12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6220 í B-deild Alþingistíðinda. (4268)

390. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem frv. hefur fengið í 1. umr. og stend fyrst og fremst upp til að svara einni spurningu sem til mín var beint, en hún lýtur að 24. gr. frv. Hv. 6. þm. Vesturl. spurði hvað átt væri við með orðunum „að fullnægðum vissum skilyrðum“ þar sem segir: „nám þetta má meta sem hluta framhaldsmenntunar B.Ed.-gráðu að fullnægðum vissum skilyrðum.“

Það er nú svo að þessi skilyrði eru ekki fullmótuð, enda reynir fyrst og fremst á það þegar reglugerð verður samin, en til frekari skýringar vil ég árétta að það er gerður greinarmunur í frv. á framhaldsmenntun og viðbótarmenntun. Framhaldsmenntun er sú menntun sem leiðir til ákveðinnar æðri prófgráðu en viðbótarmenntun er nám sem bætt er við almennt kennaranám eða sambærilega menntun án þess að það þurfi að leiða til æðri prófgráðu. En síðan er opnuð þarna heimild til þess að þetta viðbótarnám geti leitt til æðri prófgráðu, þ.e. menn geti tekið viðbótarnám sem hluta framhaldsmenntunar eftir að B.Ed.-gráðu lýkur. Þau skilyrði sem þarna þarf að setja eru t.d. innan hvaða tímamarka menn geta skipt þessu námi, hvað þetta má taka langan tíma, hvernig slík hlutaskipting námsins á að verða. Það eru slík atriði sem ég tel að þurfi að kveða nánar á um í reglugerð því að ég held að það sé ljóst að um þetta þarf að setja ákveðnar kröfur og ákveðnar reglur, t.d. skiptingu í áfanga og annað þess háttar þegar viðbótarnámið er metið sem hluti af æðri prófgráðum.