12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6241 í B-deild Alþingistíðinda. (4291)

293. mál, áfengislög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð rétt að segja það, herra forseti, að ef ég væri í sæti hans, sem ég að vísu einu sinni var, þá mundi ég gerast allórólegur vegna þess hvernig á er að líta um framgang þingmála og starfshætti í hv. deild þegar við komum hér saman á nýjan leik eftir páskahlé. Hér er ekki meira að gera en svo, virðist vera, að enginn ráðherra má vera að því að mæta og þeim þóknast svo að láta menn standa hér þegjandi tímum saman til að bíða eftir sér meðan verið er að sinna öðrum störfum mikilvægari. Hvernig ætlar nú herra forsetinn að þetta muni lenda á þeim lokaspretti sem ég hef talið mér trú um að væri nú tekinn vegna þingstarfa?

Þess er enn að geta að 1. flm. þess máls sem hér er til umræðu kom að máli við mig og kvaðst ætla sér að taka til máls um þá tillögu sem ég flyt hér ásamt þremur öðrum þingmönnum, en hann kvaðst þurfa að bregða sér af bæ þannig að hans væri ekki að vænta að sinni. Það er þá alveg útilokað annað en ég hljóti að fara fram á að málinu sé frestað þar til hann megi nema mál mitt þar sem hann á og hlýtur að verða að fá að heyra röksemdir mínar áður en hann dæmir tillögu sem greinargerðarlaust er flutt hér eins og aðrar brtt. eru fluttar. Ég ætla þó að taka það fram að ef þetta verður talin einhver tilraun til þess að tefja þetta mál af minni hálfu kæri ég mig ekki um neinn frest á því. Ég er búinn að fá nóg af þessu tali flm., ölveranna og ölkyrjanna í þingi, um það að hér sé einhver með ... (Forseti: Ég vil verða við tilmælum hv. ræðumanns og tel sjálfsagt að verða við því.) Má ég aðeins, herra forseti, áður en þessu verður frestað, mæla örfá orð í framhaldi af því sem hv. 2. þm. Vestf. mælti áðan. (Forseti: Ég verð við því.) Af því sem ég er ekkert viss um að hæstv. heilbrmrh. verði mættur hér framvegis í deildinni ætla ég að grípa tækifærið. En ég hef enga nennu til þess að eiga orðastað við hann. Hann er ekki öfundsverður af því hlutskipti sem hann hefur valið sér í þessu dapurlega máli. En ég þarf ekkert heldur á því að halda að mæla neitt til hans vegna þess að óðar en líður munu aðrir taka það að sér. Óðar en líður mun umræðan um þetta mál hefjast fyrir alvöru. Þetta er aðeins smánasasjón sem menn fá hér og nú við flutning þessa máls og samþykki ef svo ber til. Þegar menn líta á afleiðingarnar af því, þá fyrst er að taka á honum stóra sínum. Þá fyrst verður hann festur upp í orðavali sem hæfir, hæstv. heilbrmrh. Guðmundur Bjarnason, þegar afleiðingarnar blasa við sem hvarvetna hafa fært okkur heim sanninn um á öðrum lendum hverjar verða. Svo er það.

Því er það að ég ætla ekki að orðfæra neitt hér um þá makalausu greinargerð sem hæstv. heilbrmrh. flutti hér við afgreiðslu málsins. En eitt hlýtur þó að vaka fyrir hæstv. ráðherra. Ekkert slíkt getur hann gert nema sannfæring hans fylgi um leið að hann sé að bæta heilsuástand í landinu. Það er alveg útilokað að sá maður sem falin er hæsta yfirstjórn heilsugæslu í landinu geri nokkurn þann hlut hér á hinu háa Alþingi sem sannfæring hans stendur ekki til að muni bæta ástandið hjá þjóðinni, heilsufar þjóðarinnar, í hvaða efni sem er. Þess vegna á ég helst von á því að eftir að ég hef flutt till. um það að hækka sem mest verð á bjór til að draga úr neyslu hans og sölu komi till. frá hæstv. heilbrmrh. um að gefa ölið til þess að allir geti gengið nógu rösklega í að ná heilsu sinni og til þess líka að menn hverfi frá brennivíninu, sem þetta á að vera aðalráðið að bægja mönnum frá, að hafa öl til sölu svo menn hætti að drekka sterku drykkina, enda þótt allar sannanir af öðrum löndum færi okkur heim sanninn um að þessu er þveröfugt varið, að þetta er aðeins hrein viðbót við áfengisneysluna. Ég á helst von á því.

En, herra forseti. Ég þigg boð forsetans, þó með því skilyrði, sem ég hef þó ekki efni á að setja herra forsetanum að sjálfsögðu, að það yrði aldrei fyrr eða síðar talið eitthvert málþóf eða töf þó að svo beri til að ég telji 1. flm. frv. nauðsyn til bera að heyra mínar röksemdir fyrir mínum málflutningi og tillögugerð sem hann sjálfur hefur tjáð mér að hann vilji taka til máls um þegar hann verður mættur í deildinni, því að ég trúi að hann hafi fengið leyfi herra forsetans til að hverfa af vettvangi, og fresta ég nú ræðu minni um hríð.