24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6129 í B-deild Alþingistíðinda. (4192)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það fer auðvitað ekki á milli mála að sú staða sem er í orkumálum okkar veldur mikilli umræðu í þjóðfélaginu. Ekki síst mismunandi verð á orku eftir byggðarlögum, eftir landshlutum og eftir orkugjöfum. Sú staðreynd blasir við að raforka í almennri útsölu, hvort sem er hjá Rafmagnsveitum ríkisins eða öðrum orkufyrirtækjum, hún hefur þó lækkað að raunvirði frá 1983. Á hinn bóginn hefur það gerst, eins og fram hefur komið í umræðunni, að innfluttur orkugjafi, þ.e. olía, hefur lækkað miklu meira, eða eins og iðnrh. sagði hér áðan: allt að 65%. Þetta veldur því að mismunur á milli orkugjafa er orðinn miklu meiri en áður var og það veldur óánægju og sárindum þrátt fyrir það að raforka hafi lækkað í verði að raungildi.

till. sem hér liggur fyrir felur það eitt í sér að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir næsta þing tillögur um aðgerðir til jöfnunar á orkuverði, einkum til húshitunar, og að við afgreiðslu næstu fjárlaga verði tekið frá fé til þeirra hluta. Það er því í ósamræmi við þessa tillgr. sem hv. 1. flm. segir hér í sinni síðustu ræðu að hann og þeir flm. vilji aðgerðir strax í fyrsta lagi, í öðru lagi breytingu á verðlagningu Landsvirkjunar og í þriðja lagi jöfnun á aðstöðu og orkuverði. Till. fjallar í rauninni ekkert um neinar aðgerðir strax í þessum efnum en eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh. þá hefur hann unnið að því innan ríkisstjórnarinnar að ná þeim aðgerðum fram. Og ég tel mikla þörf á því að við þm. stjórnarliðsins stöndum á bak við hæstv. iðnrh. í því að koma því fram og ná því fram sem hann er þar með tillögur um. Ég ætla ekki að ræða þær tillögur hér að öðru leyti.

Ég vil aðeins segja um það skipulag sem hér hefur verið talað um að það er vitaskuld í raun eitt orkuöflunarfyrirtæki í landinu. Það hefur að heita má alla orkuöflun á sínum höndum. Það er Landsvirkjun. Og það þarf ekki skipulagsbreytingu til þess. Það er einnig rétt að láta það koma fram að heildsöluverð á raforku hefur vaxið meira en smásöluverðið þannig að í útgjöldum Rafmagnsveitna ríkisins er nú heildsöluverðið 65% af öllum útgjöldum. Allur rekstur, fjármagnskostnaður, laun og rekstrarkostnaður er aðeins 35%. Fyrir nokkrum árum var heildsöluverðið 55–57% í heildarútgjöldum fyrirtækisins. Þetta er auðvitað sumpart vegna þess að fjármagnskostnaður hefur minnkað við það að ríkissjóður hefur yfirtekið hluta af lánum sem á Rafmagnsveitunum hvíldu.

Ég held að það sé einnig rétt að staðfesta það - og það ættum við hv. þm. Alexander Stefánsson að staðfesta - að við afgreiðslu fjárlaga voru fram komnar þær hækkanir sem síðast urðu á raforku. Þær urðu 1. des. Og það er rétt að staðfesta það að fjárlögin varðandi B-hluta stofnunar RARIK voru afgreidd á þessum forsendum. Og niðurgreiðslufé til raforku var líka afgreitt á þessum forsendum. Það komu engar tillögur um það frá fulltrúum Framsfl. innan fjvn. að breyta þessu. Og ekki heldur frá þeim sem hér talar vegna þess að við höfðum staðið að þessu við undirbúning fjárlagafrv. Ég vil einnig láta það koma fram hér að það var gert ráð fyrir því að þessi hækkun á raforku dygði út allt næsta ár svo fremi að ekki yrði hækkun á heildsöluverðinu og að ekki yrði röskun á þeim forsendum sem fjárlögin byggja á. En það verður auðvitað ekki komist hjá því að frekari hækkanir verði í smásölu ef heildsöluverðið hækkar að nýju.

Þessum aðstæðum þarf auðvitað að mæta með því að draga úr þeim mestu sárindum sem nú eru í þessum efnum sem auðvitað stafa fyrst og fremst af því hve mismunur á milli verðs á orkugjöfunum er orðinn mikill.

Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur sem upp hafa komið í þessum umræðum um þennan tillöguflutning, en aðeins ítreka það að till. fjallar í raun og veru aðeins um aðgerðir sem gætu tekið gildi á næsta ári. Árið 1989. Ég tel að við þurfum að standa að þessum málum á þann hátt að gripið verði til aðgerða sem draga úr þessum mismun og draga úr þeim miklu sárindum sem eru hjá notendum orku í landinu fyrr - helst sem allra, allra fyrst. Að því er vissulega unnið.

Ég skal ekki í þessari umræðu ræða frekar um skipulagsmál. En ég veit að þingheimur hefur fylgst með því að iðnrh. hefur skipað nefnd til þess að skoða skipulagsmál raforkuiðnaðarins í landinu, bæði heildsölu og smásölu. Sú nefnd er að starfi. Ég skal ekkert segja hvað út úr því kemur en ég held að menn geri stundum of mikið af því að kenna skipulagsmálum um verð á þessari neysluvöru. Við eigum við vissa erfiðleika að etja í dreifingu raforku um okkar strjálbýla og að ýmsu leyti erfiða en góða land og það breytist ekki hvaða skipulag sem við notum. Við höfum vissulega gert þær breytingar að færa verulegan hluta, þ.e. alla orkuöflunina og byggðalínurnar yfir til Landsvirkjunar og þar með gera Landsvirkjun að miklu stórveldi í þessum málum. Ég dreg í efa að það sé hyggilegt að auka við það veldi. Ég dreg það í efa þó að sumir tali hér kannski á öðrum nótum í sama mund sem þeir gagnrýna Landsvirkjun fyrir of háa álagningu á heildsöluverðið. Ég tek ekkert undir það. En ég dreg í efa að það sé til bóta að breyta skipulaginu á þann hátt að bæta við hlutverk þessa stórveldis.

Það hlýtur alltaf að verða svo þar sem stofnaðar hafa verið hitaveitur - við mjög mismunandi aðstæður - að sumar þeirra geta skilað notendum orkunnar lágu verði. Þar sem aðstæður eru erfiðar er orkan auðvitað mun dýrari. Það hefur töluvert verið gert til þess að jafna þennan mun með verulegum framlögum ríkisins, m.a. í yfirtöku lána sem hvílt hafa á hinum erfiðari hitaveitum sem hafa búið við vondan fjárhag og erfiða aðstöðu.

Ég skal ekkert kveða upp úr um það hér hvað á að ganga langt í því að jafna þetta til fulls, en væri það gert mundi það væntanlega fela það í sér að við stefndum út í þá ófæru að menn teldu sér fært að ráðast í hitaveituframkvæmdir í rauninni hvað sem þær kostuðu. Við megum gæta okkar á því að ana ekki út í slíkt fen. Við höfum vissulega gert mikið í því að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir í þessum efnum þó ég telji að það megi að sjálfsögðu athuga það hvort unnt sé að gera meira í því að jafna þar á milli.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég tel meira virði að leitast við að taka saman höndum um það að grípa nú strax til aðgerða í þessum efnum heldur en að afgreiða hér till. um það sem gert kynni að verða við afgreiðslu næstu fjárlaga og gert kynni að verða á næsta ári.