12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6226 í B-deild Alþingistíðinda. (4275)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en komið í ræðustól eftir ræðu hv. 4. þm. Vesturl. sem kom mér satt að segja á óvart vegna þess að ég veit ekki betur en að hann sé a.m.k. fyrrverandi sveitarstjórnarmaður. Ekki það? (SkA: Jú.) Jú, það var nefnilega það og kannski núverandi. Mér sýnist þetta frv. einmitt vera að uppfylla kröfur og óskir sveitarstjórnarmanna um land allt, þ.e. að færa valdið frá skrifborðsráðunum í Reykjavík, í höfuðborginni, og út á landsbyggðina, heim í héruð. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að þessi afstaða skuli koma fram hjá hv. 4. þm. Vesturl.

Hann minntist á að þeir sem hefðu haft afskipti af þessu frv. hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga væru talsmenn þéttbýlisins, en ég sé ekki betur en að þar hafi einmitt verið einn fulltrúi sem ætti a.m.k. að hafa góða þekkingu á málefnum dreifbýlisins sem fyrrverandi sveitarstjóri utan af landi, ef ég man rétt, Húnbogi Þorsteinsson. Ég man ekki betur en að hann hafi verið sveitarstjóri í Borgarnesi á sínum tíma. (Gripið fram í.) Já. Ég get ekki séð annað en að sjónarmið beggja aðila hljóti að hafa komið fram við samningu frv. og ég fagna því að loksins skuli eitt ofurlítið skref verða tekið í þá átt að færa þetta vald heim í hérað undan valdi ráðherra héðan úr höfuðborginni.