24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6104 í B-deild Alþingistíðinda. (4173)

380. mál, dagvistarmál fatlaðra barna

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég fagna till. sem hv. þm. Elín Jóhannsdóttir átti frumkvæði að að flytja. Ég er reyndar meðflm. Ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Ég tel að umgengni samfélagsins við fötluð börn sé blettur á velferðinni. Ég tel að sú könnun sem rætt er um að hér fari fram sé mjög nauðsynleg til að Alþingi, sveitarstjórnir og ríkisstjórn geri sér grein fyrir því hversu vandamálið er stórt. Það er nú svo komið að foreldrar sem eiga fötluð börn búa við afar erfiðar aðstæður. Það er erfitt að eiga fatlað barn, en það er öllu erfiðara að upplifa að þegar þessir fötluðu einstaklingar leita eftir dagvistarplássi eða foreldrar þeirra fá þeir svör líkt og hér sé um holdsveika einstaklinga að ræða. Þeim er ýtt til hliðar og sett á biðlista. Það munu vera aðeins um tíu pláss fyrir fötluð börn til dagvistunar á Reykjavíkursvæðinu, ekki meira.

Ég tel að það sé samfélagsleg skylda okkar alþm. að sjá til þess að hér verði breyting á, veruleg breyting. Ég vek hins vegar athygli á því að viðhorf núverandi ríkisstjórnar til málefna fatlaðra er mun jákvæðara en verið hefur áður, sem birtist í því að fjárveitingar til þeirra mála eru mun meiri en áður, mun meiri, og þó er það svo að ekki sér högg á vatni.

Ég skora á hv. alþm. að samþykkja þessa till., sem stefnir að úrbótum fyrir okkar smæstu bræður, og vænti þess að sú könnun sem farið er fram á hérna verði unnin sérstaklega í félmrn. Þar eru efni til þess að vinna þessa könnun þrátt fyrir að ég viti að hér er um markamál að ræða hvað varðar valdsvið menntmrn. og félmrn. En málefni fatlaðra falla að mestu leyti undir félmrn. og tel ég eðlilegt að þar verði þessi könnun látin fara fram.

En að gera könnun er ekki nóg. Það þarf að stíga næstu skref, þau skref sem verða til hjálpar þessum einstaklingum og fjölskyldum þeirra til að fá jafnrétti í þjóðfélaginu, til að koma í veg fyrir að þeim sé ýtt til hliðar, til að koma á þeirri sjálfsögðu þjónustu sem þessir einstaklingar eiga lagalegan rétt til.