12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6247 í B-deild Alþingistíðinda. (4300)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég átti ekki von á því að rökin fyrir þessu frv. hæstv. viðskrh. væru högg eins langt undir belti og hann kom með vegna þess að hér ruglar hann tveimur málum saman í von um að hv. þm. hafi ekki hugmynd um hvað hann er að tala. Annars vegar ruglar hann saman þeim þætti Alþjóðabankans sem er aðstoð við þróunarlönd og hins vegar þeim þætti sem er lán til iðnþróaðra ríkja sem eru þó í vandræðum. Ég verð að segja alveg eins og er að bróðurparturinn af þeim útlánum sem Alþjóðabankinn hefur stundað er til Suður-Ameríkuríkja eins og Brasilíu, Argentínu og fleiri þjóða sem hreinlega segja: Við borgum bara ekki meira. Við höfum ekki efni á því. En þessir peningar hafa ekki að því marki sem hæstv. ráðh. vildi gefa í skyn gengið til þróunarríkjanna.

Ég get tekið undir það og ég hugsa að allir þingmenn geti tekið undir það að það væri æskilegra að Ísland gæti náð því prósentustigi sem okkur er ætlað af okkar þjóðarframleiðslu til aðstoðar við þróunarríkin, en að nota það sem rök fyrir því að auka hlutafé okkar í Alþjóðabankanum er ekki góður málflutningur. Það er mjög lélegur málflutningur. Og það væri gaman ef þessari umræðu yrði ekki lokið heldur fengjust upplýsingar um hvað Alþjóðabankinn á útistandandi hjá öðrum þjóðum en þeim vanþróuðu, en þeim þjóðum sem við verðum beinlínis að hjálpa af þeirri manngæsku sem kom fram í tali hæstv. ráðherra. Þar skal ég vera fyrsti þátttakandi við hlið hæstv. ráðherra að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. En ég er ekki til í að taka erlend lán, því að peninga eigum við ekki til, til að fjárfesta í auknu hlutafé í neinni stofnun, hvort sem það er Alþjóðabankinn eða önnur alþjóðastofnun, til að lána svo aftur í iðnþróunarríkin sem ekki ætla sér að borga til baka vegna þess að þau skulda orðið svo mikið að þau ráða ekki við að endurgreiða. Það þarf þá annaðhvort að fella niður vexti eða að fella niður hluta af stofnláni, upphaflegu láni til viðbótar, til þess að viðkomandi aðili borgi eitthvað til baka. Ég vitna í þau háþróuðu lönd sem eru í stríði bæði innbyrðis og við aðra, eins og Argentínu, Brasilíu og fleiri slík, því að hluti af þeim kostnaði hefur farið í herkostnað, bæði út á við og inn á við. Ég tel að það sé ekki að verja heiður þjóðarinnar hér að taka þátt í slíkum kostnaði með aukinni hlutafjáreign Íslands í Alþjóðabankanum. Ég tel alveg þveröfugt að ef við viljum fara út í þá sálma að fá sundurliðað útlán Alþjóðabankans og sjá hvert þeir peningar hafa farið sem Alþjóðabankinn hefur haft til ráðstöfunar, þá geti komið í ljós, og það er mín trúa, að það sé fremur til að verja heiður okkar lands að taka ekki þátt í þeim útlánum eða að taka ekki þátt í að gera þau útlán möguleg.

En ég endurtek að ég skal hvenær sem er taka þátt í því að jafna kjör í þróunarlöndunum. Það er allt annað mál og rök ráðherrans eiga ekki heima í þessum umræðum.