11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6192 í B-deild Alþingistíðinda. (4251)

381. mál, sjónvarpssendingar um gervihnetti

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 720 um beinar sjónvarpssendingar um gervihnetti. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á menntmrh. að fella brott síðasta málslið 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 70/1986, um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum, þannig að kynning og endursögn þular þurfi ekki að fylgja efni sem dreift er viðstöðulaust um gervihnött og sýnir atburði sem gerast í sömu andrá.“

Í 6. gr. reglugerðar nr. 70 I1. febr. 1986, um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum, segir svo: „Útvarpsstóðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.

Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpi, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða neðanmálstexti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það skal þó ekki eiga við þegar í hlut eiga erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni er sýnir atburði sem gerast í sömu andrá. Í síðastgreindu tilviki skal að jafnaði fylgja kynning eða endursögn þular.

Allt íslenskt tal og texti í útvarpi skal vera á lýtalausu máli.“

Í tillögu þessari er lagt til að niður falli síðasti málsliður 2. mgr. sem hljóðar svo: „Í síðastgreindu tilviki skal að jafnaði fylgja kynning eða endursögn þular.“

Hér er aðeins farið fram á að það sé ekki skilyrði að endursögn þular eða kynning fari fram þegar um beinar útsendingar erlendis frá er að ræða. Engu að síður verði það enn í höndum útsendingar- eða móttökuaðila hvort hann kýs að vera með kynningu eða endursögn á meðan á útsendingu stendur og þá í hve miklum mæli.

Það kannast flestir við hversu mikils útsending getur misst þegar þulir - misgóðir — eru að tala ofan í beinar útsendingar. Nægir að minnast á Evrópusöngvakeppni sjónvarpsstöðva og ensku knattspyrnuna í þessu sambandi.

Einnig má minna á að fjöldi Íslendinga tekur við sjónvarpsefni með eigin móttökudiski beint í gegnum gervihnött þar sem allt efni er að sjálfsögðu ótextað og án endursagnar þular.

Herra forseti. Að lokinni umræðu óska ég að till. þessi verði send til hv. félmn.