24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6142 í B-deild Alþingistíðinda. (4199)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er kannski óþarfi að ræða mikið meira um þessa till., en ég vil þó endurtaka það sem ég sagði áðan hér úr þessum ræðustól að ef ekki eiga að vera einhver önnur viðbrögð skjótari, þá er enginn vafi á því að það minnka ekki flutningarnir, fólksflutningarnir frá Vestfjörðum eða annars staðar, hér suður. Og ef farið verður eftir þeirri stefnu, sem hæstv. iðnrh. kunngjörði Alþingi áðan, að honum bæri að hækka verðið um 12%, þá mundi hitunarkostnaðurinn, ef ég man réttar tölur, verða 2,69 kr. á Vestfjörðum, þ.e. tveimur krónum meira en hér í Reykjavík. Hjá RARIK mundi þetta losa 2 kr.

Halda hv. þm. að þetta gangi? Hafa ekki allir orðið varir við þá uppreisn sem er að verða um allt land út af því misrétti sem fólk býr við? Nei, hæstv. iðnrh., þetta gengur ekki. Þetta bara gengur ekki. Hvar verða hin raunverulegu verðmæti aðallega til? Halda menn að það sé fyrst og fremst hér? Halda menn það? Ætti það verði ekki þröngt fyrir dyrum ýmissa hér í höfuðborginni ef Vestfirðingar, Norðlendingar og Austlendingar flytja í stórum stíl hingað? Það eru auðvitað nógir peningar hér enn þá til að byggja, jafnvel stórhýsi í Tjörninni eða uppi á hitaveitutönkunum. Þar skortir ekki fé. En fyrir hvað skortir ekki fé? Það er vegna þess að það helst of lítið af því fjármagni sem landsbyggðin leggur þjóðfélaginu til, það helst of lítið eftir. Ofan á þetta bætist að það á að íþyngja og er enn íþyngt á þann hátt sem hér hefur komið fram. Það vill svo vel til að ég er búinn að fá upplýsingar um hvernig þessi mál eru í raun og veru. Þau eru svona.

Hvaða vit er í því að t.d. Vestfirðingar mundu geta lækkað hitunarkostnaðinn um 1,30 með því að fara aftur í olíuna, miðað við þessa 12% hækkun? Olíukostnaðurinn er 1,34 - reiknað út af mönnum sem þýðir ekkert fyrir sérfræðinga hér í Reykjavík að segja að þeir viti betur. (Iðnrh.: Hann er heldur hærri.) Það þýðir ekkert fyrir þá. Það þýðir ekkert að skjóta sér á bak við einhverja skólagöngu. Þetta er svona. Því miður verð ég að segja það að þessi tillaga er að því leyti til þörf að hér hefur verið umræða um þessi mál sem er nauðsynleg. Hún verður kannski til þess að mál koma hér inn með öðrum hætti, en hún leysir engan vanda annan vegna þess að þetta verður hrunið ef á að bíða út árið. Það er málið.

Muna ekki hv. þm. eftir tillögu sem var samþykkt - ég man ekki hvort það var í hittiðfyrra - um það að fjmrh. kæmi fram með lausn í lífeyrismálum heimavinnandi húsmæðra og það lægi fyrir 1. júní eða júlí á sl. ári? Hafið þið orðið vör við þessar tillögur? Ég bara kem með þetta sem eitt dæmi af mörgum sem væri hægt að tína hér upp.

Ég ætla að láta þetta nægja. En það er alveg á hreinu að ef það verður ekki einhver hreyfing á þessu nú allra næstu vikur, þá fá þm. að heyra í landsbyggðarmönnum með margföldum áherslum miðað við það sem hefur verið fram að þessu. Því þó að það sé reiknað út hér svona og svona - ég er t.d. með íbúð norður í Hörgárdal sem er jafnstór þeirri íbúð sem ég bý í hér í Reykjavík, og það er með veðursælli stöðum á Norðurlandi þar sem ég bý, en þar er meira en þrisvar sinnum meiri kostnaður af rafhituninni en það sem ég borga hér. Meira en þrefaldur. Og það er bara það sem hæstv. ráðherra náttúrlega skilur ekki að það er kaldara fyrir norðan. Það er það. Og það munar meiru heldur en margir reikna með. En hvað er það þá sums staðar annars staðar? Enda bara sjáið þið tölurnar. Það er talað um jafnvel upp í 17 þús. kr. hitunarkostnað á mánuði og þeir fullyrða að það sé frá 7 þús. og upp í 14 þús. á Þingeyri. Ég hef lokið máli mínu.