11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6188 í B-deild Alþingistíðinda. (4249)

376. mál, lögbinding lágmarkslauna

Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort það er samkvæmt einhverjum hefðum eða venjum sem ég ekki þekki, en það vekur athygli mína að þessi tillaga er aftur og aftur kynnt sem till. til þál. um lögbindingu lágmarkslauna. Það er ekki rétt. Þetta er tillaga um samstarfshóp til að tryggja jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Við flytjum hins vegar frv. um lögbindingu lágmarkslauna. Ég vona að þetta sé misskilningur sem hægt er að leiðrétta í plöggum. (Forseti: Það er sjálfsagt að leiðrétta allan misskilning sem kann að vera, en þetta orðalag í dagskránni er sett fram af starfsmönnum Alþingis að venju og forseti hefur gengið út frá því að það væri rétt. En þetta verður athugað.)

Ég mæli hér fyrir till. til þál. um samstarfshóp til að tryggja jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Flm. ásamt mér eru aðrir hv. þm. Kvennalistans:

Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsrh. að skipa samstarfshóp til að finna leiðir til að tryggja jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Um þær leiðir verður að vera fullt samráð svo að lögbinding lágmarkslauna nái tilætluðum árangri og verði raunverulega til að bæta kjör þeirra lægst launuðu og draga úr launamun og launamisrétti.

Samstarfshópurinn skal skipaður fulltrúum allra þingflokka og helstu samtaka vinnumarkaðarins. Samstarfshópurinn skal skila niðurstöðum eigi síðar en 1. júní 1988.“

Í grg. segir, með leyfi forseta, að þáltill. þessi sé flutt til að fylgja eftir frv. um lögbindingu lágmarkslauna.

Það er tvennt sem aðallega hefur verið fundið lögbindingu lágmarkslauna til foráttu. Annars vegar að hún skerði frjálsan samningsrétt og hins vegar að ekki yrði hægt að stemma stigu við að sú hækkun, sem yrði í kjölfar lögbindingar lágmarkslauna, hlypi óheft upp launastigann með tilheyrandi afleiðingum, víxlverkandi hækkun launa og verðlags og óðaverðbólgu sem mundi koma harðast niður á þeim sem áttu að fá kjör sín bætt. Þar með hefði verið betur heima setið en af stað farið.

Um fyrra atriðið, skerðingu frjáls samningsréttar, er óþarft að fjölyrða hér. Einungis skal ítrekað að samningsréttur skerðist aðeins að því marki að ekki má semja um laun undir lögbundnum lágmarkslaunum. Við hið seinna, þ.e. að lögbinding lágmarkslauna verði verðbólguhvetjandi, er rétt að staldra.

Ítrekað höfum við kvennalistakonur bent á að árangur lögbindingar lágmarkslauna sé einmitt undir því kominn að slíkt gerist ekki. Þess vegna leggjum við áherslu á víðtækt samráð allra aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd lögbindingar lágmarkslauna. Allir virðast sammála um að launabilið sé of stórt og launamisrétti of mikið. Allir virðast sammála um nauðsyn þess að draga úr misskiptingu auðs og tekna. Það er almennt viðurkennt að þau grunnlaun, sem þeim lægst launuðu eru skömmtuð fyrir dagvinnu, dugi engan veginn til framfærslu og óhóflega langur vinnudagur sé því hlutskipti of margra. Nægir í þessu sambandi að vísa til stefnuyfirlýsingar og starfsáætlunar ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar en þar er ítrekað talað um nauðsyn þess að bæta kjör hinna tekjulægstu, stytta vinnutíma, taka tillit til þarfa fjölskyldunnar og um að gera þurfi átak til að koma á jafnrétti kvenna og karla með sérstakri áherslu á launajafnrétti. Svipuð orð hafa aðilar vinnumarkaðarins ítrekað látið falla um markmið og stefnu í launamálum.

Það er því eðlilegt að þegar þessi yfirlýstu markmið bæði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins nást ekki í samningum sé leitað ráða til að ná þeim með öðrum hætti. Jafnframt er það skylda fyrrnefndra aðila að gefa ekki upp á bátinn fyrri áform um leiðréttingu á misrétti og misskiptingu. Raunhæf leið til þess er veruleg hækkun grunnlauna fyrir 40 klst. dagvinnu og að tryggja jafnframt jákvæð áhrif með samræmdum aðgerðum og samkomulagi allra aðila.

Það er siðferðilegur réttur hvers vinnandi manns að geta framfleytt sjálfum sér af afrakstri fullrar dagvinnu.

Það er því siðferðileg skylda sem hvílir á Alþingi að sjá til þess að svo megi verða, með hverri þeirri aðferð sem dugir, lögbindingu lágmarkslauna ef ekki vill betur til.

Það virðist ekki of oft endurtekið sökum margvíslegra orða sem falla þegar lögbinding lágmarkslauna er til umræðu að með því að leggja fram frv. um slíka leið höfum við kvennalistakonur aldrei sagt að aðrar leiðir væru ekki til eða að þær mætti ekki fara. Við höfum jafnvel talað um að lögbinding lágmarkslauna sé neyðarlausn. Og finnist aðrar leiðir sem tryggi sama árangur munum við fagna því. Höfum enda oftsinnis beint því til allra sem léð hafa því eyra að það dygði ekki bara að setja sér markmið heldur yrði að vinna ötullega að því að ná þeim.

