03.11.1987
Sameinað þing: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

46. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara mjög náið út í efnisatriði þessarar till. en tek undir að það er þörf úrbóta í menntunarmálum kennara vegna þess að við þær fjölbreytilegu og síbreytilegu aðstæður sem við lifum í okkar þjóðfélagi þá hlýtur þessi menntun að þurfa að vera í sífelldri endurskoðun. Og það er eitt sem er einnig nauðsynlegt og það er að auðvelda kennurum, sem jafnvel nú þegar eru í starfi og kallast leiðbeinendur, að sækja þá menntun sem þeim er nú skylt að hafa.

Það er annar þáttur í þessu sem er ekki síst mjög nauðsynlegur og það er að gera kennurum hvar sem þeir búa á landinu kleift að sækja sér bæði símenntun og endurmenntun því að það er mikil næring fyrir starfandi kennara, en eins og fram kom í máli hv. flm. þá hefur verið heldur mikil deyfð og doði yfir kennarastarfinu undanfarin ár vegna þeirrar launabaráttu sem kennarar hafa átt í, og er reyndar ekki séð fyrir endann á enn þá, en allt slíkt, sem getur orðið kennurum lyftistöng í sínu daglega starfi, bætir þeirra hag og þá um leið auðvitað nemendanna í skólunum.