12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6198 í B-deild Alþingistíðinda. (4259)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv., að vorið 1985 kaus Alþingi sér til ráðuneytis sérstaka nefnd til þess að leggja á ráð um framkvæmd þáltill. sem samþykkt hafði verið árið 1984 eins og hv. þm. lýsti. Verkefni nefndarinnar var að vera þinginu til ráðuneytis um lagahreinsun og samræmingu laga. Árangur af þessu nefndarstarfi hefur enn ekki orðið svo mér sé kunnugt, en e.t.v. tekur nú nefndin við sér þegar, komin er fram ný tillaga um slíka lagahreinsun. Ég ætla að nefndin hafi ekki starfað mikið en hef ekki af því skýrslur, enda er þetta nefnd sem þingið hefur kosið sér til ráðuneytis.

Ég tel heppilegast, og lýsi þeirri skoðun minni í verki með því að leggja fram þetta frv., að hvert ráðuneyti kanni sjálft og standi fyrir tillöguflutningi um brottfall laga á sínu sviði, og leggi þær fyrir þingið. Þannig vinnst verkið best því að lagasafnið á ekki að vera einhvers konar safnþró fyrir lögin heldur á þingið að hugsa fyrir því að fella brott úrelt og úr sér gengin lög, ekki bara að bæta alltaf við nýjum. Auðvitað þarf löggjafinn að leggja sjálfstætt mat á hverja tillögu sem þannig kemur fram því að það er löggjafarstarf líka að nema lög úr gildi.

Ég vona að þetta frv., sem ég held að sé þörf nýjung í löggjafarstarfinu, verði upphaf að vorhreingerningu í lagasafninu á vegum allra ráðuneytanna. Vorhreingerning er vinsælt hugtak hjá kvennalistakonum svo ég vænti liðsinnis þeirra í þessu þarfa hreingerningarstarfi.

Ég veit af því að það er unnið að sams konar tillögum á vegum annarra ráðuneyta. Hefur verið gerð um það ríkisstjórnarsamþykkt að hver ráðherra ynni að því hjá sér að undirbúa slíkar tillögur, en það er að sjálfsögðu eðlilegast að þeir geri hver um sig grein fyrir því hvað þeir hafi hafst að á þessu sviði. Ég vona að þetta skýri nokkuð málið eins og ég lít á það og um nefndarstarfið sem um var spurt hef ég ekki annað að segja en fram kom hér áðan.