12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6196 í B-deild Alþingistíðinda. (4257)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála sem er prentað á þskj. 558. Frv. hefur verið afgreitt frá Nd.

Þetta frv. er flutt til þess að afnema úrelt ákvæði um verslunarstaði og stuðla með því að nauðsynlegri hreinsun í lagasafninu. Það hlýtur að teljast gallað fyrirkomulag að viðhalda að formi til sem gildandi lögum ákvæðum sem enga þýðingu hafa lengur, ýmist sökum þess að þeim hefur fyrir löngu endanlega verið framfylgt samkvæmt orðanna hljóðan eða samfélagshættir hafa breyst á þann veg að ekki samrýmist lengur skoðunum og réttlætiskennd almennings að framfylgja þeim. Það er vissulega óæskilegt að gefa út í lagasafninu bæði úrelt lög og lög sem eru í fullu gildi og getur í mörgum tilfellum valdið réttaróvissu, en úr þeirri óvissu getur enginn dregið nema sjálft Alþingi.

Löggilding á verslunarstöðum og verslunarlóðum var á sínum tíma merkilegur þáttur í framfarasókn þjóðarinnar. Með henni var reynt að setja niður verslun og stofna til þéttbýlis á stöðum sem þóttu vel til þess henta frá náttúrunnar hendi og þar sem nægileg byggð var í nágrenninu til þess að verslunin gæti þrifist. En fyrir utan þessa löggiltu verslunarstaði var verslunin forboðin. Hugmyndin var sú að þar með væri skapaður grundvöllur fyrir tilveru verslunarstaðanna sem einnig mundu draga til sín ýmiss konar handverksmenn sem gætu veitt byggðinni margvíslega þjónustu. Þetta gekk nú reyndar eftir og hinir löggiltu verslunarstaðir urðu í mörgum tilfellum upphafið að blómlegum þéttbýlisstöðum og nýsköpun í atvinnulífi hér á landi. Þetta er nokkuð rakið í athugasemdum við þetta frv.

En nú háttar svo til í landinu að verslunin er alls ekki lengur bundin við löggilta verslunarstaði eina og verslunarlóðirnar, enda þótt enn séu í lagasafninu ákvæði sem t.d., svo að ég taki bara eitt dæmi, banna alla verslun austan við Rauðarárstíg hér í borg. Þetta eru lög í landinu og engin leið að túlka þau öðruvísi.

Um afmörkun lands fyrir verslunarþjónustu er nú fjallað í aðalskipulagi sveitarfélaga í samræmi við ákvæði skipulagslaga sem einnig hafa að geyma eignarnámsheimildir til þess að tryggja sveitarfélögum land undir byggðina.

Lögbinding verslunarlóða kaupstaða og löggilding verslunarstaða er, eins og ég sagði í upphafi, merkilegur þáttur í sögu þjóðarinnar, en upptalningin á þessum gömlu lagaákvæðum á ekkert erindi inn í lagasafnið og ætti nú fremur heima í sagnfræðiritum en í næsta lagasafni. Þess vegna flyt ég þessa tillögu um að nema þau úr gildi. Til samræmis við niðurfellingu á lögum um löggilta verslunarstaði er með frv. lagt til að numin verði úr gildi ákvæði verslunaratvinnulaga sem binda tiltekin réttaráhrif við hina löggiltu verslunarstaði.

Ég hef með fáum orðum lýst efni I., II. og Ill. kafla þessa frv. Í IV. kafla frv. er svo tillaga um að felld verði niður ákvæði um sérstakan fiskifulltrúa á Spáni og Ítalíu sem sett voru árið 1925 og reynir ekki mikið á í dag. Þá er þarna líka tillaga um að fella niður sérstakar heimildir vegna viðskiptasamninga við Breta sem veittar voru með lögum frá Alþingi árið 1933 og enn eru prentuð á lögbókina þótt ekki hafi þau raunveruleg áhrif.

Í frv. felst að niður féllu 118 lög og reyndar tíu lagagreinar að auki. Mundi þetta stytta næsta lagasafn verulega án þess að nokkur réttaróvissa skapist. Þvert á móti væri réttaróvissu eytt og prentsvertan spöruð.

Frv. hefur fengið ítarlega umfjöllun í allshn. Nd. og Nd. samþykkti það í þeirri gerð sem það var lagt fyrir þingið, enda hafði frv. á leið sinni til þingsins fengið umsögn Lagastofnunar Háskóla Íslands sem gerði við það nokkrar ábendingar sem tillit hafði verið tekið til. Það er von mín að þetta frv. nái að ganga fram á þessu þingi, en tilefni að samningu þess er það sem þegar hefur fram komið, þ.e. áformin um að gefa út að nýju lagasafnið á þessu ári. Í mörgum öðrum málaflokkum utan við viðskiptamálin er þörf á lagahreinsun. Er nú unnið að undirbúningi tillagna þess efnis í öðrum ráðuneytum þótt ekki séu líkur til að slíkar tillögur komi fram á þessu þingi aðrar en þessi um 118 lög og tíu lagagreinar eins og fyrr var nefnt sem samanlagt eru 177,2 dálksentimetrar eða ámóta og meðalmannshæð.

Hæstv. forseti. Ég geri að tillögu minni að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.