11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6186 í B-deild Alþingistíðinda. (4245)

362. mál, tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna

Flm. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka stuðning þeirra þm. sem hér hafa tekið til máls. Ég lít á orð hæstv. félmrh. sem stuðning þó að það hafi kannski ekki komið fram með beinum hætti. En það er ánægjulegt að unnið er að tillögum, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni, í ráðuneytunum þó að ekkert hafi komið fram um þær tillögur sem félmrn. og Jafnréttisráð eru að vinna að nema það sem birtist í blaðagrein í Morgunblaðinu laugardaginn 26. mars þar sem formaður Jafnréttisráðs, Ásdís J. Rafnar, segir frá þeim tillögum sem Jafnréttisráð hefur unnið að. En það er mjög gott ef fleira er á leiðinni.

Ég veit að t.d. í Noregi hefur verið gripið til ýmissa aðgerða og ég bendi á að mismunandi leiðir hafa verið farnar í hinum ýmsu löndum. Ég bendi á að í Bandaríkjunum er ýmislegt athyglisvert á ferðinni varðandi þessi mál og ég tel mikilvægt að kynna sér hvað reynt hefur verið og hvernig tekist hefur til og meta síðan til hvaða aðgerða við getum gripið. Við getum ekki verið að grípa til einhverra aðgerða sem öðrum hafa reynst illa. Við verðum að reyna að meta hvað okkur kemur best þó að það sé kannski aldrei hægt að heimfæra reynslu annarra beint upp á okkur.

Það sem 3. gr. gerir ráð fyrir er ein leið sem hægt er að fara. Það eru líka aðrar leiðir sem hægt er að fara í þessum málum. Þetta er alls ekki það eina sem hægt er að gera. Eins og hér hefur komið fram liggur fyrir þinginu tillaga um jafnréttisráðgjafa og fleiri tillögur sem hníga í sömu átt. Við þurfum nefnilega að leita allra leiða til að ná kvenfrelsi og Kvennalistinn er ein af þeim leiðum sem ég tel raunhæfa. Það mun sjást á afstöðu þingsins til þeirra mála sem ég hef hér nefnt og þessarar þáltill. hvort raunverulegur hugur fylgir máli um að leiðrétta þá mismunun sem við blasir á milli kynjanna.