12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6243 í B-deild Alþingistíðinda. (4294)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Í þessu sambandi vil ég taka fram að það er algengt að þingmenn komi til forseta og biðji um að fá að skjótast, ef brýnar ástæður eru, aðeins af vettvangi. Þetta er algengt og hv. 1. flm. þessa máls bað ekki um formlegt fjarvistarleyfi heldur er hann væntanlegur hingað aftur. En af óviðráðanlegum orsökum þurfti hann að bregða sér aðeins af vettvangi, af ástæðum sem ég hef tekið gildar. Hann er væntanlegur hingað til fundar og það þótti ekki ástæða til að biðja um fjarvistarleyfi fyrir fundarhöld í dag því að hann kemur innan tíðar. Þess vegna verð ég við tilmælum að fresta umræðum þannig að hann geti hlýtt á málflutning hv. 4. þm. Austurl. um þá brtt. sem hann hefur flutt. Ég vona að þessar skýringar nægi.