11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6183 í B-deild Alþingistíðinda. (4243)

362. mál, tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir efni þeirrar þáltill. sem hér er flutt og mælt hefur verið fyrir af hv. 12. þm. Reykv. Mér sýnist hér vera á ferðinni hið þarfasta mál því að það hefur dregist allt of lengi í framhaldi af setningu laga um jafnrétti karla og kvenna 1985 að þess sæjust merki af hálfu framkvæmdarvaldsins að hagnýta þau ákvæði sem felast í 3. gr. laganna sérstaklega um sérstakar tímabundnar ráðstafanir til þess að leiðrétta þann mismun sem við blasir og mikið er rætt um og tekið undir í orði af flestum að sé til staðar.

Ég heyrði það hjá hæstv. félmrh. hér áðan að það væri verið að vinna að þessum málum í hennar ráðuneyti og á vegum Jafnréttisráðs. Vissulega er það góðra gjalda vert ef þau mál eru þar á hreyfingu. Mér fannst kannski skorta á hjá hæstv. ráðherra að hún fagnaði framkomu þessarar tillögu sem stuðningi við þá vinnu sem þar væri í gangi því að eitt er það að framkvæmdarvaldið sinni málum af þessu tagi, sem er auðvitað eðlilegt, og annað að Alþingi veiti framkvæmdarvaldinu stuðning til þess að taka á málum þegar tillögur liggja fyrir. Þess vegna vænti ég þess að hæstv. ráðherra greiði fyrir því að Alþingi lýsi vilja sínum með samþykkt þessarar tillögu og noti slíka samþykkt sem viðspyrnu þegar hæstv. ráðherra kemur fram með sínar tillögur sem gert er ráð fyrir að hæstv. félmrh. kynni Alþingi. Í ýmsum greinum þarf vafalaust að leita fjárveitinga til þess að leiðrétta þann mismun sem hér er vakin athygli á og tengist auðvitað í mjög mörgum tilvikum fjárhagslegum og efnahagslegum aðstæðum sem eru konum óhagstæðar.

Ég vil, herra forseti, nefna að fyrir þinginu liggja tillögur sem tengjast þessum málum, bæði frv. til l. um breyt. á l. um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, 12. gr. laganna um að hafa skuli sem jafnasta tölu fulltrúa beggja kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka og er þar miðað við að settur verði svokallaður kvóti þannig að ekki verði færri en 40% af hvoru kyni í slíkum nefndum, stjórnum og ráðum á vegum hins opinbera. Þetta tengist því sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir vék hér að sem dæmi um aðgerðir sem víða hefur verið gripið til erlendis til þess að ná fram leiðréttingu á stöðu kvenna, að setja kvóta. Og mér er kunnugt um það og við lesum um það í erlendum blöðum mjög oft um þessar mundir að umræða fer fram innan bæði stjórnmálaflokka og á opinberum vettvangi um það að setja slíka kvóta. Ég hef vænst þess að þingið taki á þessari tillögu en hún er nú í hv. félmn. Nd. þingsins. Ekki alls fyrir löngu mælti ég fyrir tillögu, sem flutt er af þremur hv. þm. auk mín, um jafnréttisráðgjafa. Þar er í grg. beinlínis vikið að því að starfsemi jafnréttisráðgjafa geti m.a. verið stuðningur við mótun og framkvæmd sérstakra verkefna á vegum stofnana og fyrirtækja sem miði að því að bæta stöðu kvenna, þ.e. sérstakra tímabundinna aðgerða sem 3. gr. laganna frá 1985 kveður á um.

Ég held, herra forseti, að það sé tími til þess kominn að Alþingi láti það koma fram með samþykktum og framkvæmdarvaldið síðan í verki að það sé hugur að baki þegar menn tala um augljósan mismun milli kynjanna. Til þess er löggjafarsamkoman að auðvelda það að leiðrétta þau mál. Hingað til hefur skort mjög mikið á að það komi í ljós að hugur fylgi þarna máli. Ég nefni í þessu sambandi framkvæmdaáætlun fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar, sem rædd var hér á síðasta þingi um þessi efni, sem var afskaplega veiklulegt plagg svo ekki sé meira sagt. Ég hef hins vegar tekið eftir því að hæstv. núv. félmrh. hefur hug á því að taka þar betur á en stefna var mótuð um hjá fyrrv. hæstv. ríkisstjórn, en þó finnst mér að hæstv. ráðherra mætti taka betur á í þessum efnum og fagna þeim stuðningi sem fram kemur hér á þinginu til þess að leiðrétta þessi mál.

Ég vil svo að endingu, herra forseti, rifja það upp að Alþb. ályktaði á síðasta landsfundi sínum sérstaklega um þessi efni í ályktun um jafnréttismál og ég leyfi mér að vitna til samþykktar sem þar var gerð svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþýðubandalagið telur nauðsynlegt skref til að ná jafnrétti að beitt verði sérstökum tímabundnum aðgerðum í þágu kvenna til þess að ná þessum markmiðum, m.a. með eftirfarandi aðgerðum: Laun í hefðbundnum kvennastörfum hækki meira en í öðrum starfsgreinum; ráðist verði gegn launamisrétti í formi yfirborgana og annarra fríðinda; konur njóti, uns fullu jafnrétti er náð, forgangs þegar þær sækja um hefðbundin karlastörf, enda sé um hæfa umsækjendur að ræða; markvissu átaki til að auðvelda konum hvers konar eftirmenntun.“

Þetta er kafli úr samþykkt síðasta landsfundar Alþb. í nóv. 1987 um jafnréttismál.

Auk þess er sjálfsagt að rifja það upp, herra forseti, af tilefni þessa tillöguflutnings að fyrrv. hæstv. félmrh., sá þriðji litið til baka, hv. þm. Svavar Gestsson undirbjó einmitt breytingar á lögunum um jafnrétti karla og kvenna með nefnd sem hann skipaði. Hann fylgdi því máli eftir, sem ekki var lokið í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, með frv. til l. um þessi efni sem lá hér fyrir hv. Alþingi jafnframt stjfrv. um þessi mái. Munurinn á þessum tveimur frv. var alveg sérstaklega sá að í frv. sem hv. þm. Svavar Gestsson flutti - reyndar með ýmsum öðrum ágætum þm., þar á meðal núv. hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur — var einmitt þetta ákvæði inni um þessar sérstöku tímabundnu aðgerðir. Og þessi tillöguflutningur hafði þau áhrif að ríkisstjórnin, eða réttara sagt þingið náði saman um þessi mál. Ég hygg að hæstv. núv. iðnrh. hafi lagt þar nokkuð til mála í sínum búðum, ég vil ekki segja herbúðum, í sínum búðum að málið fékk þá umfjöllun að samstaða varð að lokum um afgreiðslu þess.

Þannig vona ég að verði einnig um þá till. sem hér er mælt fyrir því að hún tengist þessu, þ.e. að athafnir fylgi orðum, að aðgerðir fylgi orðum sem Alþingi hefur samþykkt.