24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6162 í B-deild Alþingistíðinda. (4216)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Mér finnst rétt að ég komi hérna upp vegna þess sem ég sagði hér áðan og því miður hefur verið rangtúlkað af hv. 7. þm. Reykv. Ég vil gera skýran greinarmun á tvennu, annars vegar kjarasamningum og hins vegar aðgerðum ríkisvaldsins, þar á meðal Alþingis, til þess að rétta kjör hinna lægst launuðu og annarra þjóðfélagsþegna.

Það kom alveg skýrt fram í mínu máli að ég vildi ekki að ríkisvaldið skipti sér af kjarasamningum sem slíkum. Hins vegar kom það líka skýrt fram í mínu máli að ég vildi að ríkisvaldið kæmi inn í og rétti kjör þeirra sem undir eru í þjóðfélaginu. Það var alveg ljóst og allt tal í aðra átt er rangt. Ég benti líka á þá till. sem við þm. Borgarafl. lögðum fram um það að til þess að hífa upp lægstu laun, þá vildum við að ríkisvaldið greiddi í formi ónýtts persónufrádráttar til lágtekjufólks og kæmi þannig inn í til þess að það fólk hefði þó a.m.k. eitthvað til hnífs og skeiðar.

Ég fagna þessari till. engu að síður, þó að það mæli margt á móti því að hún verði samþykkt, sérstaklega því, eins og fram hefur komið hér í máli margra, að þessum málum skuli vera hreyft og það núna þegar kjarasamningar standa yfir og lýsa hver sé vilji þm. til þessara mála. Ég held að núna í framhaldi þurfum við, a.m.k. stjórnarandstöðuþm., að taka okkur saman um raunhæfar tillögur í þá átt að bæta kjör þessa fólks og koma jafnvel með sameiginlegar tillögur í þá átt.