03.11.1987
Sameinað þing: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka það sem fram kom í máli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur sem ég met sem efnislegan stuðning við þetta mál enda hefur hún, eins og ég rakti, komið að því máli áður. Ég efaðist ekkert um að það væri hugur hjá mönnum að taka á þessu máli. Mér þótti hins vegar miður að virðulegir þm. Sjálfstfl. skyldu ekki sjá ástæðu til þess að vera meðflytjendur þessarar tillögu. Mér finnst þess gæta svolítið hér á virðulegu Alþingi að menn rugli saman annars vegar framkvæmdarvaldinu og ríkisstjórninni og hins vegar þjóðþinginu og segi sem svo: Hvað er þjóðþingið að blanda sér í mál sem eru til einhverrar meðferðar á vettvangi ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma? Þetta finnst mér ekki í rauninni eðlilegur skilningur á hlutverki þingsins því að hvað sem kann að gerast á vettvangi ríkisstjórnar í sambandi við svona mál — og um það var ekkert upplýst, um það lágu engar upplýsingar fyrir hvaða stefnu málið tæki þar þegar þessi tillaga var lögð fram og það er fyrst nú sem hv. þm. greinir frá því að hæstv. iðnrh. ætli að taka þetta mál upp í janúar nk.

Ég vænti þess að allir þm. átti sig á því að það er auðvitað styrkur fyrir framkvæmdarvaldið og hæstv. iðnrh., eða hvaða ráðherra sem á þessu máli heldur innan ríkisstjórnarinnar, að hafa eindreginn og einbeittan vilja þjóðþingsins á bak við sig í máli sem þessu. Ég efast ekkert um að þetta mál fái góðan stuðning í þinginu og það einnig frá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur sem á sæti í utanrmn. sem fær þetta mál til meðferðar. Raunar eiga þar sæti flm. þessarar tillögu aðrir en ég, bæði sem aðalfulltrúar og áheyrnarfulltrúar.

Ég þarf í rauninni ekki að orðlengja þetta frekar nema ég fagna því að það verður tækifæri til þess af hálfu íslensks ráðherra í opinberri heimsókn, eins og hér kom fram hjá síðasta ræðumanni, að taka þetta mál upp sérstaklega. Ég bendi þó einnig á að þetta mál varðar fleiri þjóðir en Breta. Hér eru fjórar aðrar þjóðir sem ætla sér að vera þátttakendur í þessari viðbótaruppbyggingu í Dounreay og auðvitað þarf að taka það mál upp einnig við þær. Ég hygg raunar að Efnahagsbandalag Evrópu væri ekkert óeðlilegt heimilisfang mótmæla og aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessu sambandi enda kaupir Efnahagsbandalagið í vaxandi mæli fiskafurðir frá Íslandi þannig að þetta ætti að eiga skilningi að fagna og einhvern hljómgrunn a.m.k. meðal þeirra sem horfa eitthvað fram fyrir sig hjá þeim ágætu viðskiptaþjóðum okkar.

Ég treysti því að þetta mál fái þann byr, ekki aðeins hjá okkur, heldur hjá öðrum þjóðum sem í hlut eiga, að horfið verði frá þessum áformum um frekari uppbyggingu tengda kjarnorkuiðnaði í Skotlandi og að menn leiti annarra leiða jafnframt því sem við hljótum að ala þá von í brjósti að þjóðirnar átti sig á hættunni sem fylgir kjarnorkunni, ekki aðeins á hernaðarsviðinu, heldur einnig í friðsamlegum tilgangi sem svo er kallaður.