12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6220 í B-deild Alþingistíðinda. (4270)

391. mál, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sem er á þskj. 737. Frv. þetta fylgir frv. því um Kennaraháskóla Íslands sem hér var til umræðu áðan. Þess er ekki getið í grg., en rétt er að taka fram að það var sama nefndin sem samdi þetta frv. og frv. um Kennaraháskóla Íslands.

Frv. þetta er byggt á þeim grunni að það beri brýna nauðsyn til að efla rannsóknir á sviði uppeldis- og skólastarfs hér á landi. Vönduð rannsóknarvinna og fræðistörf á þessu sviði eru forsenda flestra umbóta í almennu skólastarfi og bættri starfsmenntun kennara. Rannsóknum á íslensku menntakerfi má skipta í þrjá meginhluta eftir því hvaða tilgangi þær þjóna.

Í fyrsta lagi eru rannsóknir nauðsynlegar til að tryggja að tekið sé mið af íslenskri menningu og þjóðfélagsaðstæðum á hverjum tíma. Mikilvægt er að draga fram sérkenni íslenskrar menningar og íslensks þjóðfélags og tengja þau skólastarfi á kerfisbundinn hátt. Eins er nauðsynlegt að byggja á þeirri reynslu sem kennarar og skólamenn hafa aflað sér í starfi við íslenskar aðstæður. Þá er varhugavert að flytja inn erlendar skólastefnur meira og minna hráar án þess að rannsakað sé hversu vel þær henta hér á landi. Öflugar rannsóknir á sviði uppeldis- og skólamála eru því afar mikilvæg forsenda fyrir ábyrgri skólastefnu og gildur þáttur menningarlegs sjálfstæðis.

Í öðru lagi eru rannsóknir nauðsynlegar til þess að hægt sé að meta árangur af skólastarfi. Það á ekki síst við mat á nýjungum og ýmiss konar þróunarstarfi.

Í þriðja lagi má nefna að mikilvægt er fyrir daglegan rekstur og stjórnun að halda til haga, vinna úr og setja fram upplýsingar um skólastarf á skipulegan og kerfisbundinn hátt. Slík rannsóknarvinna er einnig nauðsynleg forsenda fyrir farsælli stefnumótun í skólamálum.

Rannsóknir á íslensku skólakerfi hafa verið af skornum skammti. Einstakir fræðimenn, einkum við Kennaraháskólann og Háskóla Íslands, og enn fremur einstakir starfsmenn menntmrn. hafa unnið að afmörkuðum rannsóknum. Mikilvægt er að samræma þessa rannsóknarstarfsemi, skapa samstarfsvettvang fyrir virka umræðu. Þá er og mikilvægt að koma á fót miðstöð sem veitir bæði ráðgjöf og aðstöðu fyrir rannsóknir á sviði uppeldis- og skólamála jafnframt því sem slík miðstöð sæi um að þjálfa rannsóknarfólk og halda námskeið um nýjungar í rannsóknaraðferðum, meðferð og úrvinnslu gagna. Þróunin hefur einmitt verið í þá átt í nágrannalöndum okkar að efla miðlægar rannsóknarstofnanir á sviði uppeldismála og sameina þannig krafta rannsóknarmanna sem fást við slík verkefni.

Íslensk kennarasamtök og áhugamenn um skóla- og uppeldismál hafa um áratuga skeið lagt mikla áherslu á rannsóknir í þágu íslenskra barna. Barátta þessara aðila fyrir viðurkenningu löggjafans á rannsóknarþörf á sviði íslenskra skólamála bar nokkurn árangur er Rannsóknastofnun uppeldismála var komið á með ákvæðum í lögum nr. 38 1971, um Kennaraháskóla Íslands. Stofnunin tók þó ekki formlega til starfa fyrr en á árinu 1983 er stjórn var skipuð og ráðinn forstöðumaður. Á undanförnum árum hefur stofnuninni smám saman vaxið ásmegin þótt verulega skorti á um fé og mannafla til að unnt sé að sinna því veigamikla hlutverki sem henni er ætlað. Ljóst virðist að Rannsóknastofnun uppeldismála þarf að hafa á að skipa tveimur starfsmönnum hið minnsta auk forstjóra og ritara í hálfu starfi. Æskilegt væri að annar þeirra hefði sérþekkingu á sviði tölfræði og aðferðafræði en hinn á sviði skóla- og uppeldismála.

Skv. ákvæðum gildandi laga er Rannsóknastofnun uppeldismála samstarfsvettvangur þriggja aðila, Kennaraháskólans, Háskóla Íslands og menntmrn. Stofnunin hefur sjálfstæðan fjárhag og eigin stjórnarnefnd. Skv. ákvæðum þessa frv. er Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála gerð að sjálfstæðri stofnun. Sú skipan er eðlilegri en að tengja hana lögum einnar af þeim stofnunum sem að henni standa. Þess vegna er þetta frv. sett fram til þess að reyna að styrkja Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sem sjálfstæða stofnun á sínu sviði.

Ég tel að öðru leyti ekki ástæðu til að rekja efni lagafrv. Einstakar greinar skýra sig nokkuð sjálfar. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.