12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6231 í B-deild Alþingistíðinda. (4281)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þurfti af persónulegum ástæðum að bregða mér frá í dag og tók eftir því þegar ég kom hér í salinn að hv. þm. Karvel Pálmason hafði saknað vinar í stað (KP: Að sjálfsögðu.) og gerði allt sem hann gat til þess að knýja mig hér upp í stólinn, lét öllum illum látum áðan út af þessu stóra máli sem hér er á dagskrá. Til að kynna sér afstöðu Alþb. í þessu máli og jafnréttismálum landsbyggðarinnar vek ég athygli hans á þremur nýjum þingmálum sem dreift hefur verið hér í dag um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, jöfnun símakostnaðar, um aðstöðugjald, um fasteignagjöld og um jöfnun á útgjöldum sveitarfélaganna yfirleitt. Að því er varðar afstöðu flokksins þegar að þessu máli kemur sem hér er á dagskrá bendi ég honum á að kynna sér rækilega það nál. sem kemur frá hv. félmn., en þar á ég sæti og mun þá gera uppskátt um hinn óttalega leyndardóm sem hv. þm. innti eftir áðan.