12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6231 í B-deild Alþingistíðinda. (4282)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það að ég varð svolítið hissa þegar ég hlustaði á ræðu hv. 4. þm. Vesturl. sem því miður er ekki hér í salnum nú. Hans málflutningur kom mér satt að segja mjög á óvart. Mér fannst ég skilja hann rétt að hann hafði hvað þyngstar áhyggjur af því, hvað þetta mál varðaði, að útsvar hér í Reykjavíkurborg yrði hugsanlega eitthvað lægra en það er í dag. Hann sagði þetta beint og ég á bágt með að trúa því að hann hafi verið að túlka þarna skoðanir Alþb. nú. (Gripið fram í: Við verðum að bíða.) Við verðum að bíða og sjá nál. og ég er viss um að hv. þm. Reykv. er á annarri skoðun í þessu máli eða ég þykist þekkja hann það að hann muni hafa aðra skoðun á þessu máli en að hafa áhyggjur af því að útsvarið fyrir þegnana hér í Reykjavík verði hugsanlega of lágt.

Hins vegar verð ég að segja það að ég treysti sveitarstjórnarmönnum fullkomlega til þess að fara með þessi mál og ég treysti sveitarstjórnarmönnum meira að segja miklu betur til þess að fara með þetta mál heldur en ráðherra, ekki bara þessum ráðherra heldur yfirleitt ráðherrum. Þetta vald á að vera í höndum sveitarstjórnarmanna. (SvG: Hvað með ráðherra Framsfl.?) Hann er ekkert undanþeginn í því. (Gripið fram í.) Nei. Ég treysti sveitarstjórnarmönnum til þess að fara með þessi mál. Þeir eru til þess kjörnir og þeir eiga að fara með þessi mál.

Um mismun á milli Reykjavíkur og landsbyggðar,

það er svo aftur annað mál og ég held að við leysum það ekki með þessu máli. Við skulum heldur taka á því á annan hátt og leysa það þannig. En ég stend hér upp fyrst og fremst til þess að skýra frá því að ég er því fyllilega sammála að þetta vald sé hjá sveitarstjórnarmönnum. Þar á það að vera.