24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6118 í B-deild Alþingistíðinda. (4186)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að þingmönnum gefist kostur á að tjá sig hér til jafns við fulltrúa framkvæmdarvaldsins í þessum umræðum og hef nú mína ræðu.

Ég vek athygli á því að í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar er tekið svo til orða undir liðnum „Byggðastefna og samgöngumál“ í lokin, með leyfi virðulegs forseta: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir ráðstöfunum til þess að bæta rekstur orkuveitna á landsbyggðinni til þess að draga úr húshitunarkostnaði þar sem hann er hæstur.“ - Þetta er tilvitnun í stjórnarsáttmálann.

Ég held að það sé hollt að hafa það í huga þegar þessi mál eru rædd hvað ríkisstjórnin hefur ætlað sér í þessum efnum og bera það saman við efndirnar fram til þessa.

En hér er til umræðu, virðulegur forseti, þáltill. frá nokkrum þingmönnum Framsfl. um aðgerðir til jöfnunar á orkuverði. Ég get ekki tekið það illa upp út af fyrir sig að þingmenn hreyfi þessu máli þar sem um er að ræða eitt sárasta misrétti í þessu landi, þessi gífurlegi munur, sem menn þekkja af reikningum sínum sem þurfa að standa undir þeim kostnaði þar sem hann er hvað hæstur, og þessi mismunun er bæði á almennum taxta raforku, um 36% milli Reykjavíkursvæðisins og landsbyggðar hins vegar víðast hvar og varðandi húshitun er þessi munur miðað við sambærileg húsakynni hátt í það þrefaldur eða milli tvöfaldur og þrefaldur munur, en í reynd er hann auðvitað mun meiri vegna þess bæði að húsakynni og híbýli manna eru með nokkuð öðrum hætti víða úti um landið en algengt er hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem sambýli og fjölbýli er mjög algengt og orkukostnaður er mun minni í slíku húsnæði og einnig eru landsvæði norðar á landinu með lægri meðalhita víðast hvar en hér í Reykjavík sem leiðir til hærri húshitunarkostnaðar. Vissulega er það svo að það eru reikningarnir, það er sá kostnaður sem menn þurfa að standa undir sem reynir á hverju sinni og dreg ég þó ekkert úr þörfinni á að búa þannig að húsakynnum að orkunotkunin sé eðlileg og hófleg, þ.e. með orkusparnaðaraðgerðum sem svo eru kallaðar.

Ég vil þá víkja aðeins að bakgrunni þessarar till. og ég get ekki annað en tekið undir það þegar hæstv. ráðherra gagnrýnir flm. fyrir hvernig þeir koma með þetta mál inn á Alþingi. Það má nefna það ýmsum nöfnum, jafnvel ekki fallegum nöfnum þegar þingmenn stjórnarflokka eru nýbúnir að fella hér eða svo til nýbúið að fella hér tillögur á Alþingi sem fluttar eru í eðlilegu samhengi við þetta mál, þ.e. við undirbúning fjárlaga. Þegar þeir eru búnir að standa að því sem einn maður með öðrum stjórnarliðum að fella slíkar tillögur koma sömu þingmenn nokkrum vikum seinna og flytja tillögu sem ekki er hægt að kalla annað en aumustu sýndarmennsku, auðvitað tilkomið vegna þess að það er búið að banka svo í bakið á þessum hv. þm. eftir áramótin, eftir að þeir felldu tillögur okkar alþýðubandalagsmanna við fjárlagagerðina.

Það dugir skammt, hv. 1. þm. Vesturl., að vísa til þess að það hafi dunið yfir hækkanir á húshitunarkostnaði í landinu eftir að fjárlög eru afgreidd. Síðustu hækkanir á húshitunarkostnaði voru 1. des. á svæði Rafmagnsveitna ríkisins og ég hygg einnig hjá Orkubúi Vestfjarða, lágu fyrir við fjárlagagerðina, voru skilmerkilega tíundaðar hér í umræðum, hvað þar var á ferðinni, alveg fram í atkvæðagreiðslu sem var bæði við 2. og 3. umr. fjárlaga.

