24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6153 í B-deild Alþingistíðinda. (4208)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Hér er mjög gott mál á ferðinni sem verður auðvitað ekki leyst með þáltill. einni saman. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. flm. að launamunur í landinu fer það vaxandi að slík viðbrögð sem þessi hljóta að verða. Spurningin er: Með hvaða hætti á að reyna að þvinga fram breytingar á því ástandi sem er í landinu að þessu leyti? Það er alveg sama með þetta mál eins og það sem við ræddum hér fyrir stundu og urðu miklar umræður um. Ef fulltrúar launafólksins og landsbyggðarinnar ná saman er hægt að breyta þessum málum til betri vegar. Maður hrekkur við að sjá framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins koma fram í sjónvarpi eða útvarpi dag eftir dag og segja: Það eru engir möguleikar til þess að borga hærra kaup. Atvinnuvegirnir standa svona og svona. Þessum mönnum dettur ekki í hug að hægt sé að stokka upp og skipta kökunni með öðrum hætti. Það hvarflar ekki að þeim, það er ekki möguleiki.

Ég vil ekkert fullyrða um það hver launamunurinn er. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan, ef ég hef tekið rétt eftir, 15—20%. (SJS: Fimmtán- til tuttugufaldur.) Já. Ég held að þetta sé kannski ekki svona glannalegt, en e.t.v. allt upp undir fimmtánfalt, jafnvel það veit ég um.

Svo er aftur spurningin, hver á launamunurinn að verða? Það er annað mál. Við getum hugsað t.d. til læknanna sem eru komnir á fertugsaldur þegar þeir eru búnir að ljúka sínu námi. Þeirra starfsaldur er ekki mjög langur í raun og veru. Spurningin er hvort það á að verða þrisvar, fjórum sinnum eða fimm sinnum. Það er dálítið annað að það sé fimmtánfalt eða fimmfalt. Það er nokkur munur og þetta þurfa menn að kanna. Það er ekkert sjálfgefið í þessu.

En þegar það er orðið þannig að sumir hafa yfir hálfa millj. í laun á mánuði, og það er upp gefið, og ekki er hægt að borga öðrum meira en eitthvað um 30–40 þús. sjáum við náttúrlega að þetta gengur bara ekki. Það er alveg útilokað mái. En við skulum gera okkur grein fyrir því að ef fulltrúar þessa fólks, sem geta ef þeir hafa vilja og skilning, taka höndum saman er hægt að breyta þessu sem ýmsu öðru. Það bara skortir, því miður. Fólk er rígbundið í þessum flokkum og fer eftir forustunni að verulegu leyti. Flokksræðið er þannig í landinu, en sem betur fer er þetta að gliðna. Það er þó eitt sem misréttið verður til að breyta og það er það að uppstokkun verður í öllum þessum flokkum því fólk þolir þetta ekki. Við sjáum hvað er að gerast t.d. úti á landsbyggðinni og jafnvel hjá hinum fátækari hér.

En misréttið er svo yfirgengilegt á mörgum sviðum. Það er ekki nóg að hafa 50 þús. kr. í laun ef það er þrisvar, fjórum sinnum dýrara að hita upp húsin svo að dæmi sé tekið. Það er settur söluskattur á flutninga út á land. Það er ekki nóg að við borgum af hverri einingu sama krónufjölda að viðbættum eðlilegum flutningskostnaði, heldur þarf að setja einnig söluskatt á þennan flutningskostnað. M.ö.o., misréttið kemur fram í alls konar myndum og menn virðast ekki hafa kjark, ekkert þrek, til þess að hrista af sér fjötrana og takast á við þetta misrétti.

Ég þakka þeim sem fluttu þessa till. Hún er til þess að ræða um málið en hryggilegt er hve fáir eru hér til þess að taka þátt í umræðum um svona mál. Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það varð niðurstaða þingflokks Alþb. að nauðsynlegt væri að leggja fram á þinginu till. til þál. um stefnumótun í launamálum sem snertir launajöfnun, lágmarkslaun og nýja launastefnu. Hv. 4. þm. Norðurl. e., formaður þingflokks okkar, hefur gert grein fyrir þessari tillögu í sinni framsöguræðu hér áðan og hef ég engu þar við að bæta út af fyrir sig. Ég ætla aðeins að minna á nokkur aðalatriðin.

Ég vek þá fyrst athygli á því að fyrir þinginu liggja núna mörg mál sem snerta laun og launatekjur, fjöldi mála frá mörgum flokkum. Ég hygg að leita þurfi mjög langt aftur í tímann, þingsöguna, til að finna jafnmargar tillögur og jafnítarlegar umræður um launamál og þær sem fram hafa farið á þessu þingi. Og af hverju skyldi það nú vera, virðulegi forseti, að umræður um launamál eru skarpari á þessu þingi heldur en stundum áður?

Ég hygg reyndar að ástæðurnar liggi í augum uppi þegar við lítum aðeins í kringum okkar, horfum fyrst og fremst á þá staðreynd að mismunun í lífskjörum öllum er hrikalegri núna en sést hefur mjög lengi í þessu landi. Það er ákaflega alvarlegur hlutur fyrir þessa litlu þjóð ef það er þannig að menn fara að upplifa hér stórkostlega mismunun í lífskjörum. Það verður til að sundra þjóðinni, veikja hennar samstöðugetu og átakamöguleika á öllum sviðum. En forsenda þess að hægt sé að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi er sú að það sé tiltölulega mikill jöfnuður og í rauninni er krafan í litlu þjóðfélagi um jöfnuð mikið sterkari og jafnvel brýnni en í hinum stærri þjóðfélögum. Þess vegna er það að mismununin er meginástæðan fyrir því að um þessi mál hefur verið fjallað jafnítarlega á yfirstandandi þingi og raun ber vitni um og það er alveg ljóst að það verður fjallað um þessi mál áfram, fyrst og fremst vegna þess að það er alveg augljóst að það mun ekki núna alveg á næstunni takast að rétta við hlut láglaunafólks með þeim hætti sem réttlætiskenndin segir okkur að sé óhjákvæmilegt.

Ég held að við þurfum líka að átta okkur á því að önnur ástæða fyrir þessum miklu umræðum um launamál er sú að það hafa átt sér stað stórfelldar breytingar á efnahagskerfinu á undanförnum árum. Vextir hafa verið gefnir frjálsir eins og það er kallað. Við búum hér við einhverja hæstu raunvexti sem til eru í þessu landi. Verðlag hefur verið gefið frjálst og það er alveg augljóst mál að sums staðar eru til peningar, stórfelldir fjármunir í þessu þjóðfélagi, meðan þá skortir sárlega annars staðar. Hvaðan skyldu þeir peningar vera teknir sem hafa verið notaðir til þess að auka verslunarhúsnæði á Reykjavíkursvæðinu um 55 þús. fermetra á einu ári og hver skyldi borga þessa peninga? Auðvitað er alveg ljóst að frelsið í vöxtum, frelsið í verðlagi, hefur orðið til þess að það hefur orðið minna til skiptanna annars staðar, minna í hina félagslegu þjónustu, minna í samneysluna, minna í kaupið. Það er auðvitað alveg hrikalegt að horfa upp á það að jafnaðarmannaflokkur svokallaður skuli ganga inn í ríkisstjórn við þessar aðstæður án þess að gera kröfur um að hagsmunir gróðans séu skorðaðir af og það sé tekið fé af þessum gróðaöflum eða gróðapungum eins og þeir hafa stundum verið kallaðir hér úr þessum ræðustól. Það er þess vegna alveg hárrétt sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði hér áðan. Það þarf að þvinga fram breytingar á þessu kerfi. Og það verður að gera með lýðræðislegum ákvörðunum þingsins. Það verður að gerast með því að þau stjórnmálaöfl sem þora að ganga á hólm við markaðinn, markaðshyggjuna, nái saman hér á þessu þingi og menn hætti að vinna í þágu peningaaflanna þar sem Sjálfstfl. er hin pólitíska kjölfesta.

Það er kostulegt þessa daga, virðulegi forseti, að horfa á sjónvarpsfréttir dag eftir dag þar sem forstjóri Vinnuveitendasambands Íslands kemur í sjónvarp og segir: Það er ekki hægt að borga hærra kaup.

Kjarni málsins er í rauninni ekki sá, heldur hinn, það er ekki hægt að lifa af þessu kaupi sem verið er að borga. Það er ekki hægt að lifa af þessu kaupi og þessi tillöguflutningur okkar m.a. hér í þinginu er til marks um það að við höfnum þessum málflutningi fyrir hönd þess fólks sem verið er að dæma til hinna svívirðilega lágu lífskjara sem byggjast á hinum lágu og lélegu kauptöxtum.

Þess vegna er það auðvitað stórkostlegt umhugsunarefni við ríkjandi aðstæður að það skuli gerast aftur og aftur í umræðum á hv. Alþingi að það er sagt sem svo: Samtök launafólks geta ekki lyft þessu, þau geta ekki bætt kaupið og kjörin. Reyndir verkalýðsleiðtogar koma hér, eins og hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hefur gert, og segja: Verkalýðshreyfingin nær ekki lengra. Og stundum botna menn hennar setningar með því að segja: Verkalýðshreyfingin getur þetta ekki.

Ég hygg, virðulegi forseti, að þetta sé ekki rétt sett upp með þessum hætti. Ég er sannfærður um það að samtök launafólks geta þetta ásamt pólitískum öflum ef menn hafa rænu á því að taka höndum saman sem saman eiga í þessu landi. Ég hygg að forsenda þess sé sú að menn láti réttlætiskenndina bera sig áfram og neiti að þola þann svíðingshátt sem birtist í hinum lágu kauptöxtum og lélegu lífskjörum sem við þekkjum um þessar mundir í einu auðugasta þjóðfélagi veraldar. Það er engin ástæða til þess, virðulegi forseti, að þola þetta ástand.