12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6223 í B-deild Alþingistíðinda. (4273)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Frv. þetta er samið af nefnd sem skipuð var fulltrúum frá félmrn., fjmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Aðalmarkmið frv. er að flytja ákvörðun um innheimtuhlutfall útsvara til sveitarfélaganna sjálfra, en samkvæmt núgildandi lagaákvæðum er innheimtuhlutfall útsvars í staðgreiðslu ákveðið í reglugerð sem félmrh. setur. Til að ná þessu markmiði þarf að breyta 26. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Einnig þarf að gera nokkrar breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og er frv. um það efni flutt samhliða þessu frv. Þær breytingar sem felast í 1. gr. frv. eru einkum eftirfarandi:

1. Afskiptum félmrh. af ákvörðun innheimtuprósentu útsvara er hætt.

2. Álagningarhlutfall útsvars á tekjur manna á komandi ári er ákveðið fyrir 1. des. árið á undan, en áður var þetta hlutfall ekki ákveðið fyrr en við gerð fjárhagsáætlunar.

3. Gert er ráð fyrir að skil á staðgreiðslufé til sveitarfélaga verði sami hundraðshluti og álagningarhlutfallið, en áður var ekki reiknað með að þessi hlutföll væru endilega þau sömu.

4. Lagt er til að ekki þurfi samþykki félmrh. fyrir sérstakri hækkun útsvara eins og lögin gera nú ráð fyrir.

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist strax gildi, en í ákvæði til bráðabirgða eru tekin af öll tvímæli um að við álagningu og innheimtu útsvara á tekjur manna til ársloka 1988 skuli gilda ákvæði núgildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Samkvæmt núgildandi tekjustofnalögum og staðgreiðslulögum er innheimtuprósenta útsvara sú sama í öllum sveitarfélögum og skil til sveitarfélaga úr staðgreiðslukerfinu alls staðar sama hlutfall. Komið hefur fram mikil óánægja sveitarfélaganna með þetta fyrirkomulag. Þau benda á mismunandi tekjuþörf sveitarfélaganna. Þótt endanlegt álagningarhlutfall útsvara sé nú í höndum sveitarfélaganna innan þeirra marka sem tekjustofnalögin setja benda sveitarfélögin réttilega á að miklar líkur eru á að innheimtuhlutfallið, sem félmrh. ákveður, verði í raun í flestum tilvikum endanlegt álagningarhlutfall vegna þess að sveitarfélögin muni ekki treysta sér til að koma með viðbótarálagningu útsvars eftir á þó að þau hafi fyrir það fulla þörf.

Með frv. þessu er lögð til sú veigamikla breyting að hver sveitarstjórn ákveður fyrir fram hvaða álagningarhlutfall útsvara hún ætlar að nota og skil til sveitarfélagsins úr staðgreiðslukerfinu verði við það miðuð.

Mikil áhersla er lögð á að viðhalda einföldun staðgreiðslukerfisins með því að hafa eitt innheimtuhlutfall í staðgreiðslunni yfir allt landið.

Í frv. til l. um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hæstv. fjmrh. mun væntanlega mæla hér fyrir á eftir, kemur nánar fram hvernig lagt er til að samræma þessi tvö sjónarmið, þ.e. að hafa eitt innheimtuhlutfall í staðgreiðslu fyrir allt landið og að sveitarfélögin fái það í sinn hlut sem sveitarstjórnin sjálf ákveður.

Í stuttu máli sagt er lagt til að þetta verði leyst með vissri jöfnun innan staðgreiðslukerfisins þannig að þegar fjmrh. ákveður innheimtuhlutfall útsvara í staðgreiðslu verði miðað við vegið meðaltal af ákvörðunum allra sveitarstjórnanna og þá miðað við útsvarsálagningu fyrra árs, en skilin til sveitarstjórnanna verða strax í samræmi við ákvörðun sveitarfélaganna um álagningu útsvara.

Ég tel rétt að það komi hér fram að nú er verið að undirbúa heildarendurskoðun laganna um tekjustofna sveitarfélaga og er stefnt að því að frv. um það efni verður lagt fram á þingi næsta haust. Ekki þótti þó rétt að bíða með þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv., enda er nauðsynlegt að afgreiða þær núna fyrir þinglokin ef þær eiga að geta komið til framkvæmda næsta haust þegar ákveða þarf innheimtuhlutfall útsvara á næsta ári. Ýmsar ástæður eru fyrir því að nú er talið eðlilegt að endurskoða tekjustofnalögin í heild, en sú endurskoðun er nú að fara í gang. Stefnt er að því að virðisaukaskattur leysi söluskattinn af hólmi þannig að finna þarf nýja viðmiðun í sambandi við tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Jafnframt tel ég nauðsynlegt að verja auknum hluta af tekjum sjóðsins til jöfnunar á milli sveitarfélaganna.

Vegna staðgreiðslukerfisins er nauðsynlegt að yfirfara innheimtuákvæði tekjustofnalaganna og samræma þau staðgreiðslukerfinu. Inn í þá mynd koma m.a. gjaldheimturnar sem stefnt er að því að koma upp. Einnig liggja fyrir ýmsar fyrri hugmyndir Sambands ísl. sveitarfélaga um breytingar á tekjustofnalögunum sem koma munu til skoðunar og snerta m.a. álagningu fasteignaskatta og aðstöðugjalda.

Mér þótti rétt að greina í stuttu máli frá fyrirhugaðri endurskoðun tekjustofnalaganna. Varðandi það frv. sem ég mæli hér fyrir vil ég undirstrika að þær breytingar sem þar eru lagðar til hafa veruleg áhrif fyrir sveitarfélögin. Útsvörin eru gildasti tekjustofn sveitarfélaganna. Á árinu 1987 voru tekjur sveitarfélaganna af útsvörum, aðstöðugjöldum og fasteignaskatti samtals rúmir 11 milljarðar. Þar af voru tekjur af útsvörum rúmir 7 milljarðar kr., en það eru tæp 65% af þessum tekjum. Af þessu má glöggt sjá hversu þýðingarmikið það er fyrir sveitarfélögin að fá í sínar hendur það ákvörðunarvald sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Rétt er að það komi fram að fyrir liggur eindreginn stuðningur Sambands ísl. sveitarfélaga við það frv. sem hér er mælt fyrir. Vil ég í lokin, með leyfi forseta, vitna í bréf Sambands ísl. sveitarfélaga þar að lútandi, sem sent var þingflokkunum 15. mars sl., en þar segir, með leyfi forseta:

„Óskað er stuðnings þingflokks yðar við frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og frv. til laga um breytingar á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Breytingarnar eru á 26. gr. tekjustofnalaga og 9. og 32. gr. staðgreiðslulaga. Þessar breytingar eru að ósk sveitarstjórna sem hafa lagt á það áherslu að hafa sjálfræði um ákvörðun innheimtuhlutfalls útsvara. Tekist hefur með þessum breytingum að koma til móts við óskir sveitarstjórnarmanna og jafnframt halda í einföldun staðgreiðsluinnheimtu.“

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.