni, um nokkurra daga skeið. Ég tel að eftirlit þetta hafi hvergi farið út fyrir lögleg mörk og vísa algjörlega á bug fullyrðingum um að lögreglan í Reykjavík hafi hlerað síma Magnúsar eða opnað póstinn hans. Slíkt verður ekki framkvæmt nema að gengnum dómsúrskurði og í þessu tilviki voru engin efni til þess að fara fram á slíkt.“

Þetta segir í yfirlýsingu lögreglustjórans í Reykjavík.

Um það skal ekkert fullyrt hér hvort símahlerun eða póstskoðun hefur verið beitt í þessu tilviki. Hitt er ljóst að lögreglan hefur fylgst með einstaklingi dögum saman án þess að nokkur ástæða eða lagaheimild, því síður lögmætur dómsúrskurður lægi fyrir. Hér er um að ræða mál sem hið háa Alþingi getur ekki látið afskiptalaust og því er hér farið fram á rannsókn á því hvernig lögreglan beitir slíkum aðferðum og hvenær. Það hefur jafnframt komið fram að fyrir kemur að símahleranir eru viðhafðar og póstur skoðaður samkvæmt úrskurði þó að því sé neitað í ofangreindu tilviki. Slíkar aðgerðir eru svo alvarlegt mál að þær mega heldur ekki vera háðar tilviljunum eða fordómum af neinu tagi og um það ber hinu háa Alþingi að standa vörð.

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, lög um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, og mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveða á um þessi atriði svo að ekki verður um villst. Í 66. gr. stjórnarskrárinnar segir svo, með leyfi forseta:

„Heimilið er friðheilagt. Ekki má gera húsleit né kyrrsetja bréf og önnur skjöl og rannsaka þau nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild.“

Þá segir einnig í 72. gr., með leyfi forseta: „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti. Þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“

Í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, segir svo í 47. gr., með leyfi forseta:

„Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“

Í því máli sem hér hefur verið minnst á er hvorki um mikilsvert sakamál né öryggi ríkisins að tefla og því er vandséð hvaða ástæðu lögregluyfirvöld sáu til að fylgjast með ákveðnum einstaklingi daga og nætur þó að hér stæði yfir ein af fjölmörgum ráðstefnum um viðkvæm pólitísk mál. Þá gæti einnig verið áhugavert að vita hvort fleiri einstaklingum var fylgt eftir vegna umræddrar ráðstefnu því að allmargir Íslendingar eru ósammála stjórnvöldum í því máli sem fjallað var um.

Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Íslendingar hafa staðfest, segir svo í 1. gr., með leyfi forseta:

„Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Síðan eru rakin réttindi manna, sem tími minn leyfir mér því miður ekki að lesa þó að þingheimur hefði eflaust gott af því, en ég ætla að fara yfir í 10. gr.:

„Nú leikur vafi á um réttindi þegns og skyldur eða hann er borinn sökum um glæpsamlegt athæfi og skal hann þá njóta fulls jafnréttis við aðra menn um réttláta, opinbera rannsókn fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.“

„Hvern þann mann“, segir í 11. gr., með leyfi forseta, „sem borinn er sökum fyrir refsivert athæfi, skal telja saklausan uns sök hans er sönnuð lögfullri sönnun fyrir opinberum dómstóli, enda hafi tryggilega verið búið um vörn sakbornings.“

Hið háa Alþingi setur landi okkar lög, virðulegi forseti. Framkvæmdarvald og dómsvald byggir á þeim lögum. Það er á ábyrgð hins háa Alþingis að það sé tryggt.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að till. mín verði send hv. allshn. til afgreiðslu, en ég legg á það mikla áherslu ekki einungis vegna þessa eina máls heldur fjölmargra annarra því ekki skal dregin dul á að í mig hafa hringt fjölmargir einstaklingar sem hafa sagt mér sögur af viðskiptum sínum við lögregluyfirvöld sem eru engu lýðræðisríki til sóma.