04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

Frumvarp til fjárlaga 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð að gefnu tilefni. Þegar ég lagði af stað úr fjmrn. niður í Alþingi rétt fyrir kl. 2 var verið að byrja fjölföldun á þessum ræðustúf, en þar sem hún telst vera eitthvað um 90 lesmálssíður má vera að verkið þyki nokkuð seinlegt. Það er ætlun fjmrn. nú sem hingað til að fjölfalda þessa ræðu og afhenda hverjum þm. og mér þykir miður að það skuli ekki hafa tekist í tæka tíð. Ég hélt reyndar að þegar hefði verið búið að dreifa henni meðan flutningur ræðu fór fram. Menn mega treysta því að það er þá aðeins tímaspurning hvenær menn fá ræðuna í hendur.

Að því er varðar fundartímann tek ég aðeins fram að upphaflega var gert ráð fyrir fundartíma á fimmtudegi, en samkvæmt þeim upplýsingum sem mér voru gefnar var það að ósk eins þingflokksins, sem nú stendur frammi fyrir landsfundi sínum á morgun, að orðið var við tilmælum um, og samkomulag varð á milli þingflokksformanna um, að færa daginn fram. Það var því til þess að greiða fyrir góðu samstarfi í þinginu. Að því er varðar efnisumræðu málsins ætla ég ekkert að segja. þar talaði ég nægilega skýrt í ræðu minni. (Forseti: Það skal tekið fram að starfsmaður þingsins tjáði mér í þessu að aðeins muni líða ein eða tvær mínútur þar til fjárlagaræðan liggi fyrir.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég finn mig tilknúinn til þess að segja fáein orð um þingsköp. Ástæðan er sú að mér berst til eyrna sá orðrómur að mér sé kennt um það sem fjmrh. að hafa óskað eftir breytingum á fundardegi fyrir fjármálaumræðu og þannig útilokað Borgarafl. frá þátttöku í umræðunni. Þetta virðist ekki hafa komið nægilega skýrt til skila í þeim orðum sem fram komu áðan. Ég vil taka það alveg skilmerkilega fram og af öll tvímæli um það að þetta er rangt með öllu. Ástæðan fyrir breytingu á fundardegi frá fimmtudegi til miðvikudags er sú sem ég gat um: Samkomulag forustumanna þingflokka, þar með væntanlega þingflokks Borgarafl., um að taka tillit til landsfundarhalds Alþb. á morgun. Það er því við engan að sakast um útilokun þingflokks Borgarafl. frá því að gegna skyldum sínum hér á Alþingi og taka þátt í fjárlagaumræðu. Þeir hafa sjálfir ákveðið sinn fundartíma væntanlega vitandi um þessa frestun að því er Alþb. varðar.

Að lokum, herra forseti, get ég ekki orða bundist vegna þess að hæstv. fyrrv. fjmrh., hv. þm. Albert Guðmundsson, fer og ræðir við fréttamenn og rangtúlkar ræðu þá sem hann hlýddi á, með grófum hætti. Hann lætur hafa eftir sér að ég hafi í ræðu minni sagt að það ætti að hefja njósnir um inneignir gamals fólks í bönkum. (Forseti: Forseti vekur athygli á því að hv. þm. sem þessu er beint að er ekki í salnum. Er ekki rétt að hann komi og hlýði á þetta?) Ég tek tillit til þess, herra forseti, en þessum rangtúlkunum var auðvitað beint til annarra og er nauðsynlegt að kveða þær niður. Þær eru með öllu tilhæfulausar úr þessum ræðustól.