12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6246 í B-deild Alþingistíðinda. (4299)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. 5. þm. Reykv. af því að viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun séu alvarlegar meinsemdir í íslensku efnahagslífi. Það er svo sannarlega rétt. En ég leyfi mér að mótmæla því að sú tillaga sem hér er flutt sé stórhættuleg fjárhag þjóðarinnar eins og mig minnir að hann kæmist að orði. Hún er það ekki.

Tillagan sem ég flyt er til vitnis um það að Íslendingar vilja vera nýtir þegnar í samfélagi þjóðanna, leggja lið þeim þjóðum sem nú berjast við skuldabyrði langt, langt umfram það sem við eigum við að glíma, við lífskjör sem eru við mörk lífs og dauða. Þetta er bakgrunnur þessarar tillögu. Og þótt við vildum geta miðlað af meiri auði, þótt við vildum geta miðlað af sterkari greiðslustöðu en við gerum nú, hljótum við samt að taka þessar skyldur á okkur.

Ég bendi á að viðbótarríkisútgjöld eða lánsfjárútvegun vegna þessa máls er, eins og ég rakti, í reiðufé einungis 11 millj. íslenskra kr. á þessu ári, 22 millj. á því næsta, 14 millj. á hverju ári árin 1990–1993. Þetta er það sem við þurfum að reiða fram. En við þurfum líka eins og aðrar iðnaðarþjóðir, auðugar þjóðir, að setja okkar þjóðarábyrgð á bak við starfsemi bankans í miklu hærri fjárhæðum. Til þess að gera það þurfum við ekki nein lán. Auðvitað er miklu betra, og það er eðlilegt sjónarmið, að þau lönd sem hafa í senn háar tekjur og sterka greiðslustöðu taki að öðru jöfnu meiri þátt í þeirri jöfnun lífskjara í veröldinni sem felst í starfsemi Alþjóðabankans. Ég held að það sé ekki réttur skilningur, og reyndar er hann alrangur, að við séum af þessu að leggja fram fé til þess eins að halda okkar hlutfalli í félagsskapnum til að tryggja okkar eigin lántökumöguleika. Það á ekki við í Alþjóðabankanum. Við þurfum ekki þar að halda þessu hlutfalli þótt ég telji það reyndar vera heiðursmál. Ég átti nú frekar von á því að hv. 5. þm. Reykv. vildi taka þátt í að verja heiður þjóðarinnar hvað þetta varðar.

Og um arð af þessu fé er rétt að spyrja. Arðurinn er í því fólginn að féð sé látið seytla um engin hjá fátækum þjóðum, oft í orðsins fyllstu merkingu, því eitt það allra besta sem Alþjóðabankinn gerir er að stuðla að áveitum til að auka gróðurmagn jarðarinnar í hinum fátæku og oft þurrlendu ríkjum þriðja heimsins. Þetta er viðfangsefnið og þetta er það sem við erum hér að ræða og ég skora á hv. þingdeild að styðja þetta mál.