24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6140 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt af því hve mikil nauðsyn það getur verið að útskýra hlutina vel fyrir sumum mönnum svo þeir skilji. Vissulega eru það í sjálfu sér alltaf mistök ræðumanna þegar þeim verður það á að haga svo máli sínu að sumum mönnum sé fyrirmunað að átta sig á því hvað verið er að tala um. Í þessu tilfelli blasir það við að það er gífurleg offramleiðsla á raforku í landinu. Það er útlit fyrir enn þá meiri offramleiðslu á raforku í landinu og ef hv. 2. þm. Austurl. hefði verið samfellt iðnrh. og fengið þá fjármuni sem hann hefði viljað fá til virkjana, þá hefðum við sennilega verið búnir að virkja það sem við hefðum þurft fyrir árið 2050, en söluþátturinn algjörlega eftir. Því þá var stefnan sú að það ætti að virkja og virkja og virkja og virkja en alls ekki selja.

Núna blasir það aftur á móti við að þegar offramleiðsla er — og við skulum taka einföld dæmi, svo menn misskilji ekki enn einu sinni hlutina — t.d. á kartöflum, þegar offramleiðsla er á kartöflum, þá snarfellur verðið. Það snarfellur jafnt á Austfjörðum sem annars staðar. Hér er spurningin um það hvort Landsvirkjun ætlar að verðleggja sig út af markaðnum. Það er spurningin. Það er ekki verið að gera það fyrir þá sem eru að hita upp með raforku að kaupa raforkuna. Það er mikill misskilningur. Þeir eiga miklu ódýrari kosta völ. Ef Landsvirkjun ætlar að verðleggja sig út af markaðnum og ef það er stefna hæstv. iðnrh., þá tel ég að ef ríkissjóður leggur fram fjármuni þá eigi ekki að nota peningana í niðurgreiðslur á raforku. Þá eigi að nota peningana í það að koma upp kyndingartækjum á Íslandi sem skila fólki miklu ódýrari orku til upphitunar. Látum verðfallið eiga sér stað. Látum það sitja uppi með sína offramleiðslu og látum það streyma til sjávar. Ég ætla ekki að gerast björgunarmaður í þeirri stöðu fyrir þessa herra. Þess vegna þurfum við stefnu.

Ég geri ráð fyrir því miðað við hvað veðrið er yndislegt í dag að það fari nú senn að minnka upphitunarkostnaðurinn svona yfir hásumarið líka. (Gripið fram í.) Þeir láta þá loka ef í hart fer. Það getur vel verið að það eigi þá að taka upp það kerfi að menn sitji uppi með svo há stofngjöld og það verði bara allt heila draslið hirt. Ég veit það ekki. En við þessu verða að fást svör. Ætlar Landsvirkjun að verðleggja sig endanlega út af húshitunarmarkaðinum eða ætlar hún að lækka sína taxta til upphitunar húsnæðis? Við þessu verðum við að fá svör.

Þegar hv. 2. þm. Austurl. talar um það, vissulega með réttu, að við felldum till. við fjárlögin fyrir honum, till. sem hefði þýtt það að fjármagni hefði verið varið í niðurgreiðslur, þá segi ég það hiklaust hér og nú varðandi mig að ég trúði því ekki að það gæti gerst að iðnrh. ætlaði sér ekki að hafa áhrif á það að Landsvirkjun mundi þurfa að verðleggja sitt rafmagn í einhverjum takt við þá orku sem verið er að selja í landinu og hægt er að nota til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Ég er sannfærður um það að t.d. fyrir venjuleg sjávarþorp á köldum svæðum er billegasta leiðin í dag til að hita upp í þorpunum að reisa þar eina kolakyndistöð og kynda upp með kolum. Það er langódýrasta leiðin. Mengun sáralítil.

Aftur á móti ef menn hérna eru þeirrar skoðunar að draumurinn um það að Landsvirkjun eigi að verða skuldlaus um næstu aldamót — eins og stjórnarformaður hennar hefur tvívegis með árs millibili boðað að væri stefnan og telji að það eigi að fara í það að borga stórfé úr ríkissjóði til þess að tryggja að þetta gerist - þá er það út af fyrir sig sjónarmið líka. Þá er það sjónarmið líka. En ég spyr: Hvers vegna? Er það til að hækka arðgreiðslurnar til Reykjavíkurborgar, Akureyrar og ríkisins?

Það er hægt að halda því fram að þetta sé einokunarfyrirtæki út af fyrir sig og það er það að vissu marki. Menn hafa tekið hluti hér eignarnámi. Menn hafa tekið hluti hér eignarnámi í þessu landi. Vilja menn að það verði farið í það að taka Landsvirkjun eignarnámi? (HBl: Hver ætlar að borga?) Hver ætlar að borga? Auðvitað verður hv. 2. þm. Norðurl. e. látinn borga eins og aðrir, verði það gert. (HBl: Verður þá ekki útkoman núll?) Ég held að það sé ástæðulaust annað en að hafa hann með í hópnum þeirra sem borga. Nei, það er hægt að skella slíku fram að það sé eitthvað óvíst með það hverjir verða látnir borga. Auðvitað verður íslenska þjóðin látin borga, þar á meðal þeir sem verið væri að taka eignirnar af undir þessum kringumstæðum sem skattgreiðendur til ríkisins.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi talað svo skýrt að hv. 2. þm. Austurl. hafi skilið merkingu þessarar ræðu.