12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6263 í B-deild Alþingistíðinda. (4319)

446. mál, Listasafn Íslands

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan fyrir hönd Kvennalistans lýsa yfir ánægju með þetta frv. Það kemur líka á ágætum tíma þegar safnið hefur nýflutt í nýtt húsnæði og er því miklu betur í stakk búið að sinna fjölbreyttri starfsemi.

Það eru nokkur nýmæli í frv. sem ástæða er til að lýsa ánægju yfir. Það hafa komið inn sterkari ákvæði um hlutverk safnsins, svo sem eins og að það skuli sinna núna rannsóknastarfsemi, heimildasöfnun og kynningu á íslenskri myndlist með betri hætti en áður hefur verið. Eins er þarna ákvæði um að afla heimilda um íslenska myndlist að fornu og nýju og kaupa til safnsins nauðsynlegan bókakost, aðgengilegan sérfræðingum og öðrum til fræði- og rannsóknastarfa. Einnig er tekið fram að upp skuli komið sérfræðilegu bókasafni um myndlist. Allt ætti þetta að gera bæði safninu auðveldara að sinna góðri starfsemi og almenningi að nýta sér safnið til fróðleiks og menntunar.

Einnig eru nýmæli í stjórnunarkafla sem eru mjög til bóta og mætti gjarnan reyndar vera til fyrirmyndar í öðrum listastofnunum þar sem ráð hafa mjög verið gagnrýnd eða hvernig þau eru saman sett. Þarna hafa myndlistarmenn tvo fulltrúa og starfsmaður safns verður einn fulltrúi og svo á ráðherrann að skipa formann safnráðs. Þar er tilgreint að hann skuli hafa til að bera sérfræðilega þekkingu á höfundarétti og góða almenna þekkingu á myndlist. Það munu ekki vera margir í landinu sem geta uppfyllt þessi skilyrði svo að það má hugsa sér að það verði erfitt að uppfylla þetta, en þó er þetta ágætismarkmið. Sömuleiðis er nú vel hugsað fyrir fyrirkomulagi á innkaupanefnd.

Í rauninni eru engir stórvægilegir, að manni sýnist, gallar á þessu frv. og því ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta, einungis að lýsa yfir ánægju með að það er fram komið.