24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6134 í B-deild Alþingistíðinda. (4194)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á ég ekki að segja eins og aðrir hv. þm.: Hér er hreyft mjög merkilegu máli. Það er kannski þeim mun merkilegra vegna þess að við könnumst vel við þetta mál, að stefnt sé að því að allir landsmenn búi við sem jafnast raforkuverð.

Við munum eftir því þm. Vesturl. þegar við tókum höndum saman á síðasta kjörtímabili og unnum að því að bæta hag Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar þegar raforkuverðið þar var orðið óbærilegt. Og við náðum þar töluverðum árangri, jafnvel án margra þáltill.

Það má benda á að í starfsáætlun hæstv. ríkisstjórnar frá 8. júlí 1987 segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir ráðstöfunum til þess að bæta rekstur orkuveitna á landsbyggðinni til að draga úr húshitunarkostnaði þar sem hann er hæstur.

Nú situr að völdum ríkisstjórn sem við styðjum - jú, líklega allir þeir framsóknarmenn sem eru flm. að þessari þáltill. — þannig að við höfum á vísan að róa og getum talað við okkar menn í ríkisstjórn hvenær og hvar sem okkur sýnist.

Það vantar ekki að þm. Vesturl. sem og öðrum hv. þm. berist mörg bréf um þetta efni, að það eigi að jafna orkuverðið. Það er hægt að vitna í fjöldamörg bréf og samþykktir, m.a. þá sem hv. 1. flm., 1. þm. Vesturl., vitnaði í hér áðan úr Stykkishólmi frá 3. þ.m. Það er hægt að vitna í skýrslur og skrár frá rafveitustjórunum m.a. bæði í Búðardal og Stykkishólmi, Jónasi og Ásgeiri. Og á þessu þingi hafa ýmsar till. verið fluttar, einmitt sem stefna í þessa sömu átt, m.a. till. á þskj. 553 til þál. um stefnumörkun í raforkumálum. Eitt meginatriðið í þeirri till. er það að allir landsmenn búi við sem jafnast raforkuverð. Það má nefna fyrirspurnir á þessu þingi frá hv. 3. þm. Vesturl., fsp. til iðnrh. um raforkuframleiðslu, og fsp. til iðnrh. um raforkuverð, á þskj. 528 og 529.

Það eru margir sem hugleiða þessi mál og segja álit sitt á þeim. M.a. er í Tímanum frá 27. febr. sl. grein eftir hæstv. utanrrh. sem ber yfirskriftina „Landsvirkjun, ríki í ríkinu.“ Svona mætti lengi telja. En á hinn bóginn höfum við svo grein hæstv. iðnrh. frá því á laugardaginn var þar sem hann lýsir því yfir að unnið sé að þessum málum og líkur á að þar verði tillögur settar fram mjög bráðlega til úrbóta.

Þess vegna er það mín niðurstaða nú á þessum degi að það sé kannski ekki þörf á fleiri áróðurstillögum í þessu efni. Þær hafa oft takmarkað gildi, sérstaklega þegar einlit flokkshjörð skipar hóp flm. En með hliðsjón af því sem nú hefur verið nefnt tel ég að við þm. Vesturl. allir sem einn - og raunar allir hv. alþm. sem orðaðir eru á einhvern hátt við byggðir landsins allar til sjávar og sveita - við ættum nú, og ekki síst við sem styðjum núv. hæstv. ríkisstjórn, að taka höndum saman í fullri alvöru og vinna að því með sterkum rökum og fullum þunga að orkuverð um allt land verði jafnað sem allra mest.

Orkuverð er orðið svo gildur þáttur í búreikningum hverrar fjölskyldu og fyrirtækja að þar má ekki mikið ósamræmi eiga sér stað. Lífsskilyrði fólks eiga að vera sem allra jöfnust hvar sem það á heima hér á landi. Við ættum að geta treyst því að við verðum bænheyrðir af okkar eigin ríkisstjórn. Og ég treysti hæstv. iðnrh. vel til þess að láta til sín taka í þessum málum.