Ég hlýt einnig að vekja athygli á að í þessari tillögu þeirra hv. sex framsóknarmanna er í rauninni ekki að finna nokkur einustu markmið. Þetta er slíkur texti að maður hefur ekki séð það öllu óburðugra. Það er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir næsta þing tillögur um aðgerðir til jöfnunar á orkuverði í landinu. En það er ekkert sagt að hverju eigi að stefna í þeim efnum, hvers eðlis þær aðgerðir eigi að vera, og það er ekki gengið lengra en svo að hugsa til þess að það komi fram tillögur um þessi efni í tengslum við fjárlagaafgreiðslu fyrir næsta ár. Það er allur stórhugurinn sem er á ferðinni í þessari tillögu.

Ég er út af fyrir sig ekkert hissa á þessum vinnubrögðum því að ég þekki þetta ofurvel frá þingmönnum Framsfl., sumum hv. þm. sem enn sitja hér á Alþingi, frá fyrri árum, hvernig þessir menn stóðu að verki þegar ég gegndi starfi iðnaðar- og orkuráðherra á árunum 1978–1983, með hléi þó, og hvernig menn gengu fram á Alþingi og í fjölmiðlum, þingmenn Framsfl., með sýndarmennskuna einbera eftir m.a. að hafa staðið að frávísun á tillögum um orkuskatt og aðrar aðgerðir til jöfnunar innan ríkisstjórnar. Það væri hægt að hafa uppi ýmis orð um það.

Ég hlýt líka að minna á að afgreiðslan á málefnum Rafmagnsveitna ríkisins, sem hæstv. iðnrh. hefur minnt á hvernig stendur núna, lá fyrir við fjárlagagerð. Hvar voru tillögur þm. Framsfl. um aðra afgreiðslu mála hjá Rafmagnsveitum ríkisins við fjárlagagerðina en annarra stjórnarliða? 400 millj. kr. halli og dreginn upp skuldahali mun meiri og mun meiri vandi hjá þessum fyrirtækjum sem auðvitað mun bitna á viðskiptavinum þeirra ef ekki verður við brugðist af stjórnvöldum og staðið við gefin fyrirheit um yfirtöku skulda sem gefin voru á útmánuðum 1986 og raunar einnig þegar Hitaveita Suðurnesja yfirtók flutningslínur til Suðurnesja og þar sem um vanefndir er að ræða í sambandi við afgreiðslu þess máls hjá stjórnvöldum á þeim tíma.

Vissulega hefur, virðulegur forseti, blasað við lengi þörfin á jöfnun orkukostnaðar í landinu og ég hef hér ekki ráðrúm til þess að fara að rekja viðleitnina f þeim efnum og hvernig mál hafa þróast þar að lútandi. En ég minni á það að hér fyrir þinginu liggur till. frá okkur þm. Alþb. um stefnumörkun í raforkumálum, flutt af hv. þm. Þórði Skúlasyni og öðrum þm. Alþb., þar sem vísað er til nauðsynjarinnar á því að athuga hið fyrsta hvernig unnt sé að skipuleggja öflun og dreifingu raforku þannig að allir landsmenn búi við sem jafnast orkuverð. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir þá nefnd stjórnarliða sem nú starfa á vegum hæstv. iðnrh. að fara ofan í saumana á þessu efni, hvort ekki sé tímabært að létta flutningskerfinu í landshlutunum af Rafmagnsveitum ríkisins, því sem veldur þeim mestum tilkostnaði að standa undir, aðalflutningslínunum til þéttbýlisstaðanna og út um sveitir, og hið sama gildir auðvitað um Orkubú Vestfjarða, því ég held að þetta mál verði ekki leyst með neinum viðunandi hætti nema slík endurskipulagning fari fram. Jöfnun á heildsöluverði raforku frá Landsvirkjun sem lögboðið var með breytingu á lögum um Landsvirkjun veturinn 1982–1983 var vissulega mikilvægt spor. Og yfirtaka ríkisins á byggðalínunum var auðvitað þýðingarmikið í þessu samhengi þannig að margt hefur verið gert í þessum efnum, en við erum enn fjarri því sjálfsagða markmiði að landsmenn búi nokkurn veginn við sama grunnverð á orku, hvort sem þeir kynda með hitaveitum eða rafmagni. Hver sem orkugjafinn þarna er á það að vera markmiðið. Þetta eru undirstöðuþarfir og ef menn ætla sér eitthvað með orðum um að tryggja byggð í þessu landi verður að afnema þá grófu mismunun sem landsmenn þar búa við.

