12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6199 í B-deild Alþingistíðinda. (4261)

100. mál, sjóðir og stofnanir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Lagafrv. sem hv. deild hefur hér fengið til meðferðar fjallar um svokallaða opinbera sjóði. Þetta frv. hefur þegar verið afgreitt frá Nd. Nd. gerði á frv. tvær breytingar frá því sem það var fyrst fram lagt. Í fyrsta lagi var hækkað lágmark stofnfjár opinberra sjóða úr 50 000 kr. í upphaflegri tillögu í 300 000 kr. Í öðru lagi var gerð lítils háttar málfarslagfæring á niðurlagi 1. mgr. 4. gr. Ég tek það skýrt fram að ég er algerlega samþykkur hækkun lágmarks stofnfjár sjóðanna úr 50 000 kr. í 300 000.

Þetta frv. er nýsmíði í löggjöfinni, en það hefur lengi þótt skorta samræmda löggjöf um þetta efni.

Það hefur tíðkast hér á landi eins og víða um lönd um langan aldur að staðfesta skipulagsskrár opinberra sjóða og stofnana og hefur vald þjóðhöfðingjans í þessu efni verið eins konar framlenging á valdi einvaldskónganna fyrr á öldum. Það hafa myndast í sögunnar rás verklagsreglur um það hvaða skilyrðum skipulagsskrár slíkra fyrirtækja þurfi að fullnægja til þess að öðlast staðfestingu, en þær reglur, reglurnar um gerð skipulagsskránna, styðjast ekki við lög. Alþingi setti árið 1964 lög um reikningslegt eftirlit með fjármunameðferð þeirra sem hafa umráð slíkra sjóða á hendi og er það góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Hins vegar hafa orðið miklar breytingar í þjóðlífinu og verðmæti í sjóðunum hefur raskast á ýmsan hátt þannig að margir þeirra þjóna nú engum tilgangi og ákvæði skipulagsskránna um ávöxtun fjárins standast ekki nokkurt mál.

Þessu hefur þó ekki verið hægt að breyta vegna þess að lagaheimildir skortir til að breyta starfsgrundvelli sjóðanna til samræmis við breyttar aðstæður. Þeir eru sjálfstæðar sjálfseignarstofnanir og lúta ekki lögum. Fé þeirra hefur í mörgum tilfellum rýrnað svo í hlutfalli við verðlag að þeir eru þess augljóslega vanmegnugir að valda verkefnum samkvæmt stofnskránum.

Reglurnar sem tillögur eru gerðar um í þessu frv. hafa þann tilgang að gefa færi á því að taka með raunsæjum og skipulegum hætti á þessu viðfangsefni þannig að unnt verði bæði við stofnun slíkra sjóða og á síðari stigum að gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að þeir þjóni sínum tilgangi.

Ríkisendurskoðunin hefur farið með reikningseftirlit fyrir þessa sjóði og eru starfsmenn hennar, þessarar þingstofnunar, þess mjög hvetjandi að í lög verði sett ákvæði um málefni sjóðanna. Þetta frv. er samið í samráði við Ríkisendurskoðun.

Það má segja að í þessu frv. séu ekki jafnítarlegar reglur um vörslu og starfsemi sjóðanna og víða tíðkast með öðrum þjóðum, en að nokkru leyti eru fyrirmyndir fengnar úr nágrannalöndunum við þessa tillögugerð. En ég bendi á að hér er um fyrstu lög sinnar tegundar að ræða og þau mætti taka til endurskoðunar eftir því sem reynsla fæst af framkvæmd þeirra.

Það er heldur ekki talið rétt að reyna að byggja upp umfangsmeira eftirlit með sjóðunum en hægt er að ráða við með óbreyttu starfsliði í viðkomandi stjórnsýslustofnunum. Þess má geta að víða um lönd hafa verið settar á stofn sérstakar stofnanir eða eftirlitsskrifstofur sem hafa það verkefni að fylgjast með svona sjóðum sem hafa fengið opinbera staðfestingu.

Þetta frv. leiðir líka hugann að því að hér skortir í raun og veru almenna löggjöf um starf sjálfseignarstofnana og félaga sem ekki eru til þess stofnuð að annast atvinnurekstur en hafa engu að síður með höndum oft og einatt umsvifamikinn rekstur og starfsemi. Næsta skref í lagasetningu á þessu sviði er að minni hyggju að semja lagafrv. um stofnanir og félög sem þannig starfa.

Ég vona að frv. fái skjóta meðferð í deildinni og verði afgreitt sem lög frá þessu þingi. Ég minni á að það var lagt fram á fyrra þingi án þess að hljóta afgreiðslu og reyndar víða aðkallandi að fá skýrar reglur um hvernig fara skuli með sjóðina sem hér er um að tefla. Ég legg því til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. allshn. og 2. umr.