12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6217 í B-deild Alþingistíðinda. (4265)

390. mál, Kennaraháskóli Íslands

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því að nú skuli loks komið fram frv. til laga um Kennaraháskóla Íslands. Þau lög sem í gildi eru og hafa gilt frá árinu 1971 eru farin að hefta starfsemi þessarar mikilvægu menntastofnunar okkar. Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið stórstígar breytingar á skólakerfinu samhliða þeim öru breytingum sem þjóðfélag okkar hefur tekið. Því hefði verið sérstök ástæða til að taka sérstaklega á málefnum stofnunar sem Kennaraháskóla Íslands. Kennarar eiga æ stærri þátt í uppeldi og menntun barnanna sem erfa munu landið og eiga að vera fær um að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra í stöðugt flóknara samfélagi. Það ber reyndar vott um hægagang í stjórnkerfi okkar og e.t.v. nokkurt tómlæti gagnvart menntun kennara og málefnum þeirra að lögin skyldu ekki endurskoðuð að tveimur árum liðnum eins og kveðið var á um og að frv. til nýrra laga sem lá fyrir Alþingi 1976 og aftur 1977 skyldi ekki hljóta afgreiðslu. En það er þó alvarlegast af öllu, í ljósi þeirra breytinga sem ég nefndi áðan og hafa gerst með ógnarhraða, að nú fyrst 10 árum síðar skuli þetta mál tekið upp aftur.

Ég tel margt jákvætt við það frv. sem við höfum hér til umfjöllunar, enda kom fram í máli hæstv. menntmrh., og reyndar í athugasemdum með frv. líka, að samráð hefur verið haft við marga skólamenn. Af þeim jákvæðu þáttum vil ég nefna sérstaklega að nú er bundinn endir á óvissu þá sem ríkt hefur um framtíð Kennaraháskólans og hann er staðfestur sem miðstöð kennaramenntunar í landinu sem gerir rannsóknir á sviði uppeldis- og kennslumála. Þá tel ég einnig vera til bóta að lengja nám kennara um eitt ár. Það stóra svið sem þeim er ætlað að spanna með því að annast kennslu barna á aldrinum 6–16 ára krefst mikillar þekkingar, þjálfunar og yfirsýnar sem trúlegt er að illa rúmist í aðeins þriggja ára námi. Það er mikilvægt við þær aðstæður sem við búum við að auk þeirra sérsviða sem kennaranemar velja sér verði þeir einnig vel í stakk búnir til að kenna á öðrum aldursstigum, ekki síst þeir sem kenna við fámennustu skólana úti á landsbyggðinni.

Við þessa 1. umr. um málið ætla ég mér ekki að fara út í einstakar greinar frv. Til þess gefst mér tækifæri í hv. menntmn. þessarar deildar þar sem ég á sæti. Þó vildi ég gera að sérstöku umræðuefni hér og nú V. og VI. kafla frv. sem fjalla um endurmenntun og framhaldsmenntun kennara.

Á sl. árum hafa verið miklar umræður um skólamál og er það vel. Tilefni umræðnanna hafa þó ekki alltaf verið jákvæð. Það sem hæst hefur borið eru kjaradeilur sem kennarar hafa átt í, svo og ýmsar skýrslur og athuganir sem gerðar hafa verið og leitt í ljós ýmsar miður góðar niðurstöður um stöðu menntamála í landinu. Ég tel að samhliða því að efla almenna menntun kennara í Kennaraháskóla Íslands sé endurmenntun og menntun kennara samhliða starfi eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að efla skólakerfið og bæta. Ég vil aðeins leggja áherslu á nauðsyn þess að kennurum verði í raun gert kleift að sækja sér þá menntun sem í boði verður.

Í skýrslu OECD-nefndarinnar um menntun kennara segir m.a., með leyfi forseta:

„Ef gert er ráð fyrir að engin meiri háttar þensla í skólakerfinu sé í sjónmáli, þá má búast við að þeir sem nú stunda kennslu muni mynda meiri hluta þeirrar stéttar í náinni framtíð. Eiga stjórnvöld ekki að leggja miklu meiri áherslu en nú er gert á endurmenntun kennara ef haft er í huga að þjóðfélagið er í stöðugri mótun og gerir síbreytilegar kröfur til menntunar? Með endurmenntun mætti bæta það sem úrskeiðis fer eða hefur farið í menntun kennara. Námskeiðin á sumrin eru oft of stutt og of stopul. En hefur menntmrn. hugleitt aðra möguleika til þess að koma á skipulegri endurmenntun, svo sem gagnsemi þess að stofna kennaramiðstöðvar?"

Ég vil taka undir þessi orð sérfræðinganna sem skýrsluna unnu og vona að með því að setja lög um endur- og framhaldsmenntun komi fleira til og þá ekki síst fjárveitingar til að standa undir þessum mikilvæga þætti starfsins.

Á ráðstefnu sem haldin var að frumkvæði menntmrn. í janúar sl., en þar var fjallað um niðurstöður OECD-nefndarinnar, var einnig töluvert fjallað um endurmenntun og framhaldsmenntun kennara. Í máli sínu á ráðstefnunni tók endurmenntunarstjóri Kennaraháskólans, Rósa Björk Þorbjarnardóttir, til nokkur atriði sem hún taldi mikilvægust til úrbóta varðandi endur- og framhaldsmenntun kennara. Taldi hún þar fyrst og fremst vanta nægt fjármagn til endurmenntunar, fleiri starfsmenn, aukin tengsl endurmenntunar, rannsókna á skólastarfi og grunnmenntunar kennara og tek ég heils hugar undir þær athugasemdir hennar.

Varðandi VI. kaflann vil ég einnig taka fram að ég tel mjög gott að bjóða upp á framhaldsmenntun og viðbótarmenntun fyrir kennara, en vildi leyfa mér að beina einni spurningu til hæstv. menntmrh. varðandi mat á viðbótarnáminu. Í 24. gr. segir, með leyfi forseta: „Nám þetta má meta sem hluta framhaldsmenntunar eftir B.Ed.-prófgráðu að fullnægðum vissum skilyrðum.“

Ég tel það mjög góðra gjalda vert að opna möguleika fyrir kennara, en mér er ekki alveg ljóst hvað átt er við með setningunni „að fullnægðum vissum skilyrðum“, hver þau skilyrði eru. Í grg. kemur heldur ekkert fram um það og vil ég því biðja hæstv. ráðherra um nánari útskýringu á þessu atriði.

En ég vil leggja áherslu á að frv. ber með sér yfirbragð þess að þar hafa fagmenn farið um höndum. Get ég verið mjög sátt við flest það sem þar stendur, en ég vil leggja áherslu á að samhliða því er auðvitað nauðsynlegt að gera áætlun um uppbyggingu Kennaraháskólans á næstu árum, áætlun sem hægt verður að standa við þannig að hann standi undir því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað.