24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6168 í B-deild Alþingistíðinda. (4220)

367. mál, iðgjöld vegna bifreiðatrygginga

Guðrún J. Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi þáltill. er um margt hin ágætasta þó að ég dragi nú að vísu sumt í efa. Ég held ekki að það sé alfarið öruggt að bót sé að því að slá saman tryggingafélögum. Ég er ekki viss um að það verði endilega mikill hagnaður af því. Ég t.d. tryggi minn bíl hjá tryggingafélagi sem slegið var saman við annað og ég hef ekki orðið vör við að ég hafi grætt neitt sérstaklega á því. En kannski hef ég tapað minna, ég þori ekki að fullyrða um það.

Því meiri akstur, því meiri iðgjöld sagði hann að væru í Noregi. Ég er ekki heldur alveg viss um - ég er sammála síðasta ræðumanni um það - að það sé rétt aðferð til þess að ákveða iðgjöldin vegna þess að þeir sem aka mikið eru oftast þeir sem eru fimastir í akstrinum. Því er það ekki sjálfgefið að þeir eigi að borga meira en aðrir.

Þeir sem valda mörgum tjónum eiga að greiða hæstu iðgjöldin, sagði hv. síðasti ræðumaður. Það er afskaplega erfitt að ákveða hverjir valda flestum tjónum. Það er nefnilega þannig í umferðinni hér á Íslandi og sjálfsagt víðar að óramargir valda tjónum með ógætilegum akstri sínum, með því að leggja bílum á stöðum þannig að ekki er hægt að sjá fram hjá bílunum og það eru sérlega margir sem valda tjónum án þess að koma nokkurn tímann nærri nokkrum tjónaskýrslum. Það er ekki hægt að koma höndum yfir slíkt fólk. Það er hins vegar hættulegasta fólkið í umferðinni. Það fólk þyrfti að fá það sem hefur verið rætt mjög um, þ.e. fræðslu og hugarfarsbreytingu, innrætingu nýs hugarfars í umferðinni. Mér finnst einna merkast, sem komið hefur fram í þessu máli, einmitt það að við þurfum að efla mjög umferðarfræðsluna. Mér finnst að við eigum að nota hið nýja fjarfræðsluvarp, eða hvað það heitir nú, til þess að koma á umferðarfræðslu fyrir allan almenning í þessu landi og stórefla þekkingu, bæði þeirra sem aka og þeirra sem eru gangandi, á því hvernig á að hegða sér í umferðinni. Ég get ekki látið hjá líða að benda á að ein af ástæðunum fyrir því að sífellt fjölgar bæði umferðarbrotum og umferðarslysum er hreinlega sú að á síðustu árum hefur verið ausið inn í landið bifreiðum þannig að bifreiðarnar eru orðnar í rauninni allt of, allt of margar fyrir vegina.

Enn eitt er það sem ég held að valdi því að iðgjöld trygginga eru mjög há og það er það að viðgerðarkostnaður á bílum er óheyrilega hár á Íslandi. Það væri eðlilegt viðfangsefni þeirrar nefndar sem hér er lagt til að sé sett á stofn að athuga það hvort viðgerðarkostnaður sé ekki óeðlilega hár hér. Varahlutakostnaðurinn er, að ég held, óeðlilega hár og viðgerðarkostnaðurinn þar af leiðandi líka. Þetta ætti að vera með í þessari þáltill. og nefndin sem hugsanlega verður sett á laggirnar ætti að taka það til athugunar.

Að öðru leyti hef ég ekki annað en allt hið besta um þessa þáltill. að segja og held að hún sé þörf fyrir þjóðarátak til þess að bæta umferðarmenningu okkar. Hún er sennilega mikið, mikið brýnni heldur en bjórfrumvarpið sem var samþykkt hér í gær.