24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6115 í B-deild Alþingistíðinda. (4180)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að þurfa að skipta ræðu minni með þessum hætti, en orð síðasta ræðumanns hafa gefið tilefni til að segja nokkur orð til viðbótar.

Það ber mjög mikið á því í umræðum um þetta mál að menn vísi hverjir á aðra og segi: Af hverju getur ekki Landsvirkjun breytt sínum taxta og selt t.d. orkuna á lægra verði til húshitunar en til annarrar notkunar? Það er ofur skiljanlegt að menn líti á málið með þessum hætti. Við eigum að gera okkur grein fyrir því að húshitunarorkunotkun er orðin yfirgnæfandi, er orðin verulegur hluti af allri orkusölu í landinu og ef menn ætlast til þess að Landsvirkjun lækki verð á sumri framleiðslu sinni hlýtur það að þýða annað tveggja: annaðhvort að fyrirtækið eigi ekki að greiða niður sínar skuldir eins hratt og þeir hafa ætlað að gera eða að aðrir notendur eigi að greiða meira. Ef aðrir notendur eiga að greiða meira eru það þeir notendur sem nú borga söluskatt á orkuna, þar á meðal fyrirtæki sem þurfa að hita upp sitt húsnæði. Eins og hv. 1. flm. till. veit þegar hann kemur með sinn samanburð er um að ræða söluskatt og enga niðurgreiðslu og þannig er hægt að fá samanburðartölur heldur hærri. Vilja menn hækka þetta? Vilja menn auka á það óréttlæti af því að þeir eru að leiðrétta eitthvað annað? Ég held að enginn svari því játandi.

Þá segja menn: En getur ekki Landsvirkjun þá dregið úr sínum endurgreiðslum á afborgunum? Og ég bið hv. síðasta ræðumann þá um að hlusta því að hann nefndi þetta. Því hefur verið haldið fram í umræðum um þessi mál, þar á meðal af hæstv. utanrrh., að Landsvirkjun ætli að vera búin að greiða upp öll sín lán um næstu aldamót. Þetta er rangt. Það liggur fyrir að Landsvirkjun mun reyna að greiða 1/20 af skuldunum á hverju ári sem þýðir að 70% af skuldunum verður enn þá á Landsvirkjun um næstu aldamót þegar Blanda er talin með, 70% af þeim skuldum. Fyrirtækið skuldar nú vegna Blöndu því að það er byrjað á þeim framkvæmdum. Menn búa ekki til virkjun á einum degi. Og hvað þýðir ef hægt verður á þessu, ef borga verður minna eða afla nýrra lána? Það þýðir aukinn viðskiptahalla. Eru menn að biðja um það? Og hvað þýðir aukinn viðskiptahalli vegna þess að fyrirtækið á að skulda meira í framtíðinni en það gerir? Það þýðir hærra raforkuverð í framtíðinni. Ætla hv. þm. sem eru að biðja um þetta að láta börnin sín og alkomendur borga fyrir þann hita sem þeir hafa nýtt nú? Er það svo? Ég efast um að þeir svari játandi ef þeir væru spurðir þeirrar spurningar. (SV: Ég skal svara þér seinna.) Hv. þm. Stefán Valgeirsson ætlar að svara mér seinna. Því er komið hér á framfæri.

Nei, það sem ég vil segja er þetta: Ríkisstjórnin hefur haft þetta mál til meðferðar. Það eru þrír menn, einn frá iðnrn., annar frá fjmrn. og sá þriðji frá Framsfl., skulum við orða það, að gera tillögur í þessu máli. Það var gert áður en sú tillaga kom fram sem hér er til umræðu. Þessi till. kemur fram þrátt fyrir að flm. hennar hafi vitað það frá 1. des. hvert raforkuverðið er, borið fulla ábyrgð á stjórnarstefnunni og öllum aðgerðunum, hafi fellt tillögur sem komu fram á þingi við afgreiðslu fjárlaga um hækkun niðurgreiðslna. Þess vegna, hv. þm. Alexander Stefánsson, er þessi tillaga sýndarmennska og ekkert annað, tilraun til þess að þvo hendur Framsfl. af því sem Framsfl. ber ábyrgð á rétt eins og ég og aðrir þingmenn sem styðja hæstv. ríkisstjórn. Það var engu leynt og rafmagnið hefur ekkert hækkað frá áramótum. Hækkunin var 1. des. og það veit hv. þm. Alexander Stefánsson mætavel um.

Það sem skiptir máli er ekki að halda uppi umræðum í þingi eða biðja um tillögur um næstu áramót. Það liggur á að leysa þetta mál og ég bið hv. þm. ríkisstjórnarinnar, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, bæði í Framsfl. og Alþfl., að hjálpa til við lausn þessa máls og að lausnin verði á þann veg að hún verði ásættanleg. Það borgar sig ekki að halda fram staðlausum stöfum í þessu máli. Það gerir engum gagn. Það gerir það einungis að verkum að menn fá ranghugmyndir um þessi mál rétt eins og þegar bæjarstjórinn í Ólafsvík, þar sem hv. þm. Alexander Stefánsson á heima, heldur því fram að það sé sjöfaldur munur á RARlK-svæðunum og Reykjavík í hitunarkostnaði þegar vitað mál er að hann er innan við þrefaldur,sannað og viðurkennt af öllum aðilum sem nenna að setja sig ofan í þessi mál. (SV: Eftir því hvað er við miðað.) Það skiptir náttúrlega máli hvort miðað er við mismunandi stærðir af húsum eða menn hafi mismunandi heitt inni hjá sér, ég veit það, en þegar notaðar eru sömu gefnar forsendur af báðum aðilum.

Ég bið menn þess vegna um að sýna okkur a.m.k. það umburðarlyndi að fá að koma fram með lausn á þessu máli og harma að stjórnarþingmenn skuli koma hér fram með tillögur án þess að tala við þá aðila sem eðlilegast hefði verið að tala við, ekki síst þegar við höfðum nýskipað í nefnd til að ganga frá þessum málum.