12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6233 í B-deild Alþingistíðinda. (4285)

403. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem er á dagskrá er fylgimál hins fyrra og er í sjálfu sér ekki margt um það að segja. Það kann að orka tvímælis að vísa þessu til félmn. en ég geri enga athugasemd við það út af fyrir sig. Ég hefði þó talið að það hefði verið full ástæða til þess að skoða aðeins í hv. fjh.- og viðskn., eða þeirri nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar, framkvæmd staðgreiðslunnar yfirleitt, og sérstaklega að kannað verði að hve miklu leyti það hefur gerst að teknir hafi verið staðgreiðsluskattar af greiðslum til fólks sem er með mjög lágar tekjur eða jafnvel engar aðrar en þær sem það er að fá frá ríkinu og fær síðan ekki leiðréttingu sinna mála fyrr en á síðari hluta ársins 1989.

Dæmi: Fyrir nokkru rausnaðist Alþingi til þess að veita nokkrum einstaklingum listamannalaun. Í þeim hópi er einstaklingur og einstaklingar sem eru með mjög lágar tekjur og hafa ekki greitt skatta á undanförnum árum af þeim ástæðum, hafa í rauninni ekki haft neitt annað í þessu tilviki en listamannalaun fyrir sig að leggja, örlítil ritlaun. Þegar listamannalaunin eru greidd þessum einstaklingi, þessum rithöfundi, núna eftir áramótin eru tekin af þeim, þessari rausn, 35% samkvæmt lögum. Það er hins vegar alveg ljóst að þessi einstaklingur hefur aldrei borgað skatta af sínum listamannalaunum en fær þetta ekki leiðrétt fyrr en á síðari hluta ársins 1989. Þetta er of langt gengið í að framkvæma bókstafinn, herra forseti.

Annað dæmi: Fyrir nokkrum árum setti heilbr.og trmrn. reglugerð þess efnis að öryrkjar, sem hafa fengið bifreið til afnota með sérstökum kjörum, fái svokallaðan bensínstyrk sem greiddur er eftir ákveðnum reglum með hliðsjón af bensínverði eins og það er á hverjum tíma. Þegar þessi styrkur kemur til útborgunar núna, eftir áramótin, eins og áður hefur verið eru dregin af honum 35%. Öryrkinn fær ekki leiðréttingu sinna mála fyrr en síðari hluta ársins 1989. Þetta er, herra forseti, of langt gengið í að elta uppi lagabókstafinn.

Við eigum ekki að gera okkur leik að því að gera staðgreiðslukerfið óvinsælt með bókstafsþrælkun af þessu tagi og þess vegna vil ég sem nefndarmaður í félmn. eða fjh.- og viðskn., hvorri sem fær málið til meðferðar, áskilja mér rétt til þess að óska eftir upplýsingum um slíkar greiðslur og að tryggt verði að fólk sitji a.m.k. ekki við lakari hlut en það hefði gert að óbreyttu. Það er nú hógvær krafa á þessum tímum, hvort sem um er að ræða listamann sem hefur lítil laun önnur eða t.d. fatlaðan í því tilviki sem ég nefndi síðar. Ég gæti reyndar, herra forseti, nefnt mörg fleiri dæmi af þessu tagi og þau eru slæm.

Varðandi svo það atriði sem hæstv. fjmrh. skaut hér inn á milli setninga hjá sér svo lítið bar á, að Reykjavík fái ekki neitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og þannig verði aðstöðumunur sveitarfélaganna í landinu jafnaður, vil ég benda á að ríkisstjórnin skerðir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á þessu ári um 47% samkvæmt útreikningum sem liggja fyrir í fylgiskjali með frv. sem Alþb. hefur lagt fyrir þingið í dag. Þessi skerðing upp á 900–1000 millj. kr. gæti nægt til að jafna þær tekjur sem sveitarfélögin úti á landi hafa á íbúa, jafna upp það bil sem er þar á móti því sem er hér á þéttbýlissvæðinu. Þetta held ég að væri mikið nær að taka til athugunar en að kasta fram sprengjum af því tagi sem hæstv. fjmrh. gerði áðan.