Þá er það hæstv. iðnrh. Nú vildi ég gjarnan að hann heyrði mál mitt því að ég ætla að beina til hans fsp. Hæstv. iðnrh. vék að ýmsu í sínu máli og ég þakka honum fyrir það. Þar á meðal fjallaði hann um hugsanlegar leiðir, ef ég skildi ráðherrann rétt, til þess að bregðast við þeim vanda sem hans ráðuneyti og hann sjálfur er að glíma við. Hann vék í sínu máli ... (Forseti: Ég verð að minna hv. 2. þm. Austurl. á að hann er kominn langt fram yfir þær 8 mínútur sem honum standa til boða.) Hvað er ræðumaður kominn langt fram yfir 8 mínútur? (Forseti: Ræðumaður er kominn nákvæmlega 4 mínútur fram yfir leyfilegan ræðutíma.) Hvað talaði hæstv. iðnrh. mikið fram yfir, með leyfi forseta? (Forseti: Ég held að það sé nú ekki atriði í þessu, en ég vil biðja hv. ræðumann að reyna að ljúka máli sínu sem allra fyrst.) Ég er að tala hér um jöfnun á orkuverði í landinu, tillögu þar að lútandi. Er ekki ástæða til þess að menn standi hér nokkuð jöfnum fæti í umræðum varðandi ræðutíma?

Hæstv. ráðherra vék að því að skattlagning á orkugjafa í landinu væri með mismunandi hætti. Við skattlegðum ekki innflutta orku, en skattlegðum hins vegar innlenda orkugjafa. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi í huga og sé reiðubúinn til þess að taka upp orkuskatt til jöfnunar á orkukostnaði í landinu, orkuskatt sem leggist á alla orkugjafa í þessu landi, hitaveitur, þar á meðal jarðvarmann, innflutta orku til landsins og þá einnig raforku, til þess að safna í sjóð til að jafna svo að um muni orkukostnaðinn í þessu landi. Tillaga um þessi efni var undirbúin í minni tíð í iðnrn. og borin fram við þáv. hæstv. ríkisstjórn, en um hana tókst ekki samstaða. Ég tel hins vegar að þar sé að finna leið sem sé eðlilegt að athuga einmitt núna þegar menn eru að fjalla um þessi efni.

Ég vil líka nefna það sem ég kom að áðan í sambandi við endurskipulagningu raforkukerfisins. Er hæstv. ráðherra reiðubúinn til þess að athuga um yfirtöku, að hvetja til samninga, t.d. við Landsvirkjun, og það er hún sem hlýtur að koma þar að máli, um yfirtöku á flutningskerfi Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða til þess að létta á kostnaði þeirra og til þess að samfélagið taki á þeim vanda með því að endurskipuleggja þannig raforkukerfið? Þetta eru þær spurningar sem ég vildi leggja sérstaklega fyrir hæstv. ráðherra. Ef hann hefur aðrar lausnir fram að færa og tillögur um þessi efni er vonandi að þær komi hér fram áður en þessari umræðu lýkur.

Hér skal ég, virðulegur forseti, láta lokið máli mínu. Það má vera að ég biðji um hið sama og hæstv. ráðherra að fá að koma hér aftur inn í þessa umræðu því að ég hefði sitthvað fleira um þetta að segja.