24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6122 í B-deild Alþingistíðinda. (4188)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að forseti skeri ekki niður umræðu mér til handa í ljósi þess sem á undan hefur gengið þannig að menn standi hér jöfnum fótum áfram. Ég skal þó reyna, virðulegur forseti, að fara ekki mjög fram yfir tímann sem ætlaður er.

Þessi tillaga, ég tek undir það bæði með hæstv. ráðherra og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, er einhver mesta sýndarmennskutillaga sem fram hefur komið á Alþingi, a.m.k. þann tíma sem ég hef þar setið. Sýndarmennska í ljósi þess að þessir sömu aðilar sem þarna eiga hlut að máli, nokkrir hverjir, þar með fyrrv. hæstv. ráðherra úr Framsfl. sat í ríkisstjórn í fjögur ár og lét okkur, landsfólk, búa við sama hlut og nú er að gerast og stendur að afgreiðslu fjárlaga á þann veg sem gert var á sl. hausti og hér var rifjað upp. Það er auðvitað enginn vandi að vera stjórnaraðili og haga sér með þessum hætti. Þetta hefði hverjum og einum stjórnarþm. þótt gott að flytja sem sitt mál hér inni á Alþingi, en það eru ekki nema sumir sem leyfa sér slíka siði og þá er helst að finna í Framsfl. að því er virðist.

En þessi tillaga segir meira. Þessi tillaga segir í raun og veru það að ekkert megi gera fyrr en á næsta ári í þessum efnum. Hún í raun og veru lokar fyrir það að neitt verði gert nú sem er auðvitað full þörf á að gera strax og þar tek ég undir með hæstv. ráðherra. Þetta þarf að gera strax en ekki bíða eftir því að þessum sex hv. þm. Framsfl. þóknist að hugsa um það á næsta ári. (Gripið fram í: Rétt.) Þetta er auðvitað hefting á því að hægt sé að gera neitt núna. Þetta er tillaga í öfuga átt. Hún er andstæð hagsmunum landsbyggðarfólks sem býr við hæst orkuverð. Hún vill hefta stjórnvöld í því að gera hlutina strax eins og verður að gera. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) Þetta er enginn misskilningur. Þetta er orðrétt, hv. þm. Þarftu að lesa tillgr.? Það þarf auðvitað ekki. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. sem flytja málið hafi kynnt sér það.

Hæstv. iðnrh. lét í það skína að það stæði á ráðherrum Alþfl. að því er varðaði þetta mál. Sé það réttur skilningur hjá mér vil ég leiðrétta hæstv. iðnrh. Það var hæstv. fjmrh. sem lagði til skipan þessarar umræddu þriggja manna nefndar, en iðnrn. eða fulltrúar þess hafa verið hálfgerðir dragbítar í þeim efnum. (Gripið fram í.) Þetta hefur þm. eftir nokkuð öruggum heimildum. (Iðnrh.: Kannski frá hæstv. fjmrh.?) Ég tel enga ástæðu til þess að gera grein fyrir því á þessu stigi máls, en það er trúlega hægt að kynna sér það frekar.

Hæstv. ráðherra sagðist hafa skrifað bréf til hæstv. fjmrh. 30. des. Um hvað var það bréf? Það var ekki í tengslum við þetta. Var það ekki í tengslum við uppgjör að því er varðaði Orkubúið og Rafmagnsveitur ríkisins? Það lá ljóst fyrir að það skortir um 500 millj. á að því er varðar Orkubúið, sem ríkið skuldar vegna afnáms verðjöfnunargjaldsins, og líklega 700 eða 800 millj. eða meira sem það skuldar Rafmagnsveitum ríkisins vegna sömu niðurfellingar á verðjöfnunargjaldi þannig að hér er um hundruð milljóna að ræða sem ríkissjóður skuldar en var búinn að lofa greiðslu á þegar verðjöfnunargjaldið var afnumið á sínum tíma. Bæði þessi fyrirtæki áttu að standa jafnfætis eftir sem áður.

Ég hygg að það geti enginn haldið uppi deilum hér á Alþingi um misrétti í þessum efnum. Það er öllum ljóst að misréttið er gífurlegt sem hér er um að ræða, svo mikið að hæstv. ríkisstjórn kemst ekkert undan því að taka á málinu strax. Mér er auðvitað ljóst að þetta verður ekki gert í einu vetfangi. Þessi aðstöðumunur verður ekki jafnaður á einu bretti, en það verður að stíga verulegt skref í þá átt að hér verði jöfnuður á. Annað gengur ekki því að haldi þessi þróun áfram leiðir hún til þess að landsbyggðarfólkinu, sem nú býr þar, fjölgar hér á suðvesturhorninu örar en nokkru sinni áður. Reykjavíkursvæðið hefur heldur ekki efni á því að láta slíka þróun eiga sér stað. Það er því nauðsyn á að bæta hér úr strax.

Hv. þm. Alexander Stefánsson vitnaði til dyggðanna hjá sumum þm. Framsfl. að því er varðaði landsbyggðina. Ég man ekki betur en að formaður Framsfl., núv, hæstv. utanrrh., hafi skilað hér nál. og yfirlýsingu 1983 þess eðlis að menn skyldu beita sér fyrir jöfnun á aðstöðu með búsetu í huga um landsbyggðina í kjölfar breytinganna á kosningalögunum. Hvað hefur gerst í þeim efnum af hálfu Framsfl.? Hafa þeir verið hinir ötulu forustumenn til þess að létta byrðarnar á landsbyggðarfólki það tímabil sem liðið er síðan? Og af því að hv. þm. minntist á Landsvirkjun, hver á sæti af hálfu Framsfl. í stjórn Landsvirkjunar? Hvaða þm. skyldi það vera? Það er formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson. Maður skyldi ætla að sá ráðamikli maður hefði aðstöðu til þess að taka málin upp þar og beita sér fyrir breytingum að því er þetta varðaði. Allt þetta mál af hálfu þeirra þm. Framsfl. sem hér eiga hlut að máli er sýndarmennskan helber og sýnir fram á það að hér er verið að gera tilraun til þess að hefta stjórnvöld í að gera neitt í þessu máli núna strax. Það á ekki að gerast fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári.