24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6156 í B-deild Alþingistíðinda. (4210)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. till. fyrir það að hún er fram komin. það stendur okkur kvennalistakonum að sjálfsögðu nærri að þakka flutning hennar þar sem hún hnígur mjög í sömu átt og við höfum ítrekað lagt til í nokkur ár og nú síðast með framkomnu frv. sem hnígur mjög í sömu átt.

Það hlýtur líka að gleðja okkur í ljósi þess að í vor, þegar við stóðum í stjórnarmyndunarviðræðum og lögðum fram sem skilyrði fyrir stjórnarþátttöku að gripið yrði á þessum málum með þeim hætti að á þeim fyndist lausn og þá með lögbindingu lágmarkslauna ef ekki fyndust betri leiðir, mælti enginn þeim aðferðum bót - ég undirstrika: enginn. En nú er svo komið að æ fleiri virðast sammála um það að einhverja slíka leið verði að finna, sá árangur hafi ekki náðst í frjálsum samningum, eins og það er kallað, að við verði unað og verði því að grípa til annarra ráða og þá að löggjafinn verði að grípa inn í ef ekki finnast aðrar leiðir.

Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um þetta hér vegna þess að ég tel mig þegar hafa rætt þessi sömu mál úr þessum ræðustóli en undirstrika einungis vilja okkar til að vinna með öðrum þeim sem stefna að sama marki. Og þó að eitthvað kunni að bera í milli í aðferðum eða hugmyndum um það hvernig þessu marki verði best náð að láta það ekki standa í vegi fyrir að fólk nái þá sameiginlega settu markmiði, fari ekki að hnjóta um smáatriði eða útfærslur eða bítast um - ég vil ekki segja smáatriði - svona útfærsluleiðir, heldur sameini kraftana og finni það sem sameinar frekar en það sem sundrar.