24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6105 í B-deild Alþingistíðinda. (4174)

380. mál, dagvistarmál fatlaðra barna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég óska hv. 1. flm. þessa máls til hamingju með till. og hennar málflutning er hún mælti fyrir henni og lýsi yfir stuðningi við þetta mál og hefði þó mátt fastar að kveða í till. jafnvel um aðgerðir. En það er mjög gagnlegt að þessu máli sé hreyft á þinginu og við skulum vona að flutningur þessarar tillögu, sem eingöngu er hér fram borin af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, verði til þess að undirtektir við till. og aðgerðir í framhaldi af henni sjái dagsins ljós fyrr en seinna. Það eru eingöngu stjórnarliðar sem eru flm. og mér er ekki kunnugt um að leitað hafi verið til míns þingflokks varðandi stuðning við þetta mál. Ég er út af fyrir sig ekkert að finna að því sérstaklega. Afstaða Alþb. til dagvistarmála og til málefna fatlaðra er vel kunn og nægir að vísa til verka flokksins í ríkisstjórn varðandi málefni fatlaðra og viðleitni af okkar hálfu til að draga úr árlegri skerðingu á lögboðnum framlögum til málefna fatlaðra, en sem kunnugt er hefur Framkvæmdasjóður fatlaðra verið skertur nú um árabil og er enn skertur þrátt fyrir þau orð sem hér voru látin falla af hv. síðasta ræðumanni að eitthvað væri þar mildari höndum um farið í þessari skerðingu en undanfarin ár. En við hljótum að minna á það þegar till. eru hér uppi frá hv. stjórnarliðum um aðgerðir af þessu tagi hvernig verkin þeirra tala hér við afgreiðslu mála, við afgreiðslu fjárlaga ár frá ári.

En ég vænti þess að sú nefnd sem fær þessa till. til meðferðar athugi möguleika á að kveða enn fastar að orði um aðgerðir í framhaldi af þeim athugunum sem hér er lagt til að gerðar verði varðandi könnunina á þörfum fatlaðra barna og ég tel það alveg rétt, sem hv. flm. fjallaði um í sínu máli, að það ber að gjalda varhug við að greina fötluð börn frá umönnun annarra barna eins og frekast er kostur, gjalda varhug við öllu sem lýtur að því að greina þar með óeðlilegum hætti á milli. Þar á hið sama að gilda og í skólakerfinu í framhaldi af uppeldi á dagvistarstofnunum. Ég ítreka stuðning minn við það góða mál sem hér er flutt.