24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6171 í B-deild Alþingistíðinda. (4223)

384. mál, stefna Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að ákvörðun Evrópubandalagsins um innri markað 1992 er afdrifarík, ekki bara fyrir lönd Evrópubandalagsins heldur reyndar öll Evrópulönd. Þess vegna hefur ákvörðunin kallað á viðbrögð landa í Evrópu sem eru utan Evrópubandalagsins. Í framhaldi af Lúxemborgaryfirlýsingunni og ákvörðunum Evrópubandalagsins um innri markað hefur t.d. EFTA skipt um hlutverk. Hið nýja hlutverk varðar fyrst og fremst samskipti og samninga við Evrópubandalagið. Á þessu nýja verkefni held ég að sé óhætt sé að segja að EFTA hafi tekið með myndarskap. Einstakar EFTA-þjóðir hafa þar á ofan, eins og t.d. Svíþjóð, Noregur og Sviss, jafnframt látið vinna ítarlegar skýrslur um þróun Evrópubandalagsins, viðhorf sín og stefnumörkun í því sambandi.

Þeirri till. sem hér er flutt er m.a. ætlað að tryggja að sams konar úttekt verði gerð af hálfu Íslands. Það verkefni sem við stöndum frammi fyrir varðandi þróun mála í Evrópu er margþætt en ég vil drepa á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi verðum við að kynna okkur vel ákvarðanir Evrópubandalagsins og fylgjast vel með því sem þar er að gerast þannig að þekking okkar á málunum sé ótvíræð og traust. Á þetta legg ég áherslu af því að á það hefur skort og í umræðum um þessi mál kemur oft fram mikill misskilningur á eðli Evrópubandalagsins og þeirra ákvarðana sem þar eru á ferðinni. Þeirri þáltill. sem hér er flutt er ætlað að treysta kunnáttu okkar einmitt á þessu sviði þannig að misskilningi verði sem mest eytt.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að almenn umræða og á traustum grunni fari fram á Íslandi um málið til þess að tryggja upplýsta og lýðræðislega umfjöllun. Það er líka markmið þeirrar till. sem hér er flutt að leggja grunninn að þessu atriði.

Í þriðja lagi tel ég að í umfjölluninni allri eigi að ganga út frá því að aðild okkar sé ekki á dagskrá en að ætlun okkar sé að aðlaga íslenskt efnahagslíf að þeim breytingum sem fram undan eru.

Í framhaldi af þessu vil ég benda á að innri markaður Evrópubandalagsins felur mjög margt í sér og án þess að tíunda það þá vil ég benda á að við megum ekki skoða þá þróun sem fram undan er í Evrópu eingöngu með tilliti til útflutnings á núverandi afurðum okkar. Það er of þröngt sjónarhorn. En því miður gætir þess allt of mikið að málin séu eingöngu rædd og skoðuð út frá þessu þrönga sjónarhorni. Þróunin er svo fjölbreytt að það er hættulegt að skoða málin einungis með tilliti til þess. Málið varðar nefnilega efnahagslífið allt, það varðar hagstjórn og hagstjórnartæki, það varðar tækniframfarir og það varðar vísindastarfsemi og það varðar þróun atvinnulífsins í heild sinni og þar á ofan vitaskuld varðar það eiginlega sambúð þjóðanna.

Í grg. með þáltill. er bent á fjóra meginþætti sem ég tel að eigi að marka starf okkar að því er þessi mál varðar á komandi missirum.

Í fyrsta lagi að kappkostað verði að fylgjast vel með þeim ákvörðunum sem fram undan eru í Evrópubandalaginu og koma jafnharðan sjónarmiðum Íslands á framfæri. Því verður að halda áfram viðræðum við bandalagið um samskipti og samstarf þar sem sérstaða Íslands, sem vissulega er mikil, verði kynnt sérstaklega jafnframt því sem leitað verði eftir samstarfi á völdum sviðum.

Í öðru lagi að aðild Íslands að EFTA verði nýtt til hins ýtrasta til þess að tryggja hagsmuni Íslands í samningaumleitunum og viðræðum milli EFTA og EB um afnám viðskiptahindrana. Ísland þarf að hvetja til þess að EFTA verði eflt og stutt til þess að sinna þessum verkefnum.

Í þriðja lagi verði aukið samstarf ráðuneyta til þess að tryggja örugga miðlun upplýsinga og samræmi í ákvörðunum varðandi Evrópumálin. Jafnframt verði komið á reglulegu samráði við samtök atvinnulífsins um þessi málefni.

Í fjórða lagi verði gerð sérstök athugun á því hvernig íslensk hagstjórn verði löguð að hinum nýju aðstæðum og færð til betra samræmis við það sem gerist í helstu samskipta- og viðskiptalöndum Íslendinga með það að markmiði að auka hagvöxt og stuðla að auknum stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Ég tel, herra forseti, að þessi till. tali fyrir sig sjálf.

En áður en ég rek efnisgreinina get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því að hvert sem horft er sést nú sú þróun að það eflist samstarf milli þjóða. Það er það sem er að gerast innan Evrópubandalagsins vegna þess að áform þess um sameiginlegan innri markað felur í sér að aðildarlöndin ætla í sinn hóp að opna hagkerfi sín til fullnustu hvert fyrir öðru.

Það sama er að gerast allt í kringum okkur. Það er m.a.s. svo að Sovétríkin vilja auka samskipti yfir landamæri sín. Sovétríkin eru að opnast og það sama gildir um Kína. Þetta er auðvitað ekki tilviljun. Ég held að þetta sé svar við kröfum tímans. Það er krafan um hagvöxt og framþróun sem knýr á um aukin samskipti og opnari hagkerfi. Það er opnun hagkerfanna sem vísar veginn til hagvaxtar. En að hinu leytinu eykur opnun hagkerfanna þörfina fyrir samvinnu þjóða í milli. Markmiðin um stöðugleika í verðlagi, gengismálum, atvinnustarfsemi og hagvexti knýja þess vegna á um síaukna samvinnu og samstarf þjóðanna. Þetta tel ég að unnt sé að sjá allt í kringum okkur.

Spurningin snýr að okkur Íslendingum með því móti að hve miklu leyti við getum aðlagað okkur þessari þróun og að hve miklu leyti við viljum vera þátttakendur í henni. Mín skoðun er sú að við þurfum að nálgast þetta mál með opnum augum og vissulega höfum við ekki áhuga á að einangrast og þolum það ekki.

Till. fjallar um stefnu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu og tillgr. er þannig:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd sjö alþingismanna eftir tilnefningu þingflokka til þess að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu, einkanlega með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað.

Nefndin skal kanna áhrif þessara ákvarðana og líklegrar þróunar í Evrópu á íslenskt efnahagslíf og meta þær leiðir sem álitlegastar eru til þess að laga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að þeim breytingum sem fram undan eru. Í starfi sínu skal nefndin hafa samráð við samtök atvinnulífsins. Nefndin skili skýrslu um athuganir sínar og tillögur fyrir árslok 1988.“

Það er skoðun mín að Alþingi þurfi að hafa sem gleggsta yfirsýn yfir þessi mál og nauðsynlegt sé að þm. verði virkir þátttakendur í mati á aðstæðum og stefnumörkun. Með því að koma á fót sérstakri þingmannanefnd, eins og hér er gerð tillaga um, er ætlunin að tryggja að svo megi verða og að þm. gerist virkir þátttakendur í stefnumörkununum.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að till. verði vísað til utanrmn.