03.11.1987
Sameinað þing: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Ragnhildur Helgadóttir:

Frú forseti. Tillagan sem hér liggur fyrir er um efni sem við erum öll sammála um, þ.e. aðalefnisatriðið er mótmæli gegn stækkun endurvinnslustöðvarinnar við Dounreay í Skotlandi. Tillagan fjallar um það að skora á ríkisstjórnina að bera fram þessi mótmæli.

Ástæðan til þess að ég tek til máls er sú að það liggur fyrir að þetta mál er í gangi hjá ríkisstjórninni og var líka hjá síðustu ríkisstjórn þannig að margir ráðherrar beittu sér fyrir andmælum, hver á sínum vettvangi, út af þessu máli.

Það eru nokkur ár orðin síðan, það var 10. apríl 1984, hæstv. þáv. heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason svaraði fsp. 1. flm. þessa máls um rannsóknir á mengun lofts og lagar. Þá kom fram mjög greinileg stefnumörkun í svari hæstv. þáv. ráðherra Matthíasar Bjarnasonar, hv. 1. þm. Vestf., mjög eindregin stefnumörkun í sambandi við þessi mál, m.a. varðandi eftirlit með mengun af völdum geislavirkni í hafinu. Þessari stefnu var svo fylgt eftir einmitt í sambandi við það kjarnorkuver sem hér hefur verið rætt um.

Þetta kom m.a. fram í svari hæstv. þáv. utanrrh. Matthíasar Á. Mathiesens fyrir ári síðan. Hann lýsti því að þá hefði enn á ný verið leitað skýrslna og umsagna frá Hafrannsóknastofnun, sérfræðingi ríkisstjórnarinnar um kjarnorkumálefni, prófessor Magnúsi Magnússyni, hjá Geislavörnum ríkisins og forstöðumanni þeirrar stofnunar, dr. Sigurði M. Magnússyni, og hjá Siglingamálastofnun. Skýrslur þessara aðila voru svo lagðar til grundvallar þegar hæstv. samgrh. í síðustu ríkisstjórn, Matthías Bjarnason, undirbjó afstöðu Íslands á fundum um Parísarsamkomulagið um þessi efni og m.a. þeim fundi sem hv. 1. flm. gat um áðan og haldinn var í júní í Cardiff í Wales. Þar var tillaga Íslands um sérstakar ráðstafanir vegna nýrra endurvinnslustöðva fyrir brennsluefni kjarnaofna samþykkt með nokkrum breytingum. Það var auðvitað mikilvægur áfangi.

Ég undirstrika sérstaklega að það var mikill alvöruþungi í formlegum mótmælum umhverfisráðherra allra Norðurlandanna sem samþykkt voru á fundi þeirra í Finnlandi á sl. vetri í sambandi við þing Norðurlandaráðs. Tók ég þátt í þessum fundi fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Þau andmæli voru afhent umhverfismálaráðherra Breta, Nicholas Ridley. Þar var mótmælt staðsetningu endurvinnslustöðvarinnar og sérstaklega tekið fram að við teldum að þessi verksmiðja væri talin ógna fiskvinnslu Noregs, Íslands og Færeyja. Það var áhersluatriði íslensku ríkisstjórnarinnar, svo og stjórna Noregs og Færeyja.

Þá er ég komin að atriði sem ég tel vert að undirstrika mjög í sambandi við þetta mál en það er einmitt aðstaða okkar til þess að fylgjast með mengun í hafinu og þá sérstaklega af völdum geislavirkni. Þetta varðar sérstaklega viðskiptahagsmuni okkar og söluhagsmuni í sambandi við sjávarafurðir. Við kynntumst því vel eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl að í mörgum löndum voru gerðar mjög strangar kröfur um eftirlit og vottorð um það að fiskurinn sem héðan kæmi væri ómengaður af þessum sökum. Í framhaldi af því voru gerðar ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu Geislavarna ríkisins til þess að fylgjast með slíkri mengun og samkomulag var gert við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina sem hljóp undir bagga með aðstoð varðandi búnað í þessu skyni.

Við þurfum hins vegar að gá vel að því að íslenska ríkið standi líka við sitt að þessu leyti til því þetta hefur geysimikla þýðingu einmitt fyrir okkur og okkar sjávarafurðir. Eins og hv. flm. nefndi eru þær þjóðir, sem aðilar eru að Efnahagsbandalaginu, kannski sjálfar í minnstri hættu, eða þeirra framleiðsluverðmæti, vegna hugsanlegrar kjarnorkumengunar ef eitthvað bæri út af á þessum stað í Skotlandi. Aftur á móti verða þær þjóðir sem framleiða matvæli handa þessum löndum að vera í stakk búnar til þess að hafa viðhlítandi eftirlit og til þess að mæla hugsanlega hættu sem að þessum verðmætum okkar getur steðjað.

Þess vegna hvet ég sérstaklega til þess að við gerum hvað við getum til þess að stuðla að því að unnt verði að hafa mælingar í góðu lagi eins og nútímatækni býður upp á. Það getur orðið okkur mjög dýrt ef svo verður ekki. Til þess gæti hin dýrkeypta reynsla, sem ýmsar þjóðir urðu fyrir eftir slysið í Tsjernóbíl, hjálpað okkur og við gætum munað eftir því. Auðvitað er það sjálfsagt að ríkisstjórnin haldi áfram að mótmæla stækkun þessarar stöðvar í Skotlandi einmitt af þessum sökum og vegna staðsetningar hennar. Ég tek fram að ég hef aflað mér upplýsinga um að núverandi ríkisstjórn hefur þetta atriði einmitt til meðferðar og það hefur þegar verið sett á dagskrá heimsóknar hæstv. núv. iðnrh. til Bretlands en það verður í janúarmánuði nk. Á dagskrá hans þar er einmitt fundur með starfsbróður hans og Skotlandsmálaráðherra þar sem ætlunin er að bera fram mótmæli við þessu.

Þannig liggur það fyrir að Sjálfstfl. hefur þessa afstöðu og ráðherrar hans halda áfram þar sem hæstv. ráðherrar og fyrrv. ríkisstjórn höfðu verið að verki í sambandi við þetta og þeir munu ítreka mótmælin og halda þessu verki áfram. Okkur þótti því kannski svolítið skringilegt að fara að taka þátt í því að skora á ríkisstjórnina sem við vissum að var með þetta verkefni á borði sínu og hafði þegar uppi ákveðnar aðgerðir í þessu sambandi. Okkur þótti slík áskorun vera fullseint á ferðinni með því að málið er í fullum gangi og þegar komið á skrið fyrir löngu.