24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6144 í B-deild Alþingistíðinda. (4201)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér var sagt áðan að það er vissulega ánægjulegt að fá slíkt mál til umræðu svo mjög sem það brennur á æðimörgum. Hitt sný ég ekki til baka með, sem ég hélt hér fram í morgun, að þetta er sýndarmennskutillaga af versta tagi að því er það varðar að þeir sem að henni standa samþykktu allt annað fyrir nokkrum vikum síðan. Ef þessi till. væri samþykkt - nú spyr ég reyndari hv. þm. en ég er - ef Alþingi samþykkti þessa tillgr. eins og hún liggur fyrir, hvað þýddi það? Það þýddi í raun og veru viljayfirlýsingu þingsins um að ekkert yrði gert fyrr en á næsta ári. (Gripið fram í: Það er rangt. ) Það er ekki rangt. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa tillgr. eins og hún liggur fyrir þó að búið sé að því einu sinni:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir næsta þing tillögur um aðgerðir til jöfnunar á orkuverði í landinu.

Sérstök áhersla verði lögð á jöfnun kostnaðar við upphitun húsa. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 verði gert ráð fyrir fjármagni til slíkra aðgerða.“

Þetta er tillgr. Og hvað þýðir það ef Alþingi samþykkir svona ályktun? Það er viljayfirlýsing þingsins um að ekkert yrði gert í þessu að því er varðar peninga fyrr en á næsta ári. Þessu getur auðvitað enginn mótmælt. Ég bara skírskota til hæstv. forseta hvort þetta er ekki réttur skilningur á samþykkt á slíkri till. (ÓÞÞ: Við bíðum eftir svari.) Ég skírskota til hæstv. forseta. (ÓÞÞ: Við bíðum svarsins.) Ég veit að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gerir það.

Út af því sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði áðan þá undirstrikaði hann þetta. Hann sagði nánast orðrétt: Það væri sýndarmennska ef ég væri að fara fram á það núna að rifta þeim fjárlögum sem ég gekk frá fyrir nokkrum vikum. Hann orðaði þetta svona. Hann er sammála mér í þeim efnum að það verður ekkert gert á þessu ári að því er varðar greiðslu frá ríkissjóði í þetta efni. Þannig að það er nú ekki í fyrsta skipti sem við hv. þm. Ólafur Þórðarson erum sammála í þessum efnum. Það er ekki nýtt. (HG: Værirðu til með að kljúfa ríkisstjórnina líka?) Væri ég til með? Ég er nú ekki vanur að gefa yfirlýsingar fyrir fram. Ég ígrunda nú málin vel áður en ég geri slíkt.

Að því er varðar Landsvirkjunartalið sem mikið hefur komið fram hjá hv. þm. Framsfl. og snýr að þessu máli, þá er ástæða til að spyrjast fyrir um það: Hvaða afstöðu hefur fulltrúi Framsfl. - sem situr í stjórn Landsvirkjunar, sem er formaður þingflokks framsóknarmanna - hvaða afstöðu hefur hann til þessara mála að því er varðar Landsvirkjun, breytingar frá því sem nú er til hins, að Landsvirkjun verði samkeppnisfær við aðra orkugjafa? Hafa menn einhverja vitneskju um inntak þeirra tillagna sem formaður þingflokks Framsfl. hefur í þessum efnum innan Landsvirkjunarstjórnar? Ef svo er þá lýsi ég eftir slíkum af hálfu hv. framsóknarþm. eða annarra ef þeir vita betur. Ef ekki hefur komið upp vilji innan þingflokks Framsfl., og þá formannsins í þessa veru, þá er þetta enn frekara sýndarmennskutal en ég átti von á frá þessum hv. þm. Og hef ég þó ekki reynt hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson að því fyrr að vera slíkan sýndarmennskutillögumann eins og mér sýnist hér vera á ferðinni, að því er þetta varðar.

Við viljum aðgerðir, sagði hv. þm. Ólafur Þórðarson. Hvaða aðgerðir felur þessi tillgr. í sér? Ekki neitt. Ekki orð. Ekkert annað en það að ríkisstjórnin, sem þeir treysta til einskis, leggi fram tillögu fyrir næsta ár. Það er sú stefna sem þeir eru að biðja um með þessari till., að ríkisstjórnin, sem þeir vantreysta trekk í trekk, geri tillögur fyrir næsta ár. Það er það sem þeir eru að biðja um. Ja, þvílíkt og annað eins af stjórnarsinnum að vera!

Við viljum stefnu í málinu, sagði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Og enn spyr ég: Hver er stefnan í þessari tillögu? Hvar liggur hún? (ÓÞÞ: Jöfnuður.) Jöfnuður? Í hvaða veru? Í hvaða veru, hv. þm.? Það er ekki stafkrókur um það með hvaða hætti það á að gerast. Ekki stafkrókur. Hér má auðvitað segja, þessi till. er orðrétt uppfærð á það sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði. Þetta er auðvitað verkhraði snigilsins, þessi tillaga, þ.e. að geyma málið, að geyma málið til næsta árs. Það er verkhraði snigilsins og það er það sem þessir hv. þm., sex framsóknarmenn að tölu, leggja til að gert verði.

Nei, þetta er miklu meira alvörumál og brennur miklu heitar á en að menn geti leikið sér að því með þessum hætti. Hér eiga menn að sameinast - hvar í flokki sem menn standa eða hvaðan sem þeir eru. Þessu ástandi verður ekki unað öllu lengur. Og því veit ég að hæstv. iðnrh. kynntist vestur á fjörðum fyrir skömmu síðan að þar brennur heitt á mönnum hvernig þessi mál standa. Að því leytinu til er það út af fyrir sig gott að fá umræðu um málið og hv. þm. Ólafur Þórðarson má þakka okkur fyrir það að hafa orðið til þess að halda umræðunni gangandi þangað til hv. þm. mætti til þess að taka þátt í málinu. Það eigum við skilið að fá heiður fyrir sem höfum staðið í þessu hér í dag að ræða málið.

Að öðru leyti skal ég ekki segja öllu fleira um þetta mál. En ég hvet eindregið til þess og ég hvet hæstv. iðnrh. til þess sérstaklega að láta nú hendur standa fram úr ermum og gera eitthvað í þessu máli. Það er fullyrt að það sé nefnd starfandi, þó að hv. þm. Alexander Stefánsson hafi ekki haft vitneskju um það hér í morgun að slík nefnd væri komin af stað og það með tilveru þm. úr Framsfl. Ég veit ekki hvort hv. þm. Ólafur Þórðarson veit til þess, en slík nefnd er komin af stað í vinnu að því er ráðherra upplýsir og ég vænti þess að menn fari að gera eitthvað í þessum efnum þó ekkert væri annað en að menn stigju það skref að niðurgreiðslurnar yrðu sama hlutfall og þær voru áður, þó menn mundu ekkert gera annað. Það sýndi þó lit á því að menn vildu eitthvað gera til þess að leiðrétta þetta sem hér er verið um að ræða þó ekkert væri annað gert á þessu stigi málsins - en ekki nota verkhraða snigilsins, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, geyma allt fram á næsta ár.