24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6117 í B-deild Alþingistíðinda. (4183)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Austurl. vil ég segja að mér hafa orðið á mistök. Ég mundi ekki eftir takmörkun á ræðutíma hérna um þáltill. þannig að ég hafði ekki hagað mínum ræðuflutningi með tilliti til þess, náði þess vegna ekki að koma til skila þeim efnisatriðum sem ég taldi að hollt væri að hafa við umræðuna og mun hafa farið yfir tímann og er þakklátur fyrir að hæstv. forseti sá í gegnum fingur sér með það. En ég tek það auðvitað algerlega á mig að hafa hagað mér óþinglega með þessum hætti.

Vegna þess að ég hafi talað mig dauðan í umræðunni vonast ég til þess að síðar í þessari umræðu, þá undir lokin, gefist mér kostur á að gera það sem kallað er örstutt athugasemd, sem stundum hefur verið lengri en örstutt þegar menn hafa fengið að koma með slíka athugasemd, og svara þá þeim beinum spurningum sem til mín verður beint.

Að öðru leyti hef ég ekki í hyggju að taka frekar þátt í þessum umræðum einfaldlega vegna þess að ég tel að þessi mál verði til umræðu síðar á þessu þingi þegar fyrir liggja þær aðgerðir sem þarf að grípa til.