24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6161 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Ingi Björn Albertsson:

Það er akkúrat, virðulegi forseti, eins og síðasti ræðumaður sagði, pólitískur samnefnari. Hér er verið að skapa þjóðfélag flatneskjunnar. Hér má enginn rísa upp úr. Hann talar um að hagnaðinn eigi að skattleggja. Auðvitað verður hann ekkert skattlagður vegna þess að þetta dregur úr hvata manna til þess að mynda hagnað. Af hverju eiga menn að vera að mynda hagnað eingöngu til þess að láta skattleggja hann? Þeir bara vinna upp að þessum mörkum og hætta síðan. Og launamismuninn, hvernig ætlarðu að túlka hann? Fer það eftir fjölskyldustærð? Ég þarf að fæða átta munna. Sumir þurfa að fæða þrjá. Hvernig kemur það inn í launamismuninn? Getur hv. þm. svarað því eða er það í „kommapólisíunni“ hvað hún má vera stór fjölskyldan? (SvG: Barnabætur, lífskjarajöfnun.) Barnabætur! Það er ölmusukerfi sem þið eruð að boða. Þið viljið fá allt til ykkar og hreyta svo af borðum ykkar. (Gripið fram í.) Við erum tilbúnir til að leita leiða til að hækka lægstu laun, já, en það á ekki að draga úr hinu frjálsa framtaki, einkaframtakinu. Einstaklingurinn á að fá að njóta sín.