24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6175 í B-deild Alþingistíðinda. (4225)

384. mál, stefna Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem hér ekki í ræðustól til þess að halda langa ræðu í þessu máli eða lengja umræður en ég vildi ekki láta hjá líða að taka undir þessa till. Ég tel hana mjög tímabæra og hér gott mál á ferðinni sem nauðsyn ber til að fái meðferð á hv. Alþingi og ég mun styðja það fyrir mína parta að hún verði afgreidd á þessu þingi og legg ég það lóð sem ég má á vogarskálarnar til þess.

Það er nú þannig að í málefnum Evrópubandalagsins hafa orðið miklar breytingar, ekki síst hvað afstöðu Íslands varðar til þessa bandalags. Við höfum mikla viðskiptahagsmuni hjá Evrópubandalaginu eins og kunnugt er og þarf ekki að rekja ástæðurnar fyrir því, þær eru mönnum kunnar. Þar hafa komið fleiri aðildarþjóðir inn sem eru okkar mestu viðskiptaþjóðir. Það hefur ríkt bærileg pólitísk samstaða um það hér í landi, afstöðuna til Evrópubandalagsins. Menn eru sammála um annmarkana á því og það sem kemur í veg fyrir að við getum gerst aðilar að þessu bandalagi. En þrátt fyrir að menn séu sammála um það er nauðsynlegt að móta afstöðu gagnvart þeim miklu breytingum sem þar væntanlega verða á næstu árum og að Alþingi Íslendinga fylgist eins grannt og unnt er með þeirri þróun sem þar er að verða.

Ég sé í rauninni ekki ástæðu til að lengja mál mitt mikið frekar í þessu efni. Ég tel að sú skipun nefndar, sem hér er lögð til, til að kanna þessi mál sérstaklega og skila áliti til Alþingis í þessu mikilvæga máli, sé farsæl leið til að halda þeirri þjóðarsamstöðu sem nauðsynleg er gagnvart þeim miklu breytingum sem þarna eiga sér stað hjá okkar næstu nágrannaþjóðum.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi að ég vonast til að þessi till. fái þinglega meðferð og verði afgreidd hér fyrir þinglok og mun styðja það eins og ég má.