En við hlustum ekki lengur á svör sem fela í sér staðfestingu á ástandi: „Þetta hefur alltaf verið svona og verður svona um ókomna framtíð.“ Ef það er bjargföst trú þeirra sem peninga og völd hafa að tekjuskiptingin sé náttúrulögmál, hvað eru þeir þá að gefa yfirlýsingar eins og þær sem ég vitnaði hér til áðan? Því setja þeir sér fölsk markmið? Er það einungis gert til þess að slá ryki í augu fólks eða hver er tilgangurinn? Ef lausnirnar berast ekki fyrirhafnarlaust upp í fangið á manni þá leitar maður að þeim.

Okkar till. er að allir aðilar vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum þingflokka setjist niður, allir með sama markmið í huga, þ.e. að launþegar landsins geti allir haft bærilega framfærslu af launum sem þeir fá fyrir 40 stunda dagvinnu. Þetta eða svipað hafa allir, sem lagt er til að kallaðir verði til samstarfs, sagt að væri það sem bæri að keppa að: stytta vinnutíma, létta óbærilegu vinnuálagi af fólki — vegna þess sjálfs, vegna barna þeirra, vegna fjölskyldna þeirra — og ég vildi bæta við, vegna efnahagslífsins og atvinnuveganna. Óþreytt fólk vinnur betur en þreytt og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að kreista út úr fólki, hver og einn hefur takmarkað þrek og hagar sinni vinnu samkvæmt því.

En því miður lítur út fyrir að menn hafi sest upp í hringekju. Það er þeyst hring eftir hring með jöfnu millibili með nokkurn veginn sama árangri og sömu niðurstöðu. Tekjuskiptingin helst óbreytt. Eilíf endurtekning átaka á vinnumarkaði, yfirvofandi verkföll, sem.ýmist koma til framkvæmda eða ekki eftir atvikum, eru engum til framdráttar en skapa óvissuástand og valda tekjutapi, bæði hjá einstaklingum, atvinnurekendum og því opinbera. Eftir standa vonbrigði launþega sem ná ekki að rétta sinn hlut og fá eðlilegan skerf af þjóðarauðnum.

Við þetta er ekki lengur hægt að una. Gamlar hefðbundnar leiðir duga ekki, troðnar slóðir orðnar svo djúpar að ekki sést upp úr þeim. Og þar að auki eru traðirnar svo þröngar að þar geta menn ekki gengið hlið við hlið heldur verður að ganga í röð. Og ekki þarf að fjölyrða um hvernig raðað er niður, hverjir ganga fremst og hverjir aftast og hvaða störf teljist verðmeiri en önnur. Konur upp til hópa hafa t.d. þurft að sæta því of lengi að þeirra störf væru metin til lægri launa en karlmanna en það verður ljósara með hverjum degi sem líður að þær ætla ekki að una því mikið lengur, una því að eiga alltaf að bíða. Þær, ásamt auðvitað hluta vinnandi karlmanna, máttu bíða mögru árin, og það er nú sök sér, en þegar líka á að bíða þau góðu, jafnvel horfa á þau líða hjá og sitja enn óbættur hjá garði, þá keyrir fyrst um þverbak.

Við kvennalistakonur álítum að samstarf, samvinna og samábyrgð séu þau orð sem hafa á í huga þegar leitað er lausna til að rjúfa þennan Mesópótamíuvítahring, finna sameiginlegar leiðir til breyttrar tekjuskiptingar, sameiginlegar leiðir til að tryggja jákvæðan árangur og sameiginlegar leiðir til að koma í veg fyrir að hver og ein tilraun til að hækka laun þeirra tekjulægstu snúist upp í andhverfu sína og verði e.t.v. til að rýra kjör þeirra.

Ég vil ítreka að það hvort lögbinding lágmarkslauna sé eina nýja slóðin sem hægt er að feta skal ég ekki fullyrða og finnist aðrar að sama áfanga göngum við með. En það dregur ekki úr nauðsyn þess að skipa samstarfshóp eins og þann sem hér er lagt til. Hóp sem með augu og eyru galopin hlustar eftir vilja fólks og þiggur þess ráð en leggur ekki á ráðin fyrir luktum dyrum og mætir svo með lausnir, kannski lausnir sem enginn kærði sig um eða er ánægður með - og er hugsanlega ein af orsökum þess að illa gengur að leysa þann hnút sem þessi mál virðast komin í, þ.e. menn hlusta ekki hver á annan heldur takast á og af því leiðir einangrun. Einangrun sem er fylgifiskur þess að fólki er skipt upp í stríðandi öfl þar sem takmarkið er oft að sigra en ekki að ná samningum. Einangrun sem stafar af miðstýringu í stað valddreifingar, valdið þegið frá fólkinu en það fær svo valdboð til baka.

Ég held að enginn maður treysti sér til að halda því fram opinberlega að kjör margra hér á landi séu ekki undir velsæmismörkum. Menn kunna að reyna að koma sér hjá því að svara séu þeir spurðir, fara að tala um eitthvað annað eða lýsa því að það séu nú svo margar leiðir til þess að bæta launin, bónusar, yfirvinna o.s.frv. En væru þeir krafðir svara á þann hátt að ekki yrði undan vikist mundi held ég enginn treysta sér til að halda því fram að tekjuskiptingin hér á landi sé réttlát, treysta sér til að mótmæla því að aðstæður barna og kvenna og margra annarra séu með öllu óviðunandi.

En Íslendingar eru vel upplýst þjóð og vegna nálægðar og smæðar eru hér betri forsendur en víða annars staðar til þess að skapa skilning manna í millum, skilning á aðstæðum fólks og kjörum og vilja til að leita lausna. Því eru líkur á að hér gæti náðst samstaða um aðgerðir og samstaða um að fylgja þeim eftir. Það er a.m.k., álítum við, tilraunarinnar virði og það er markmið þessarar till.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að leggja til að till. verði vísað til hv. félmn.