24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6173 í B-deild Alþingistíðinda. (4224)

384. mál, stefna Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi till. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson hér leggur fram er hin merkasta og hefði verið full ástæða til að ætlast til þess þegar till. af þessu tagi er tekin fyrir að þá séu salir hér betur skipaðir eða þéttar skipaðir - vel skipaðir eru þeir auðvitað - þéttar skipaðir en þeir eru í dag. Það er dálítið umhugsunarefni fyrir okkur þm. sem erum hér að taka þátt í umræðum um þessar þáltill., sem eru auðvitað allar góðra gjalda verðar og ástæða til að ræða, dálítið umhugsunarefni að það skuli ekki vera hægt á dögum eins og þessum löngu fimmtudögum sem hér eru nú tíðkaðir samkvæmt nýjum vinnureglum þingsins, á dögum eins og þessum löngu fimmtudögum skuli í raun og veru vera mjög erfitt að fá umræðu um mál af þessu tagi, jafnvel þó að þau séu eins stór og þýðingarmikil og þetta mál er.

Ég vil hins vegar ekki láta hjá líða að láta mína afstöðu koma í ljós í þessu efni, um leið og ég þakka hv. þm. Kjartani Jóhannssyni fyrir það að hreyfa málinu, og segja að ég tel till. þarfa. Ég vil gera við hana þrjár athugasemdir.

Það er í fyrsta lagi að lagt er til að Alþingi feli ráðherra að skipa sjö manna nefnd eftir tilnefningu þingflokka. Ég tel að það sé æskilegt og nauðsynlegt að allir þingflokkar eigi aðild að nefnd af þessu tagi og það þurfi að koma málum þannig fyrir á einhvern hátt, hvort sem það er með því að nefndin sé sjö manna eða jafnvel aðeins fjölmennari ef þörf krefur, því ég held að það sé svo stórt mál hér á ferðinni að það sé rétt hjá hv. flm. að það sé nauðsynlegt að allir þingflokkar geti komið hér við sögu. En eins og kunnugt er þá er það þannig með skipan þingsins eins og nú er að stjórnarflokkarnir geta ef þeir neyta afls síns haft fimm menn í sjö manna nefndum og stjórnarandstöðuflokkar þá tvo. Og ég vil a.m.k. segja það fyrir hönd míns þingflokks og okkar að við viljum gjarnan eiga aðild að þessu máli, gjarnan taka þátt í þeirri vinnu sem hér er lagt til að fram fari. Við teljum það skyldu okkar og viljum gjarnan leggja þar hönd á plóginn.

Önnur athugasemd sem ég vil gera við till. er við seinni mgr. þar sem segir: "... og meta þær leiðir sem álitlegastar eru til þess að laga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að þeim breytingum sem fram undan eru.“ - Ég hygg að ég hefði orðað þetta öðruvísi ef ég hefði skrifað þennan texta, orðað hann einhvern veginn þannig að það ætti að meta þær leiðir sem álitlegastar eru til að undirbúa íslenskt efnahagslíf undir þær breytingar sem fram undan eru. M.ö.o.: Ég mundi ekki treysta mér til þess á þessu stigi að slá því föstu að við hljótum að laga íslenskt efnahagslíf að þessum breytingum. Það kann að verða niðurstaðan að svo verði. Ég hefði sem sé kosið hlutlausara orðalag þarna.

Í þriðja lagi þá segir hv. þm. í till. sinni: „Í starfi sínu skal nefndin hafa samráð við samtök atvinnulífsins.“ - Ég hygg að hann eigi hér við sömu aðila eða svipaða og eiga t.d. aðild að ráðgjafarnefnd EFTA þar sem eru fulltrúar bæði launafólks og atvinnurekenda. Stundum er orðið atvinnulíf skilið þannig að þar séu bara þeir sem eiga framleiðslutækin, þ.e. atvinnurekendurnir. Ég er viss um að hv. þm. skilur orðalagið ekki þannig en ég hefði ekkert á móti því að það yrði skýrara þegar það kemur frá hv. utanrmn. sem ég vona sannarlega að afgreiði þetta mál núna fyrir þinglokin þannig að þessi nefnd verði til og þetta verði ekki ein af þeim fjölmörgu þáltill. sem lagðar eru hér fram án þess að fá afgreiðslu. Ég held að það sé mjög brýnt að þessi till. fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.